[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Eigendur fasteignaþróunarfélagsins Mannverks hafa keypt fjölda fasteigna í Reykjavík undir gististarfsemi. Félagið starfar náið með Ólafi Ólafssyni, sem gjarnan er kenndur við Samskip. Það samstarf nær m.a.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Eigendur fasteignaþróunarfélagsins Mannverks hafa keypt fjölda fasteigna í Reykjavík undir gististarfsemi. Félagið starfar náið með Ólafi Ólafssyni, sem gjarnan er kenndur við Samskip. Það samstarf nær m.a. til tveggja fyrirhugaðra hótela á Tryggvagötu og Héðinsreit. Fyrrnefnda hótelið verður opnað á næsta ári en óvíst er hvenær uppbygging á Héðinsreit hefst. Á vef Festis segir að félagið Ívarssel hafi verið stofnað um uppbygginguna. Það sé í eigu Festis og Mannverks.

Festir, félag Ólafs og konu hans, Ingibjargar Kristjánsdóttur, er að breyta Suðurlandsbraut 18 í hótel. Þá kom fram í fjölmiðlum í haust að Festir undirbýr 150 herbergja hótel á landi Eiðhúsa á Snæfellsnesi. Þá má nefna að Festir hyggst byggja íbúðir á Gelgjutanga í Reykjavík.

Mannverk er í eigu framkvæmdastjóra félagsins, Hjalta Gylfasonar, og Jónasar Más Gunnarssonar.

Kostaði um 800 milljónir

Þeir eru skráðir fyrir 90% hlut í félaginu Laugavegi 56 ehf. í gegnum félagið Laxamýri. Skv. ársreikningi Laugavegar 56 ehf. 2016 keypti félagið það ár byggingu, fasteign, lóð og byggingarrétt á Barónsstíg 28, Hverfisgötu 98a, 100 og 100a, Skúlagötu 40a og Njálsgötu 64. Fyrir átti félagið húseignina Laugaveg 145. Heildarkaupverð þessara eigna var sagt nema 798,5 milljónum króna.

Dótturfélag Laugavegar 56 ehf., X-459 ehf., á 47 íbúðir á Lindargötu 34-36. Þær eru leigðar út af Reykjavík Apartments, sem er í 10% eigu Roots Iceland og starfsmanna. Roots Iceland er með sama lögheimili og Mannverk. Eigendur 90% hlutar í Reykjavík Apartments og Roots Iceland eru óskráðir hjá Creditinfo. Reykjavík Apartments er með hótelíbúðir á Barónsstíg 28. Laugavegur 56 ehf. á Njálsgötu 64 við hliðina.

Fram kemur á vef Mannverks að félagið undirbúi framkvæmdir við byggingu 12 hótelíbúða á Laugavegi 56 fyrir Reykjavík Apartments.

Á Hverfisgötu 100a og Skúlagötu 40a var félagið Local Apartments Reykjavík með hótelíbúðir. Laugavegur 56 ehf. hefur keypt þessar eignir og tvö samliggjandi hús á Hverfisgötu. Þá er Laugavegur 56 ehf. að breyta Laugavegi 143 og 145 og fjölga íbúðum. Félagið á nr. 145.