Forsætis Katrín Jakobsdóttir tekur við lyklum að ráðuneytinu frá Bjarna Benediktssyni.
Forsætis Katrín Jakobsdóttir tekur við lyklum að ráðuneytinu frá Bjarna Benediktssyni. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Agnes Bragadóttir Magnús Heimir Jónasson Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði á ríkisstjórnarfundi í gær fram tímaáætlun ráðuneytisins um vinnu við fjárlagagerð næstu sólarhringana.

Agnes Bragadóttir

Magnús Heimir Jónasson

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði á ríkisstjórnarfundi í gær fram tímaáætlun ráðuneytisins um vinnu við fjárlagagerð næstu sólarhringana. Var þetta fyrsti fundur ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur en fyrr um morguninn höfðu lyklaskipti farið fram í ráðuneytunum.

„Þetta er unnið í mjög mikilli tímaþröng, en við gerum okkar besta,“ sagði fjármálaráðherra í samtali við Morgunblaðið í gær.

Hann sagði að ríkisstjórnin sem tók við í fyrradag hefði undanfarna daga rætt sín á milli um þær áherslur sem stjórnin vildi að kæmu fram í fjárlagafrumvarpinu. „Ég held að við séum öll orðin þokkalega sátt við heildarmyndina,“ sagði Bjarni.

Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, segir að undirbúningur að þeirri vinnu sem framundan er sé hafinn af fullum krafti í ráðuneytinu.

„Við munum leggja nótt við dag næstu sólarhringa. Það er von okkar að allar meginákvarðanir varðandi fjárlög liggi fyrir í byrjun næstu viku,“ sagði Guðmundur í samtali við Morgunblaðið í gær.

Guðmundur segir að eiginleg skrif greinargerðar upp á nokkur hundruð blaðsíður geti ekki hafist af fullum krafti fyrr en meginforsendur og fjárlagaákvarðanir liggi fyrir af hálfu ríkisstjórnar. „Það liggur ekki fyrir fyrr en búið er að taka allar ákvarðanir og allar forsendur eru komnar fram. Þá fyrst er hægt að fara að skrifa endanlegar greinargerðir með frumvarpinu, sem er vitanlega ekki hægt að gera á meðan tölurnar eru enn á hreyfingu,“ sagði Guðmundur.

Hann segir að vinna við endanleg textaskrif og útfærslur hefjist svo í einstökum ráðuneytum strax og endanlegar ákvarðanir hafa verið teknar. „Þá höfum við örfáa daga til þess að ljúka þeirri vinnu, en það er þannig að stór hluti af greinargerð fjárlagafrumvarpsins er unninn í ráðuneytunum, sem annast þá skrif um það sem að þeim snýr,“ sagði Guðmundur.

Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að endanleg dagsetning á því hvenær Alþingi kæmi saman á nýjan leik yrði ekki ákveðin fyrr en sæi fyrir endann á fjárlagagerðinni.

Í takt við nýjan sáttmála

Búast má við því að fjárlögin verði í takt við nýjan stjórnarsáttmála en þar er kveðið á um aukið fjármagn í mennta-, heilbrigðis- og samgöngumál. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir vinnu við að skoða tölulegar upplýsingar hafa hafist strax að loknum lyklaskiptum.

„Lykiláherslan hjá mér sem menntamálaráðherra er auðvitað að setja aukið fjármagn til háskólastigsins og í framhaldsskólastigið,“ segir Lilja, sem er vongóð um að það takist. Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að Ísland nái meðaltali OECD- ríkjanna er varðar fjármögnun háskólastigsins fyrir árið 2020.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að á svona stundum sé gott að búa að reynslu.

„Heilbrigðismálin eru stór hluti af þessu öllu saman og ég settist yfir þessi mál strax eftir lyklaskiptin með ráðuneytisstjóra,“ segir Svandís og bætir við að unnið verði alla helgina. Hún væntir þess að búið verði að afgreiða þessi mál á þriðjudaginn.

Ráðherranefndin um ríkisfjármál fundaði í kjölfar ríkisstjórnarfundar en í nefndinni sitja formenn flokkanna þriggja.