[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Kristján Jónsson kris@mbl.is Jón Guðni Fjóluson, landsliðsmaður í knattspyrnu, fékk góða dóma fyrir frammistöðu sína með Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni á nýafstöðnu keppnistímabili. Liðið hafnaði í 6.

Fótbolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Jón Guðni Fjóluson, landsliðsmaður í knattspyrnu, fékk góða dóma fyrir frammistöðu sína með Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni á nýafstöðnu keppnistímabili. Liðið hafnaði í 6. sæti í deildinni og var Jón sums staðar á meðal bestu varnarmanna á tímabilinu að mati fjölmiðlamanna.

„Frammistaða liðsins var upp og niður. Við vorum við toppinn alveg fram að sumri þegar félagaskiptaglugginn opnaðist. Þá misstum við nokkra leikmenn sem voru með stór hlutverk í liðinu. Leikmenn sem höfðu skorað og gefið stoðsendingar. Leikmannahópurinn var eðlilega þynnri eftir það og liðið féll niður fyrir efstu sætin í stigatöflunni. Persónulega átti ég mjög gott tímabil og er ánægður með mína frammistöðu,“ sagði Jón Guðni sem var á sínum stað í vörninni sem miðvörður.

„Fyrri helminginn var ég annar af tveimur miðvörðum í kerfinu 4-4-2. Við breyttum yfir í vörn með þrjá miðverði síðustu sjö leikina og þá var ég einn af þeim þremur,“ útskýrði Jón þegar Morgunblaðið spjallaði við hann.

Tekur ekki mark á öllu

Jón Guðni er hógvær þegar talið berst að umsögnum um hann í sænskum fjölmiðlum.

„Auðvitað er skemmtilegt að fá góða dóma þótt maður taki ekki alltaf mark á fjölmiðlunum. Skoðanir eru skiptar þegar leikmenn eru metnir en það er óneitanlega betra að vera með í umræðunni. Í Svíþjóð eru margir fjölmiðlar og áherslur þeirra geta verið misjafnar eftir því hvar þeir eru staðsettir. Sum lið fá mikla athygli en önnur fá enga athygli. Flestir fjölmiðlar velja lið ársins, eða eru með einkunnagjöf, og mér skilst að ég sé yfirleitt með í þeirri umræðu,“ sagði Jón og honum líkar vel hjá Norrköping.

„Ég er mjög sáttur hérna. Ég kom til liðsins eftir að liðið varð meistari og segja má að verið sé að byggja upp á nýtt. Þar af leiðandi hafa orðið miklar breytingar á liðinu frá því ég kom og fáir leikmenn sem voru þá í liðinu sem enn eru í hópnum. Félagið kaupir ekki mörg stór nöfn heldur veðjar frekar á leikmenn sem hægt sé að gera betri og selja síðar fyrir hærri upphæðir. Ég kann vel við mig enda hef ég spilað vel og bætt mig mikið,“ sagði Jón sem er samningsbundinn út næsta ár. Jón segir forráðamenn félagsins hafa nefnt við sig að þeir vilji gera nýjan samning en hann hefur ekki fengið tilboð inn á borð til sín um það. Jón segist vera rólegur yfir því og ágætt sé að sjá hvernig liðinu gengur á næsta tímabili áður en lengra sé haldið. „Ég er ekkert að reka á eftir þessu og skoða bara hvaða möguleikar verða í stöðunin þegar þar að kemur.“

Vill fara á HM eins og aðrir

Jón Guðni fór með A-landsliðinu í leikina tvo í Katar á dögunum þar sem landsliðið undirbjó sig fyrir lokakeppni HM sem fram fer í Rússlandi næsta sumar. Hann var í byrjunarliðinu gegn Katar, rétt eins og í tveimur fyrstu landsleikjum ársins, gegn Kína og Síle.

„Ferðin var virkilega fín nánast í alla staði en við vorum þó ekki alveg nógu ánægðir með frammistöðuna í leikjunum,“ sagði Jón og gat ekki neitað því að mikil spenna væri í loftinu hjá þeim sem eru að berjast um sætin í HM-hópnum á komandi ári.

„Já og það er eitthvað sem maður hugsar um enda erfitt að komast hjá því. Eins og allir aðrir þá vil ég vera í hópnum sem fer á HM næsta sumar. Til þess verður maður að halda áfram að standa sig vel,“ sagði Jón Guðni Fjóluson.


Jón Guðni Fjóluson
» Fæddist 1989
» Gekk til liðs við Norrköping árið 2016.
» Gerðist atvinnumaður árið 2011.
» Lék áður með Fram, Beerschot í Belgíu og Sundsvall í Svíþjóð.
» Á að baki 11 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.