Uppstilltur Fatamódelið Styr Júlíusson túlkar gallabuxnaauglýsinga-verk Hugins Þórs Arasonar í sýningunni Rafmagn í Kling & Bang.
Uppstilltur Fatamódelið Styr Júlíusson túlkar gallabuxnaauglýsinga-verk Hugins Þórs Arasonar í sýningunni Rafmagn í Kling & Bang.
Huginn Þór Arason opnar sýningu sína Rafmagn og Mina Tomic & Kobi Suissa opna við sama tækifæri sýninguna 1SINQ2EXIST í dag kl. 17 í Gallery Kling & Bang í Marshallhúsinu.

Huginn Þór Arason opnar sýningu sína Rafmagn og Mina Tomic & Kobi Suissa opna við sama tækifæri sýninguna 1SINQ2EXIST í dag kl. 17 í Gallery Kling & Bang í Marshallhúsinu. Einnig verða til sýnis og sölu prentverk eftir Leif Ými Eyjólfsson, Huldu Vilhjálmsdóttur og David Horvitz, Gelitin og Arnfinn Amazeen.

Verk Hugins á sýningunni Rafmagn eru innblásin af auglýsingaherferð Calvin Klein frá 1980 þar sem leikkonan Brooke Shields, þá aðeins fimmtán ára, situr fyrir í seríu af gallabuxnaauglýsingum sem fóru eins og eldur í sinu um hinn vestræna heim. Auglýsingarnar þóttu djarfar og voru mjög umdeildar á sínum tíma.

Huginn vinnur með viðsnúning hlutverka þar sem hann sjálfur, ásamt karlmódeli, tekst á við hugmyndir um tísku, staðalmyndir, æskudýrkun, ímynd kynjanna, stöðu þeirra í samtímanum, hlutgervingu og rafmagnað rými, spennuna á milli tveggja einstaklinga.

Verk Hugins eru oft einföld og taka á sig nánast barnslegt form og framsetningu. Gjarnan má túlka verk hans sem einskonar sjálfsmynd þar sem nærvera listamannsins ögrar áhorfandanum og hvetur hann til að skyggnast undir yfirborðið og að mörkum hins persónulega og almenna.

Leikur og flakk án tilgangs

Í sýningu Minu Tomic og Kobi Suissa 1SINQ2EXIST fást þau við skilgreiningar og orðfæri ferðalags sem þau yfirfæra á tilveru okkar, eitthvað á milli leiks og flakks án tilgangs sem á sér stað í annars skilvirkum raunveruleika og ofsafegurð óraunveruleika hans. Í verkum Minu er það reynsla hennar af líkamlegri hreyfingu sem dregur fram samtöl sem skila sér út í umhverfið og tungumálið. Til þess að öðlast á ný umboð efnis og sjálfsvitundar skoðar Mina nýjar leiðir í gegnum efahyggju í formi hreyfinga.

Í vídeóverkum sínum virðist Kobi Suissa upptekinn af frásögninni um konuna sem bæði sér og veit allt. Þetta kemur fram í tilkynningu frá galleríinu.