Sif Gunnarsdóttir
Sif Gunnarsdóttir
Sif Gunnarsdóttir hefur verið ráðin skrifstofustjóri menningarmála hjá Menningar- og ferðamálasviði Reykjavíkurborgar.

Sif Gunnarsdóttir hefur verið ráðin skrifstofustjóri menningarmála hjá Menningar- og ferðamálasviði Reykjavíkurborgar. Sif hefur stýrt Norræna húsinu í Færeyjum undanfarin ár en húsið er stærsta menningarstofnun Færeyja og sinnir öllum tegundum lista og menningar. Alls bárust 54 umsóknir um starf skrifstofustjóra en umsóknarfrestur rann út 19. nóvember.

Sif er með meistaragráðu í menningarmiðlun frá Háskólanum í Óðinsvéum, B.A. í danskri tungu og bókmenntun og diplómanám í rekstrarhagfræði. Hún var forstöðumaður Höfuðborgarstofu á árunum 2007 til 2013.

Skrifstofustjóri menningarmála hjá Menningar- og ferðamálasviði annast almenna stjórnsýslu á vettvangi menningarmála. Skrifstofustjóri ritstýrir auk þess starfsáætlun sviðsins og heldur utan um mótun menningarstefnu, uppfærslu aðgerðaáætlunar og árangursmat sviðsins í menningarmálum.

Frá og með áramótum stýrir skrifstofustjóri einnig viðburðateymi Menningar- og ferðamálasviðs sem sér um Vetrarhátíð í Reykjavík, Barnamenningarhátíð, 17. júní, Menningarnótt og aðventuhátíð.

Sif Gunnarsdóttir hefur störf á næsta ári. sisi@mbl.is