[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í fjölmiðlaviðtölum slettir fólk iðulega enskum orðum í ósýnilegum gæsalöppum og bætir svo við (án djóks): „Eins og sagt er á góðri íslensku.“ Þau kurteisustu spyrja þó: „Ef ég má sletta?

Í fjölmiðlaviðtölum slettir fólk iðulega enskum orðum í ósýnilegum gæsalöppum og bætir svo við (án djóks): „Eins og sagt er á góðri íslensku.“ Þau kurteisustu spyrja þó: „Ef ég má sletta?“ Eftir að slettan hefur verið fram borin með glotti um hina „góðu“ íslensku, er íslenska orðinu oft bætt við. Og þá kemur í ljós að það var ástæðulaust að hleypa hinu enska orði út í loftið in the first place eins og sagt er á þessari „góðu“ íslensku því sletturnar voru ekki um hugtök sem okkur vantar orð um. Við eðlilegar aðstæður ætti fólk ekki að þurfa að grípa til erlendra orða nema slík orð hafi borist með nýrri tækni og nýjum hugmyndum sem engin orð hafa verið til um áður. Og þegar þannig háttar til er málinu oft bjargað með nýyrði.

Alkunna er að við höfum lengi reynt að taka frekar upp nýyrði en hrá tökuorð – og náum að halda í við nútímann. Engin tala um teater-leikhús, kar-bíl, telefón-síma eða kompjúter-tölvu. Hversdagleg málnotkun sem byggist í hugsunarleysi á ensku er til vitnis um hvað enskan er alltumlykjandi í lífi okkar. Hún er daglegt mál margra, hvort sem er á vinnustöðum, í tölvunni, fréttalestri eða hreyfimyndahorfi. Að ekki sé talað um ósköpin þegar farið er í verslanir eða á veitingastaði. Þá er betra að geta brugðið fyrir sig enska málinu ef vel á að fara. Íslensku flugfreyjurnar og -þjónarnir hjá arftaka Loftleiða og Flugfélags Íslands eru í eilífðarglímu um hvort óhætt sé að ávarpa farþega á íslensku – þótt íslensk kveðja um „góðan dag“ gæti dugað öllum þar til upp kemst hvaða máli farþeginn kýs að bregða fyrir sig. Þegar fólk lítur upp úr sínum enska málheimi til að svara íslensku fjölmiðlafólki er ekki að undra að ensku orðin komi fyrst upp í hugann. Ónotað mál kemur ekki fyrst í hug.

Oft hefur verið á það bent að málfátæktin virðist meiri þegar talað er við fólk á höfuðborgarsvæðinu heldur en þegar viðmælendur eru úti um sveitir og bæi landsins. En nú er svo komið að þau sem eru vel máli farin eru orðin hálf-feimin við að beita sínu eiginlega tungutaki. Ég heyrði að minnsta kosti ekki betur þegar fréttastofa útvarpsins hringdi í óveðrinu um daginn til manns í Mývatnssveit og spurði hvernig veðrið væri hjá honum. Hann hikaði aðeins en sagði svo hreint út að það væri ekki hundi út sigandi – „eins og gamla fólkið sagði“. Það flögraði að mér að kannski væri þetta tímanna tákn: nú væri orðið vissara að afsaka eðlilegt tungutak af ótta við málfátækt hlustenda sem hafa væntanlega ekki alist upp við það að siga hundum eitt eða neitt. Um leið og við tökum nútímanum fagnandi með nýyrðum er ekki síður mikilvægt að flytja allan orðafarangurinn úr fortíðinni með okkur inn í framtíðina. Og það heppnast ekki nema við höldum áfram að tala, lesa og skrifa íslensku með öllum tiltækum orðum. Alla daga og á öllum sviðum.

Gísli Sigurðsson gislisi@hi.is