Afmæli Sveinn Rúnar Hauksson ávarpar afmælissamkomuna.
Afmæli Sveinn Rúnar Hauksson ávarpar afmælissamkomuna. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Félagið Ísland-Palestína minntist 30 ára afmælis síns með samkomu á miðvikudaginn. Hana sóttu um 80 manns að sögn Einars Steins Valgarðssonar, stjórnarmanns í félaginu.

Félagið Ísland-Palestína minntist 30 ára afmælis síns með samkomu á miðvikudaginn. Hana sóttu um 80 manns að sögn Einars Steins Valgarðssonar, stjórnarmanns í félaginu. Heiðursgestir voru Wajih Tmeizi frá Palestínu og Nir Oren frá Ísrael, fulltrúar friðarsamtakanna The Parents Circle – Families Forum.

Afmælisdagurinn 29. nóvember er alþjóðlegur samstöðudagur Sameinuðu þjóðanna með réttindabaráttu palestínsku þjóðarinnar. Félagið Ísland-Palestína var stofnað þann dag árið 1987. Markmið þess er að stuðla að jákvæðum viðhorfum til ísraelsku og palestínsku þjóðanna og vinna gegn hvers kyns aðskilnaðarstefnu. Félagið hefur stutt baráttu Palestínumanna gegn hernámi og rétt flóttafólks til að snúa heim.

Félagið hefur á liðnum árum staðið fyrir heimsóknum Palestínumanna hingað til lands í því skyni að kynna málstað þeirra. Á síðustu árum hefur meginþungi í starfi félagsins snúið að hjálparstarfi á herteknu svæðunum. Annars vegar hefur verið í gangi neyðarsöfnun frá haustinu 2000 til að styrkja hjálparstarf og hins vegar hefur félagið undirbúið og styrkt ferðir sjálfboðaliða sem hafa flestir farið til hjálparstarfa á vegum Palestínsku læknishjálparnefndanna (UPMRC) en þau samtök unnu til viðurkenningar WHO, alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar árið 2002 fyrir framlag til heilsugæslu við erfiðar aðstæður.