BHM Aðildarfélögin efndu til fjölmenns fundar í gærmorgun.
BHM Aðildarfélögin efndu til fjölmenns fundar í gærmorgun. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Kristján H. Johannessen khj@mbl.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

„Það sem kynnt hefur verið fyrir okkur er ákveðin launaþróun, sem út af fyrir sig má segja að sé ekki óvenjuleg, en langstærsta vandamálið er aftur á móti mjög lág launasetning, einkum hjá heilbrigðisstéttum innan BHM,“ segir Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara, við Morgunblaðið.

Vísar hún í máli sínu til áskorunar Bandalags háskólamanna (BHM) til ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, en þar er skorað á ríkisstjórnina að ganga tafarlaust til kjarasamninga við aðildarfélög BHM. Undanfarna þrjá mánuði hefur hvorki gengið né rekið í kjaraviðræðum 17 aðildarfélaga BHM við ríkið. Unnur segir þó samtalið í raun hafa hafist í ársbyrjun 2014.

„Þetta vandamál er ekki einungis okkar því við sjáum fram á sprengingu í öldrun á næstu 5-15 árum og ef ríkið ætlar með láglaunastefnu að svelta alla sjúkraþjálfara út úr sjúkrahúsum og stofnunum, þá er heilbrigðiskerfið allt sett í gríðarlegan vanda,“ segir Unnur og bætir við að sumar heilbrigðisstéttir BHM séu þegar komnar í mikinn vanda. Nefnir hún lífeindafræðinga sem dæmi um það. „Það er varla hægt að finna lífeindafræðing undir fimmtugu á Landspítalanum. Mín stétt er ekki enn kominn inn á þetta stig, en við stefnum þangað ansi hratt.“

Fram kemur í áskorun aðildarfélaga BHM að fara þurfi í nauðsynlegar leiðréttingar á launasetningu háskólamanna. Í því sambandi má nefna hækkun grunnlauna ásamt endurskoðun launa ákveðinna hópa, styttingu vinnuvikunnar, bætt vinnuumhverfi og aðstæður á vinnustað. „[F]yrirsjáanlegur skortur á háskólamenntuðum starfsstéttum hjá ríkinu, t.d. í heilbrigðiskerfinu, krefst sérstakra aðgerða af hálfu stjórnvalda,“ segir þar.