Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Gista þarna glæponar. Gjarnan sest í hlandkoppinn. Skeytt við nafn hans Völu var. Við hann bind ég Grána minn. Guðrún Bjarnadóttir svarar; Ég kastaði krimma í steininn. Í koppum þar hlandsteinninn...

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Gista þarna glæponar.

Gjarnan sest í hlandkoppinn.

Skeytt við nafn hans Völu var.

Við hann bind ég Grána minn.

Guðrún Bjarnadóttir svarar;

Ég kastaði krimma í steininn.

Í koppum þar hlandsteinninn myndast.

Með steinvölu lukust upp leynin.

Ég lét skúrk við hestastein bindast.

Þessi er lausn Helga R. Einarssonar:

Við hland- og Völu- og hesta- skeytt.

Hættulegir gista þar.

Ég stend á því, hér stenst bara' eitt.

Steinninn hæfir alls staðar.

Harpa á Hjarðarfelli sendi ekki lausn við síðustu gátum og gefur þessa skýringu:

Ég ekki gátum yfir sat

og engu frá mér skilaði.

Það hefur verið ógnar at

og internetið bilaði.

En hér kemur hún með lausn á gátu dagsins:

Steininn gista glæponar.

Gulur steinn í kopp.

Eru steinar allskonar.

Og við stein er stopp.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:

Í steini gista glæponar.

Gjarnan í kopp sest hlandsteinninn.

Til Völu-Steins ég vísa þar.

Við stein bind ég Grána minn.

Þá er limra:

Hann Tómas með tignarlegt fasið

tæmdi síðasta glasið

og gekk svo í stúku

ásamt Steini frá Klúku,

en Steinn var kominn í grasið.

Og loks ný gáta eftir Guðmund:

Næturskýin hurfu hratt,

hressum eftir morgunbað

hitt og þetta í hug mér datt,

hér er gáta sett á blað:

Hann er gróðurgeiri í fjalli.

Golfleikur hefst á þeim stalli.

Dagslátta á túni talinn.

Telst líka nýsleginn balinn.

Vetur konungur bankar á dyrnar hjá hagyrðingum. Ármann Þorgrímsson brást skjótt við:

Er nú tíðin orðin hörð,

okkur fátt til varnar,

skítaveður skekur jörð,

skjálfa kerlingarnar.

Og síðan Ingólfur Ómar:

Vetrar gjalla veður stríð,

viknar fjallahringur.

Þekur stalla, holt og hlíð

hvítur mjallarbingur.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is