Í umræðum um landsdómsákæruna á hendur Geir H. Haarde sagðist Steingrímur J. Sigfússon heldur hafa viljað sjá einhverja aðra ákærða. Hann skýrði það ekki nánar.

Í umræðum um landsdómsákæruna á hendur Geir H. Haarde sagðist Steingrímur J. Sigfússon heldur hafa viljað sjá einhverja aðra ákærða. Hann skýrði það ekki nánar. Þorsteinn Pálsson greip ummælin á lofti og sagði, að í málinu hefði Steingrímur bersýnilega talið bakara vera hengdan fyrir smið.

Orðtakið um að hengja bakara fyrir smið á rót sína að rekja til þess, að vorið 1777 sat norski rithöfundurinn Johan Herman Wessel, sem uppi var 1742-1785, á bjórstofu í Vingårdsstræde í Kaupmannahöfn. Við annað borð sat bakari og hið þriðja smiður, en nálægt bjórstofunni stóðu hús, sem hétu Hús smiðsins og Hús bakarans. Inn á bjórstofuna komu sjómenn af Kínafari, og tóku þeir eftir smástund að fljúgast á við smiðinn. Þegar laganna verðir voru kallaðir til, tóku þeir sjómennina höndum og bakarann líka þrátt fyrir áköf mótmæli hans, en smiðnum hafði tekist að laumast út.

Eftir það skrifaði Wessel smásögu um smið, sem braut freklega af sér, svo að taka átti hann af lífi. En þar eð í þorpinu, þar sem hann bjó, var aðeins einn smiður og tveir bakarar, var annar bakarinn hengdur fyrir smiðinn.

Erfitt er að sjá hliðstæðu í landsdómsmálinu. Hvar var þar bakari hengdur fyrir smið? Hliðstæðan er helst sú, að Geir var sakfelldur fyrir aðeins eitt atriði, að taka ekki vanda bankanna upp á ríkisstjórnarfundum, en sýknaður af öllum öðrum ákæruatriðum. En sá, sem hefði átt að taka hinn brýna vanda bankanna upp á ríkisstjórnarfundum, var vitaskuld bankamálaráðherrann, Björgvin G. Sigurðsson. Hann gat þetta þó varla, því að leiðtogi flokks hans, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hélt upplýsingum um þennan alvarlega vanda og að lokum ákvörðunum um hann algerlega frá honum, eins og fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og víðar. Þeir Steingrímur og Þorsteinn hljóta því að eiga við Geir og Ingibjörgu Sólrúnu, ef þeir segja, að í landsdómsmálinu hafi bakari verið hengdur fyrir smið.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is