Ráðherra Guðmundur Ingi Guðbrandsson hefur tekið við embætti umhverfisráðherra. Hann hefur starfað sem framkvæmdastjóri Landverndar.
Ráðherra Guðmundur Ingi Guðbrandsson hefur tekið við embætti umhverfisráðherra. Hann hefur starfað sem framkvæmdastjóri Landverndar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Guðmundur Ingi Guðbrandsson tók við embætti umhverfisráðherra í gær. Hann hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Landverndar um árabil. Óhætt er að segja að innkoma Guðmundar sé óvenjuleg.

Baksvið

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Guðmundur Ingi Guðbrandsson tók við embætti umhverfisráðherra í gær. Hann hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Landverndar um árabil. Óhætt er að segja að innkoma Guðmundar sé óvenjuleg. Þótt ráðherrar hafi verið sóttir út fyrir Alþingi reglulega finnast þess ekki dæmi að þeir hafi farið fyrir baráttusamtökum í viðkomandi málaflokki áður.

Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðingur segir að innkoma Guðmundar sé þó í raun afskaplega svipuð og þegar Ólafur Ragnar Grímsson varð fjármálaráðherra.

„Guðmundur er utanþingsmaður en hann er ekki utan stjórnmálanna. Landvernd er pólitísk félagasamtök, samtök sem starfa að pólitísku markmiði og hann tilheyrir auk þess VG. Þess vegna er hann pólitískur ráðherra. Hann er ekki fagráðherra sem stendur utan við stjórnmálin eins og reynt var að gera með Gylfa Magnússon og Rögnu Árnadóttur. Það er munurinn,“ segir Eiríkur Bergmann.

Vanhæfi ekki vandamál

„Það má gera greinarmun á þessum tveimur tegundum. Guðmundur er eflaust valinn af faglegum ástæðum en hann er ekki bara valinn af þeim ástæðum. Hann er líka valinn vegna stjórnmálanna,“ segir Eiríkur Bergmann.

Þegar hefur komið upp umræða um hvort umhverfisráðherrann nýi kunni að vera vanhæfur þegar kemur að málum sem hann hefur áður beitt sér gegn í fyrra starfi sínu. Eiríkur kveðst telja að það sé ekki stórt vandamál fyrir stjórnina.

„Þá víkur hann bara sæti í þeim málum og annar ráðherra er skipaður við afgreiðslu viðkomandi mála. Ráðherrar hafa oft verið vanhæfir vegna fyrri starfa, fyrri embættisfærslna eða einhvers sem þeir hafa sagt.“

Ráðherra hefur þegar velt því upp hvort skynsamlegt sé að reisa Hvalárvirkjun í Árneshreppi. Nefndi hann í viðtali á Rás 2 að skynsamlegt væri að bera saman kosti þess að reisa umrædda virkjun og að stofna þar þjóðgarð. Hann sagði jafnframt að sú skýring að virkjunin myndi auka raforkuöryggi á Vestfjörðum væri langsótt. „Það sem þarf að laga varðandi raforkumál á Vestfjörðum er að tryggja betur afhendingaröryggi orku. Þar myndi ég vilja sjá að horft yrði til hvaða möguleikar eru til staðar til að setja raflínur í jörð á þessu svæði.“

Fagna áherslum stjórnarinnar

Guðmundur Ásmundsson, forstjóri Landsnets, fagnar áherslum í stjórnarsáttmálanum enda kannski næg verkefni fram undan. „Í ljósi stöðunnar á flutningskerfinu er mikilvægt fyrir okkur að stjórnarsáttmálinn leggi áherslu á þennan mikilvæga innvið sem raforkuflutningskerfið er. Orkustefna til lengri tíma, áhersla á uppbyggingu kerfisins og ekki síst áhersla á bætta skilvirkni stjórnsýslunnar þegar kemur að ákvörðunum sem tengjast línulögnum eru allt þættir sem hafa mikið vægi. Ég óska nafna mínum, nýjum umhverfisráðherra, til hamingju með starfið og á ekki von á öðru en eiga gott og faglegt samstarf við hann eins og aðra ráðherra.“