Nýtt hús Grunnur nýs hús í Mýrdal er byggður á plastkubbakerfi frá norska framleiðandanum Jackon.
Nýtt hús Grunnur nýs hús í Mýrdal er byggður á plastkubbakerfi frá norska framleiðandanum Jackon. — Morgunblaðið/Jónas Erlendsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úr bæjarlífinu Jónas Erlendsson Mýrdal Þó að komið sé nærri dimmasta tíma ársins virðist ferðamannastraumurinn lítið minnka í Mýrdalnum, þessi straumur ferðamanna kallar á mikið af aðfluttu vinnuafli sem þarfnast húsnæðis, nýjar götur spretta upp og...
Úr bæjarlífinu

Jónas Erlendsson

Mýrdal

Þó að komið sé nærri dimmasta tíma ársins virðist ferðamannastraumurinn lítið minnka í Mýrdalnum, þessi straumur ferðamanna kallar á mikið af aðfluttu vinnuafli sem þarfnast húsnæðis, nýjar götur spretta upp og bygging er hafin á fjölda íbúða. Ein af nýju götunum í víkinni er Strandvegur en þar er hafin bygging á þremur þriggja íbúða húsum sem koma tilbúin frá Noregi. Þá er bygging fjögra íbúða á vegum Mýrdalshrepps langt komin. Einnig er Elías Guðmundsson hjá Hótel Vík að byggja nokkrar íbúðir og fleiri einstaklingar.

Aukinn ferðamannastraumur kallar á fjölbreyttari afþreyingu og til að koma til móts við það er verið að byggja hesthús sem á að hýsa hestaleigu tveggja ungra kvenna úr Mýrdalnum, sem hefur verið rekin við ófullnægjandi aðstæður í nokkur ár.

Þá er í bígerð bygging tveggja hótela austast í þorpinu.

En þó að allt sé á fullu í framkvæmdum þá vantar tilfinnanlega starfsfólk. Leikskólinn er í vandræðum með að manna stöður og ef ekki tekst að ráða fólk mun þurfa að senda börn heim eftir áramót.

Ný verslun var tekin í notkun í Vík fyrir skömmu, sem kallast KR og er hún í alla staði mjög glæsileg. Margir bundu vonir við að verslun myndi færast heim í hérað með tilkomu hennar. En eitthvað hefur gleymst að það eru fleiri en ferðamenn sem versla þar, því að vöruúrvalið virðist eingöngu hugsað með þarfir ferðamanna í huga, og margar almennar neysluvörur hreinlega vantar.

Þessa dagana er unnið að gerð sandfangara í fjörunni í Vík en honum er ætlað að verja ströndina sunnan við þorpið sem sjórinn var farin að éta verulega af. Áður var búið að byggja annan sandfangara, á árunum 2011-2012. Þó að byggingu þess seinni sé ekki lokið er greinilegt að þeir eru þegar farnir að sanna gildi sitt.

Lionsklúbburinn Suðri hefur verið afar duglegur að gefa heilsugæslunni ýmis tæki. 4. desember bíður hann ásamt Heilsugæslunni í Vík upp á ókeypis blóðsykursmælingu í tilefni af alþjóðadegi sykursjúkra og forvarnarverkefni Lionshreyfingarinnar.

Þó að sauðfjárbændur hafi ekki átt sitt besta ár hvað varðar afkomu eru þeir farnir að hýsa fénað sinn og búa undir komandi fengitíð, í von um að með nýju ári vænkist hagur þeirra á ný.