Farþegaflug Q400-vél félagsins.
Farþegaflug Q400-vél félagsins. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Í báðum tilfellum var um að ræða bilun í hjólabúnaði, en vélarnar eru af sitthvorri tegundinni og bilanirnar einnig ólíkar,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect, við Morgunblaðið.

„Í báðum tilfellum var um að ræða bilun í hjólabúnaði, en vélarnar eru af sitthvorri tegundinni og bilanirnar einnig ólíkar,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect, við Morgunblaðið.

Vísar hann í máli sínu til þess þegar tvær flugvélar félagsins biluðu með fárra klukkustunda millibili síðastliðinn miðvikudag. Viðgerðum er lokið og vélarnar komnar í notkun.

Árni segir flugvélarnar vera af gerðinni Bombardier Q400 og Q200. Hafði önnur þeirra lent á Ísafirði en hin á Egilsstöðum þegar bilanirnar komu í ljós.

Getur komið fyrir í öllum vélum

Aðspurður segir Árni loka hafa bilað í hjólabúnaði Q200 og lýsir bilunin sér þannig að lokan hélst opin í stað þess að dragast inn. „Þetta er loka sem opnast út og fer svo fyrir hjólabúnað vélarinnar þegar hann er kominn upp. En hún virkaði ekki sem skyldi í þessu tilfelli,“ segir hann og bætir við að bilunin í Q400 hafi átt sér stað í nefhjóli.

Spurður hvort áðurnefndar bilanir séu sjaldséðar í flugvélum Bombardier svarar Árni: „Nei, þetta er ekkert sérstaklega óvenjulegt og getur komið fyrir í þessum vélum eins og öðrum. Það er hins vegar búið að gera við þetta og vélarnar eru komnar í gang aftur.“ khj@mbl.is