[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Hvernig á að taka á „fölskum fréttum“? Hvaða mörk er rétt að setja á málfrelsi og rétt fólks til þess að halda fram röngum staðreyndum? Þetta er á meðal þeirra spurninga sem Alan M.

Sviðsljós

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Hvernig á að taka á „fölskum fréttum“? Hvaða mörk er rétt að setja á málfrelsi og rétt fólks til þess að halda fram röngum staðreyndum? Þetta er á meðal þeirra spurninga sem Alan M. Dershowitz, einn þekktasti lögfræðingur Bandaríkjanna, veltir fyrir sér í grein sinni í afmælisriti Jóns Steinars Gunnlaugssonar, fyrrverandi hæstaréttardómara, sem kom út í haust í tilefni af sjötugsafmæli hans.

Dershowitz er meðal annars þekktur fyrir að hafa verið í lögfræðingateymi ruðningskappans O.J. Simpsons, sem sýknaður var af ákæru um að hafa myrt fyrrverandi eiginkonu sína og ástmann hennar á tíunda áratug 20. aldarinnar. Á meðal annarra þekktra skjólstæðinga Dershowitz á löngum lögmannsferli má nefna Patty Hearst og hnefaleikakappann Mike Tyson.

Þegar helförinni er afneitað

Í grein sinni, sem rituð er á ensku, nefnir Dershowitz afneitun helfararinnar gegn gyðingum sem öfgakenndasta dæmið um það þegar röngum staðreyndum er haldið fram. Segist Dershowitz fá á hverjum einasta degi fjölmarga tölvupósta frá ýmsum „stofnunum“ þar sem reynt sé að þræta fyrir þá staðreynd að nasistar hafi reynt að útrýma gyðingum með skipulegum hætti í síðari heimsstyrjöld. Líkir Dershowitz helfararafneitunum við iðnað að þessu leyti, sem furðumargir hafi atvinnu sína af.

Dershowitz lýsir því yfir að hann styðji rétt þeirra sem vilji ljúga til um mannkynssöguna til þess að setja lygar þeirra fram í því sem hann nefnir „hið opna markaðstorg hugmyndanna“, en á þeim vettvangi almannaumræðu geti allt rökhugsandi fólk hafnað þeim. Nefnir Dershowitz í því samhengi að hann hafi varið rétt nýnasista til þess að fara í skrúðgöngu um smábæinn Skokie, en þar bjuggu margir sem lifað höfðu helförina af.

Dershowitz gerir þó greinarmun á málfrelsi og akademísku frelsi fræðimanna. Enginn háskóli ætti að þola að „akademískt frelsi“ sé misnotað innan veggja hans, að þar sé ósönnum fullyrðingum haldið að nemendum. Hann er þó þeirrar skoðunar að utan kennslustofunnar sé réttur fræðimanna til þess að tjá sig um umdeild efni eða á umdeilanlegan hátt óskertur.

Að sama skapi verður hlutverk fjölmiðla að skoðast í svipuðu ljósi. Þeir ættu að fjalla um þá staðreynd að til sé fólk sem afneiti helförinni en ekki birta sjálfir fullyrðingar þess efnis að hún hafi ekki átt sér stað.

Hver á að dæma?

Og þar kemur Dershowitz að helsta vandanum þegar kemur að „fölskum fréttum“. Hvernig eiga fjölmiðlar, fræðimenn og almenningur að fjalla um slíkt? Eiga fjölmiðlar að birta yfirlýsingar stjórnmálamanna sem þeir hafa látið athuga og komist að raun um að eru uppspuni? Hver getur í frjálsu samfélagi sest í dómarasæti og ákveðið hvað sé satt og hvað logið?

Dershowitz segir að við þessum spurningum séu engin einföld svör að öðru leyti en að ríkisvaldinu ætti ekki að vera falið það hlutverk að finna endimörk málfrelsisins, þar sem gagnrýni á yfirvöld verði alltaf að vera leyfð. Þá sé í netheimum engin leið til þess að tryggja það að sannleikurinn verði alltaf ofan á. „Á endanum mun almenningur alltaf ákveða hverju eigi að trúa, hvað eigi að efast um og hverju eigi að hafna. Og hann mun ekki alltaf taka viturlegar ákvarðanir á tímum þar sem lygar geta dreift sér á meiri hraða en nokkru sinni fyrr,“ ritar Dershowitz.

„Málfrelsi og hið opna markaðstorg hugmyndanna veita enga fullvissu um að sannleikur, réttlæti eða siðgæði verði ofan á. Í besta falli er málfrelsið ekki eins slæmt og helstu valkostirnir við það, svo sem ritskoðun ríkisvaldsins, opinberar sannleikssveitir eða tilraunir til að loka á markaðstorg hugmyndanna,“ segir Dershowitz í niðurlagi greinar sinnar.