Við Hlemm Á Center-hótel Miðgarði eru samtals 170 herbergi.
Við Hlemm Á Center-hótel Miðgarði eru samtals 170 herbergi. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri og eigandi Center-hótelkeðjunnar, segir það mikið áhyggjuefni að í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar sé boðað að taka upp hlutfallslegt gistináttagjald.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri og eigandi Center-hótelkeðjunnar, segir það mikið áhyggjuefni að í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar sé boðað að taka upp hlutfallslegt gistináttagjald.

Keðjan á sex hótel í miðborg Reykjavíkur og undirbýr byggingu tveggja nýrra.

Máli sínu til stuðnings bendir Kristófer á að virðisaukaskattur myndi þá leggjast ofan á gistináttagjaldið. Virðisaukaskattur sé enda lagður á heildarverð í lokin. Því muni boðuð veltutenging gistináttagjalds auka útgjöld hótela vegna virðisaukaskatts. Með þetta í huga sé það skammgóður vermir að ríkisstjórnin hyggist falla frá fyrirhugaðri hækkun virðisaukaskatts á gistingu. Til upprifjunar ætlaði fráfarandi stjórn að hækka virðisaukaskatt á gistingu úr 11% í 22% árið 2019. Gistináttagjald var hins vegar þrefaldað í haust úr 100 kr. í 300 kr. á hverja gistieiningu.

Þekkir ekki önnur dæmi

„Ég hef í fljótu bragði ekki fundið dæmi um það í öðrum löndum að gistináttaskattur sé veltutengdur,“ segir Kristófer.

Fram kemur í stjórnarsáttmálanum að ný ríkisstjórn hyggst skoða komu- eða brottfarargjald í ferðaþjónustu. „Gistináttagjald færist yfir til sveitarfélaga á kjörtímabilinu í tengslum við viðræður ríkis og sveitarfélaga um endurskoðun tekjustofna. Gjaldinu verður breytt þannig að það verði hlutfallslegt,“ segir í sáttmálanum um þetta efni.

Kristófer rifjar upp áform Steingríms J. Sigfússonar, nýs forseta Alþingis og fjármálaráðherra í tíð vinstristjórnarinnar 2009 til 2013, um að leggja á samhliða farþegagjald og gistináttagjald, en frumvarp þess efnis var lagt fram árið 2011.

Drógu í land með gjöldin

„Síðan þróuðust málin þannig að hætt var við að leggja á komugjöld. Svo hættu menn við að leggja gistináttagjaldið á um helming þeirra aðila sem áttu að greiða gjaldið, á borð við fjallaskála og orlofsheimili. Við teljum okkur hafa gamalt loforð frá stjórnvöldum um að ef lögð verða á komugjöld verði gistináttagjaldið fellt niður. Að mínu mati er rétt að rifja upp þetta loforð ef samstaða er um að leggja á komugjöld. Ég tel mjög óeðlilegt að taka út einn kima í ferðaþjónustunni, sem eru löglega rekin hótel, og leggja sértækan skatt á þau, eins og gistináttagjaldið. Slíkur skattur er hvergi innheimtur annars staðar á Norðurlöndunum,“ segir Kristófer.

Hann segir áhyggjuefni að gjaldið verði hlutfallslegt. Það margfaldi áhrifin. Þá rifjar hann upp ummæli Birgittu Jónsdóttur, sem þá sat á þingi fyrir Pírata, um 5% gistináttagjald á kynningu fyrir svonefnda Lækjarbrekkustjórn í aðdraganda þingkosninga haustið 2016. Af þeirri stjórnarmyndun varð ekki.

Framlegðin minni en fullyrt er

Þá rifjar Kristófer upp nýlega skýrslu KPMG um afkomu hótela.

Þar komi fram að framlegð hótela í Reykjavík sé mun minni en ýmsir hafi haldið fram. Þá sé afkoma hótela úti á landi ekki góð. „Eins og KPMG sýndi fram á hefði það verið rothögg fyrir hótelrekstur á landsbyggðinni að hækka virðisaukaskattinn eins og boðað var. Frá sjónarhóli hótelrekenda er enginn munur á hlutfallslegum gistináttaskatti og hlutfallslegum virðisaukaskatti. Hvor tveggja er veltuskattur.“

Ekki náðist í Ólaf Torfason, stjórnarformann Íslandshótela, eða Davíð Torfa Ólafsson, framkvæmdastjóra Íslandshótela, vegna málsins.

Fram kom í áðurnefndri úttekt KPMG að hún byggðist á upplýsingum frá fyrirtækjum sem voru með 4.655 hótelherbergi, eða um helming skráðra herbergja á landinu. Allar stærstu hótelkeðjurnar hafi verið með, auk fjölda smærri aðila.