Ólafur Páll Gunnarsson
Ólafur Páll Gunnarsson
Eftir Ólaf Pál Gunnarsson: "Í þeirri vinnu þarf að huga að hagsmunum sjóðfélaganna fyrst og fremst..."

Íslendingar eiga gott lífeyrissjóðakerfi. Það hefur verið byggt upp á nokkrum áratugum að frumkvæði aðila vinnumarkaðarins sem hafa ávallt verið leiðandi við mótun þess og þróun í samvinnu við stjórnvöld og aðra hagsmunaaðila.

Séreign og sameign

Með einföldun má segja að lífeyrisréttindi í lífeyrissjóðum skiptist í tvennt, annars vegar í sameiginleg tryggingaréttindi sem auk ævilangs lífeyris veita rétt til örorku-, maka- og barnalífeyris, og hins vegar í séreignarréttindi. Iðgjöldum í lífeyrissjóði má einnig skipta í tvennt, í 12% lögbundið lágmarksiðgjald sem oftast myndar sameignarréttindi í lífeyrissjóði annars vegar og 6% viðbótariðgjald sem rennur jafnan í viðbótarlífeyrissparnað hins vegar. Réttindi í samtryggingardeildum eru ekki færð á milli sjóða enda kynni slíkur flutningur að ógna réttindum sjóðfélaganna. Lífeyrisréttindi í séreign lúta öðrum lögmálum. Séreignin er í raun peningaleg eign hvers og eins og færanleg á milli sjóða.

Lágmarksiðgjaldi skipt

Frá framangreindu fyrirkomulagi eru undantekningar. Þannig nýta nokkrir lífeyrissjóðir heimild í lögum til að skipta 12% lágmarksiðgjaldinu í sameign og séreign og er þá séreignin laus til útborgunar við 60 ára aldur eins og hefðbundinn séreignarsparnaður. Með þessum hætti á sjóðfélagi meiri séreign á kostnað samtryggingarréttinda sem gefur kost á sveigjanleika við starfslok auk þess sem séreignin erfist við fráfall sjóðfélagans.

Jöfnun lífeyrisréttinda

Á síðastliðnum árum hefur verið kallað eftir jöfnun lífeyrisréttinda á milli almenna kerfisins og hins opinbera og um leið gerð krafa um að aukið iðgjald renni í séreign. Kjarasamningur ASÍ og SA frá 2016 er að vissu marki svar við þessu ákalli en samningurinn nær til sjö lífeyrissjóða sem starfa á samningssviði ASÍ og SA. Í samningnum er iðgjald í lífeyrissjóð hækkað í áföngum úr 12% í 15,5% til samræmis við iðgjald á opinbera markaðnum.

Tilgreind séreign

Samhliða fyrrnefndri hækkun iðgjalds er launþegum gefinn kostur á að ráðstafa hækkuninni í nýja tegund séreignar, svokallaða tilgreinda séreign, sem lýtur öðrum reglum um útborgun en áður nefnd séreign. Þannig er gert ráð fyrir að tilgreind séreign verði laus til útborgunar fimm árum fyrir áætlaðan lífeyristökualdur. Þá er í kjarasamningnum kveðið á um að greiðslur í tilgreinda séreign eigi að renna í skyldulífeyrissjóð viðkomandi sjóðfélaga og að hún sé ekki flytjanleg á milli vörsluaðila, ólíkt annarri séreign.

Frá því að kjarasamningurinn var samþykktur hefur reynst erfiðleikum bundið að innleiða ákvæði hans. Þá hefur Fjármálaeftirlitið kveðið skýrt á um að launþegar eigi val um í hvaða sjóð greiðslur vegna tilgreindar séreignar renna, hvað sem ákvæðum kjarasamningsins líður. Þessu hafa fulltrúar ASÍ og SA mótmælt og einnig krafist lagabreytinga.

Of flókið kerfi?

Bent hefur verið á að með tilkomu tilgreindrar séreignar verði lífeyrissjóðakerfið of flókið. Þá feli ákvæði kjarasamningsins frá 2016 í sér ákveðna þversögn. Á sama tíma og verið er að samræma kerfið og jafna réttindi milli opinbera og almenna geirans séu settar fram nýjar og sérsniðnar lausnir fyrir afmarkaða hópa. Þá endurspegli samningurinn ekki breytingar á vinnumarkaði sl. ár sem birtast m.a. í því að launþegar eru mun hreyfanlegri en áður og þ.a.l. ekki bundnir við sama lífeyrissjóðinn alla starfsævina.

Takmarkað samráð

Undir þessa gagnrýni má taka. Breytingar á lífeyrishluta kjarasamningsins frá 2016 voru að ýmsu leyti ekki nægilega ígrundaðar. Ólíkt þeim breytingum sem áttu sér stað við setningu núverandi heildarlöggjafar um lífeyrismál var ekkert samráð haft við aðra hagsmunaaðila eða stjórnvöld um breytingarnar og lítið mið tekið af ríkjandi fyrirkomulagi. Þá var aðkoma löggjafans engin við mótun umræddra tillagna og aðeins gert ráð fyrir aðkomu hans á seinni stigum málsins. Vissulega er aðilum vinnumarkaðarins (ASÍ og SA) heimilt að semja um breytt lífeyrisréttindi fyrir umbjóðendur sína en í ljósi sögulegs mikilvægis þessara aðila við mótun lífeyrissjóðakerfisins verður ekki horft fram hjá því að breytingar innan þeirra vébanda hafa jafnan víðtæk áhrif.

Setja þarf hagsmuni sjóðfélaga í forgrunn

Höggva þarf á þann hnút sem þessi mál eru komin í og ná samstöðu um breytingar. Það verður hins vegar ekki gert nema með aðkomu stjórnvalda og með víðtæku samráði þeirra sem fjalla um málefni lífeyrissjóða í samfélaginu. Í þeirri vinnu þarf að huga að hagsmunum sjóðfélaganna fyrst og fremst og móta framtíðarfyrirkomulag lífeyrismála í takt við fyrirsjáanlegar samfélagsbreytingar. Taka þarf mið af þörfum launafólks, breyttum vinnumarkaði, meiri hreyfanleika vinnuafls og huga að auknum sveigjanleika við starfslok. Þá þarf jafnframt að taka afstöðu til þess hvernig samspili lífeyrissjóða og greiðslna almannatrygginga verður háttað. Mikilvægast er að ná sátt um eitt heildstætt lífeyrissjóðakerfi sem þjónar öllum landsmönnum. Lífeyrissjóðirnir eru í eigu landsmanna og lífeyrissjóðirnir eiga að þjóna þeim – ekki öfugt.

Höfundur er framkvæmdastjóri Íslenska lífeyrissjóðsins.