Hvaða mögnuðu íslensku konur ættu heima í bókinni Kvöldsögur fyrir uppreisnargjarnar stelpur – 100 magnaðar konur? – bókinni sem bandaríska tímaritið Forbes segir skyldueign á náttborði hverrar stelpu.

Hvaða mögnuðu íslensku konur ættu heima í bókinni Kvöldsögur fyrir uppreisnargjarnar stelpur – 100 magnaðar konur? – bókinni sem bandaríska tímaritið Forbes segir skyldueign á náttborði hverrar stelpu. Þrjár konur voru beðnar um að tilnefna þrjár íslenskar konur, lífs eða liðnar, sem þeim finnst sóma sér þar best.

Valgerður Þ. Jónsdóttir

vjon@mbl.is

Nöfnin Artemisia Gentileschi, Nettie Stevens og Wangari Maathi hljóma kannski ekki kunnugleg í allra eyrum. Þau eru meðal eitt hundrað kvennafna í nýútkominni bók, Kvöldsögur fyrir uppreisnargjarnar stelpur – 100 magnaðar konur, eftir Elenu Favilli og Francescu Cavallo. Og fyrrnefndar þrjár konur; listmálari, erfðafræðingur og baráttukona, eru í hópi „alvörustelpna sem sigruðust á hindrunum og ruddu brautina fyrir þær sem á eftir komu“, eins og þar stendur.

Að breyta heiminum

Snilligáfa, uppgötvanir og afrek á ýmsum sviðum og fífldjörf ævintýri kvenna hafa á stundum fallið í gleymskunnar dá í áranna og aldanna rás. Sumar konurnar einfaldlega hurfu af spjöldum sögunnar.

Favilli og Cavallo draga þær fram á sjónarsviðið og gera þeim öllum jafn hátt undir höfði, Fridu Kahlo, Marie Currie, Margaret Thatcher og Evitu Perón sem og öðrum frægum. Og mörgum núlifandi, til dæmis Michelle Obama, lögfræðingi og fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna, og Maya Gabeira, brimbrettakappa frá Brasilíu, svo aðeins fáeinar séu nefndar.

Í bókinni eru hundrað sögur jafnmargra kvenna. Saga drottningar, skólastelpu, sjóræningja, stærðfræðings, súffragettu, tölvufræðings, stjarneðlisfræðings, ballettdansara, kokks, njósnara, landkönnuðar og margra fleiri.

„Hver einasta þeirra sannar að einlægur ásetningur getur breytt heiminum,“ segja þær Favilli og Cavallo í formálanum. Hver kona fær sína opnu með portretti eftir einn af þeim sextíu listamönnum hvaðanæva úr heiminum sem myndskreyta bókina.

Sögur fyrir dæturnar

„Hver ein og einasta þeirra [kvennanna í bókinni] er góð fyrirmynd fyrir stelpur á öllum aldri sem vilja breyta heiminum,“ skrifar þýðandinn Magnea J. Matthíasdóttir á bókarkápu. „Þetta eru kvöldsögurnar sem við eigum að lesa fyrir dætur okkar,“ segir Parents Magazine. „Skyldueign á náttborði hverrar stelpu,“ bætir tímaritið Forbes um betur. Og svo mætti lengi telja.

Við uppreisnargjarnar stelpur um allan heim segja höfundarnir þetta: Látið ykkur dreyma stærri drauma. Stefnið hærra. Berjist meira. Og þegar þið fyllist efasemdum, munið þá að þið hafið á réttu að standa.