[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Eftir 30 ára hlé sendir Gunnar Þórðarson tónskáld nú frá sér hljómplötu með eigin lögum. Sú kom út fyrir nokkrum dögum og heitir 16 .

Viðtal

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Eftir 30 ára hlé sendir Gunnar Þórðarson tónskáld nú frá sér hljómplötu með eigin lögum. Sú kom út fyrir nokkrum dögum og heitir 16 . Alls eru sextán lög á plötunni sungin af 12 söngvurum; mörgum af þeim bestu í dag. „Þetta er fólk sem mig einfaldlega langaði að starfa með og það var tilbúið í slíkt. Lögin á plötunni eru annars það sem hreinlega hefur komið til mín á undanförnum árum. Oft situr maður við gítarinn eða píanóið og spilar eitthvað út í loftið þannig að melódíur fæðist. Margar gleymast en nokkrar sitja þó alltaf eftir í heilaberkinum og hér eru þær komnar,“ sagði Gunnar í samtali við Morgunblaðið í vikunni.

Valdi besta fólkið til samstarfs

Söngvarar á plötunni nýju eru Jóhanna Guðrún Jónsdóttir, Sigríður Thorlacius, Stefanía Svavarsdóttir, Stefán Jakobsson, Sara Blandon, Zakarías Hermann Gunnarsson, Elmar Gilbertsson, Stefán Hilmarsson, Eyþór Ingi Gunnlaugsson, Björgvin Halldórsson, Þórdís Sævarsdóttir, Gísli Magna og Katrín Halldóra Sigurðardóttir, sem slegið hefur í gegn í söngleiknum Ellý sem sýndur hefur verið síðustu mánuði í Borgarleikhúsinu við góða dóma.

Um textana á plötunni er sömu sögu að segja; þar valdi Gunnar besta fólkið til samstarfs. „Þegar lögin voru komin fór ég með þau til höfunda sem ég taldi líklegt að kæmu með texta sem hæfðu, eins og raunin varð,“ segir Gunnar og nefnir þarna rithöfundana Vigdísi Grímsdóttur, Hallgrím Helgason og Guðmund Andra Thorsson en textahöfundarnir eru alls tólf.

„Fyrir þessa plötu samdi ég 20-30 lög og nota síðan helminginn. Eitthvað af því sem varð eftir bíður á harða disknum í tölvunni og nýtist vonandi síðar. Mér finnst að minnsta kosti alltaf skipta miklu máli að næla mér í góða melódíu. Annars finnst mér áberandi að í dag leggja tónlistarmenn ekki jafn mikið upp úr laglínunni og var en þeim mun meira upp úr hljómi og takti laganna þótt kannski sé engin ein tónlistarstefna ráðandi,“ segir Gunnar. Hann reiknar með að strax á nýju ári verði tónleikar með lögum af hljómplötunni 16 þar sem nokkrir af hinum ágætu tónlistarmönnum sem þar eiga hlut að máli komi fram. Nánar er platan kynnt á vefsetrinu gunnarthordarson.com þar sem líka er hægt að kaupa gripinn og fá sendan heim.

Semur um Tyrkjaránið

Á hálfri öld hefur Gunnar sent frá sér eða tekið þátt í gerð fjölda hljómplatna. Lögin hans skipta hundruðum, þau kunna flestir og skipa sterkan sess í vitund og menningu þjóðarinnar.

Um árabil starfaði Gunnar á Broadway og Hótel Íslandi sem tónlistarstjóri við uppsetningu ýmissa sýninga þar en þegar þeim tíma lauk sneri hann sér í ríkari mæli að klassískri tónlist – og útkoman úr því starfi var óperan Ragnheiður sem var sýnd árið 2013.

Óperan fjallar um Ragnheiði Brynjólfsdóttur, biskupsdóttur í Skálholti á 17. öld, ástarsamband hennar við lærimeistara sinn, Daða Halldórsson, og fordæmingu föður hennar, Brynjólfs biskups Sveinssonar, á því sambandi.

„Óperuformið er áhugavert og ég er kominn nokkuð áleiðis með þá næstu, en þar byggi ég á Tyrkjaráninu árið 1627. Ég hef lesið mikið um þessa atburði, sem margir hafa skrifað um – rétt eins og Ragnheiði Brynjólfsdóttur. Við Böðvar Guðmundsson rithöfundur erum að vinna saman handrit að óperunni en til þess að ljúka verkinu þurfum við nokkur misseri enn,“ segir tónskáldið Gunnar Þórðarson að síðustu.