Það er vinsælt að reyna að koma inn samviskubiti hjá Vesturlandabúum fyrir að hafa það gott.

Það er vinsælt að reyna að koma inn samviskubiti hjá Vesturlandabúum fyrir að hafa það gott. Ríkisútvarpið ræddi til dæmis við umhverfisverkfræðing hjá Háskóla Íslands sem telur að skilvirkasta leiðin til að „minnka mengun Íslendinga væri að minnka neyslu þjóðarinnar“. Hann telur þó ekki mjög líklegt að það gerist „því við stefnum alltaf beinlínis á meiri og meiri neyslu“.

Fyrst verið er að tala um skilvirkar en ólíklegar aðferðir til að draga úr mengun má benda á að Íslendingar mundu líka menga minna ef þeir væru færri og sennilega er það langsamlega skilvirkasta leiðin til að minnka mengun. Vonandi verður hún ekki farin frekar en sú „skilvirka“ leið sem umhverfisverkfræðingurinn nefndi.

Íslendingar þurfa eins og aðrar þjóðir að ganga vel um náttúruna, en það skiptir máli að umræða um slík mál sé raunsæ, sanngjörn og laus við öfgar.

Það hefur til dæmis lítið upp á sig að skammast út í Íslendinga fyrir að flytja inn mikið af vörum sem framleiddar séu með skítugri orku en þeirri sem hér er, en berjast á sama tíma gegn því að hreina orkan verði virkjuð til að auka hreina framleiðslu hér á landi.

Íslendingar þurfa eins og aðrir að nýta nýja tækni og önnur tækifæri sem bjóðast til að fara umhverfisvænar leiðir. Hugmyndir um að landsmenn taki upp meinlætalíf til að falla inn í reikniformúlur hafa á hinn bóginn lítið upp á sig.