Argentína, með Lionel Messi í fararbroddi, mætir Íslandi í fyrstu umferð D-riðilsins á HM í Moskvu laugardaginn 16. júní 2018. Argentína er í 4. sæti heimslista FIFA, á eftir Þýskalandi, Brasilíu og Portúgal, en lenti í miklu basli í undankeppni HM.

Argentína, með Lionel Messi í fararbroddi, mætir Íslandi í fyrstu umferð D-riðilsins á HM í Moskvu laugardaginn 16. júní 2018.

Argentína er í 4. sæti heimslista FIFA, á eftir Þýskalandi, Brasilíu og Portúgal, en lenti í miklu basli í undankeppni HM. Það var ekki fyrr en í lokaumferðinni í Suður-Ameríku sem Argentínumenn tryggðu sér farseðilinn til Rússlands. Messi skoraði þá þrennu í 3:1-útisigri gegn Ekvador eftir að heimamenn höfðu komist yfir í byrjun leiks. Tap hefði þýtt að Argentína hefði ekki einu sinni komist í umspilið.

• Argentína er í sinni 12. lokakeppni HM í röð, hefur verið með samfleytt frá 1974, og verið í lokakeppninni í 16 af 20 heimsmeistaramótum frá upphafi.

• Argentína varð heimsmeistari 1978 og 1986 og fékk silfurverðlaunin 1930, 1990 og 2014.

• Lionel Messi er fyrirliði Argentínu og markahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi með 61 mark í 123 landsleikjum.

• Javier Mascherano, samherji hans hjá Barcelona, er leikjahæstur í liðinu í dag með 141 landsleik.

• Mascherano slær leikjametið innan skamms því Javier Zanetti á metið sem er 143 landsleikir.

• Ísland og Argentína hafa aldrei mæst í A-landsleik karla. vs@mbl.is