Heiðmörk Mikið og gott aðgengi er sagt vera að ferskvatni á jörðinni.
Heiðmörk Mikið og gott aðgengi er sagt vera að ferskvatni á jörðinni. — Morgunblaðið/Ómar
„Ég er bara nauðbeygður til að gera þetta, en þeir hafa neitað mér um gjörsamlega allt sem ég hef farið fram á,“ segir Konráð Adolphsson.

„Ég er bara nauðbeygður til að gera þetta, en þeir hafa neitað mér um gjörsamlega allt sem ég hef farið fram á,“ segir Konráð Adolphsson.

Hann hefur nú auglýst til sölu eða leigu 4,6 hektara land við Hólmsá, svonefndan Oddfellowblett úr landi jarðarinnar Gunnarshólma í Kópavogi.

Konráð sendi í mars 2014 fyrirspurn um hvort leyft yrði að byggja allt að 400 fermetra íbúðarhús ásamt allt að 200 fermetra hesthúsi á Oddfellowbletti með líku sniði og leyft hefði verið á sínum tíma á lóðum í landi Vatnsenda við Elliðavatn. Skipulagsnefnd Kópavogs hafnaði beiðninni og bæjarstjórn Kópavogsbæjar staðfesti þá afgreiðslu í apríl 2016.

„Ég er búinn að bjóða þeim makaskipti og að kaupa þetta, en það er alveg sama hvað ég reyni – það gerist ekkert. Ég sé því engan annan kost í stöðunni en að auglýsa þetta á almennum markaði,“ segir Konráð.

Aðgengi að Gvendarbrunnum

Fram kemur í auglýsingunni, sem birtist í Fréttablaðinu 5. desember síðastliðinn, að á landinu væri góð aðstaða fyrir vatnstöku. „[L]and með góðu aðgengi að vatnsbólinu Gvendarbrunnar. Gífurlegt vatnsmagn í boði samkvæmt mælingum. Góð aðstaða fyrir vatnstöku.“

Spurður út í hugsanlegt verðmæti jarðarinnar svarar Konráð: „Þeir hjá Kópavogi eru búnir að meta þetta upp í 80 milljónir, en ég bauð þeim þetta á 60,“ segir hann og bætir við að margir sýni landinu áhuga.