[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HM 2018 Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Þjálfarar landsliða Íslands, Argentínu, Króatíu og Nígeríu töluðu af virðingu um andstæðinga sína í gær eftir að ljóst varð að þessi lið yrðu saman í D-riðli á HM karla í knattspyrnu í Rússlandi næsta sumar.

HM 2018

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Þjálfarar landsliða Íslands, Argentínu, Króatíu og Nígeríu töluðu af virðingu um andstæðinga sína í gær eftir að ljóst varð að þessi lið yrðu saman í D-riðli á HM karla í knattspyrnu í Rússlandi næsta sumar. Fyrsti leikur Íslands verður við Argentínu 16. júní, sá næsti við Nígeríu og lokaleikurinn er við Króatíu.

„Íslendingar eru mjög þéttir fyrir. Þeir fylgja vel eftir leikskipulaginu hverju sinni, eru sterkir og áttu mjög góðu gengi að fagna í undankeppninni í Evrópu. Þeir neyddu meira að segja Króatíu til að fara í umspil, en munu koma án pressu og njóta þess að spila á mótinu,“ sagði Jorge Sampaoli, landsliðsþjálfari Argentínu.

Argentínska blaðið La Nación fékk nokkra fyrrverandi landsliðsmenn til að spá í spilin varðandi D-riðilinn: „Ísland kom á óvart í undankeppninni í Evrópu en ætti ekki að valda okkur vandræðum. Króatía er svipuð okkur að styrkleika og Nígería, með sinn líkamlega kraft, krefst alltaf mikils af andstæðingnum. Við ættum að komast áfram,“ sagði gamli miðvörðurinn Roberto Ayala, sem lék vel yfir 100 landsleiki.

Javier Zanetti sagði hins vegar: „Það er lykilatriði að vinna Ísland í fyrsta leik til að öðlast sjálfstraust, en það verður ekki auðvelt. Íslendingar mæta fullir bjartsýni á sitt fyrsta heimsmeistaramót. Króatía spilar mjög vel og ef Nígería á góðan dag er það lið snúinn andstæðingur. Ég held að við lendum ekki í vandræðum en það er ákveðin endurnýjun í gangi og þá er allt erfiðara. Vonandi komumst við áfram en við þurfum að hafa í huga að þetta er ekki auðveldur riðill.“

„Risastórt að fá Argentínu“

Heimir Hallgrímsson, þjálfari Íslands, sagði að sér litist vel á riðilinn: „Það er spennandi að fá Argentínu í fyrsta leik, það gefur þessu krydd fyrir opnunarleik okkar á HM. Þegar við erum á annað borð að stimpla okkur í lokakeppni HM er gott að vaða í Argentínu, sem er samofin minningum í knattspyrnusögunni og lokakeppni. Það er risastórt að fá Argentínu. Það er hins vegar bara fótboltalið og landslið eins og öll önnur og það er hægt að vinna það,“ sagði Heimir við mbl.is. „Það góða við að mæta Króötum er að við höfum unnið þá og vitum að við getum það. Ég á erfitt með að meta Nígeríu, við erum auðvitað ekki búnir að leikgreina þá en það eru góðir einstaklingar í liðum eins og Nígeríu og þjálfarinn er mjög reyndur. Nígería er virkilega verðugur andstæðingur,“ sagði Heimir.

Þó að Ísland hafi mætt Króatíu fjórum sinnum á síðustu árum hefur þjálfari Króata, Zlatko Dalic, sem ráðinn var í lok undankeppni HM, aldrei stýrt liðinu gegn Íslendingum: „Við þekkjum þá [Íslendinga] mjög vel. Við unnum þá í Zagreb en töpuðum á Íslandi. Þetta verður síðasti leikurinn í riðlinum og ræður úrslitum. Þetta er grimmt og baráttuglatt lið. Heilt yfir er þetta ekki svo slæmur riðill en þetta er ekki sá auðveldasti,“ sagði Dalic.

Þjóðverjinn Gernot Rohr tók við Nígeríu í ágúst í fyrra og hann hafði þetta að segja um Íslendinga: „Þeir eiga mjög marga stuðningsmenn sem eru eins og tólfti maður liðsins. Ég sá þá spila á EM 2016 þar sem stuðningsmennirnir voru virkilega öflugir og liðið komst í átta liða úrslit. Stuðningsmennirnir verða þarna og fyrir Ísland verður þetta eins og að spila á heimavelli.“