Stórkrossinn Æðsta stig fálkaorðunnar sem aðeins örfáir hafa hlotið.
Stórkrossinn Æðsta stig fálkaorðunnar sem aðeins örfáir hafa hlotið.
Þegar Bjarni Benediktsson lét af embætti forsætisráðherra á fimmtudaginn hafði hann enn ekki hlotið stórkrossinn, æðsta sig fálkaorðunnar, sem forsætisráðherrar Íslands eru jafnan sæmdir.

Þegar Bjarni Benediktsson lét af embætti forsætisráðherra á fimmtudaginn hafði hann enn ekki hlotið stórkrossinn, æðsta sig fálkaorðunnar, sem forsætisráðherrar Íslands eru jafnan sæmdir. Skýringin er sú að hann var stutt í embætti og engir viðburðir á þeim tíma sem knúðu á um orðuveitingu. Stórkrossinn bera orðuhafar einkum í móttökum og veislum þjóðhöfðingja. Aftur á móti fékk Sigðurður Ingi Jóhannsson stórkrossinn, þótt hann væri einnig stuttan tíma í embætti, en það var vegna þess að hann gegndi embættinu við innsetningarathöfn forseta Íslands í ágúst í fyrra. Dæmi eru um það frá fyrri árum að forsætisráðherrar hafi verið sæmdir stórkrossi eftir að þeir létu af embætti.

Jóhanna Sigurðardóttir, sem var forsætisráðherra frá 2009 til 2013, var ekki sæmd stórkrossinum. Upplýst var á sínum tíma að hún hefði hafnað orðuveitingunni. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fékk aftur á móti stórkrossinn árið 2014 þegar hann gegndi embætti forsætisráðherra. Hinn nýi forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttur, hefur ekki fengið fálkaorðuna.

Frá lýðveldisstofnun hafa flestir forsætisráðherrar hlotið stórkrossinn, flestir meðan þeir gegndu embætti en nokkrir við önnur tækifæri. Auk ráðherranna Bjarna Benediktssonar og Jóhönnu Sigurðardóttur eru forsætisráðherrarnir fyrrverandi Hermann Jónasson, Benedikt Gröndal og Steingrímur Hermannsson ekki á skrá yfir orðuhafa stórkrossins eða annarra stiga fálkaorðunnar. Skráin er aðgengileg á vef embættis forseta Íslands.

Orðan stofnuð 1921

Fálkaorðan er æðsta heiðursmerkið sem íslenska ríkið veitir mönnum. Stofnað var til orðunnar árið 1921. Fálkinn vísar til þess að fálkar voru taldir glæsileg gjöf til tignarmanna á fyrri öldum og voru lengi útflutningsvara frá Íslandi auk þess sem fálki var uppistaðan í skjaldarmerki Íslands á árunum 1903-1919. Í forsetabréfi um fálkaorðuna segir m.a.: „Fálkaorðan er borin við kjólföt, síða kjóla eða hátíðarbúninga einkennisfata ríkisins í hátíðarsamkomu þar sem þjóðhöfðingi er viðstaddur og mælst er til orðuburðar. Orðuþegar geta einnig borið fálkaorðuna við dökk föt eða spariklæðnað við önnur tækifæri, svo sem á þjóðhátíðardaginn, nýársdag, sjómannadag eða öðrum hátíðisdögum, á héraðshátíðum eða persónulegum tyllidögum. Sama gildir um þá orðuþega sem bera einkennisklæðnað íslenska ríkisins. Barmmerki fálkaorðunnar, rósettu, má bera við jakkaföt og sambærilegan kvenklæðnað þegar orðuþega þykir henta og má gera það daglega.“