Arnór Ingvi Traustason
Arnór Ingvi Traustason
Arnór Ingvi Traustason, landsliðsmaður í knattspyrnu, samdi í gær við sænsku meistarana Malmö til fjögurra ára og verður með því sjöundi Íslendingurinn sem leikur með aðalliði félagsins.

Arnór Ingvi Traustason, landsliðsmaður í knattspyrnu, samdi í gær við sænsku meistarana Malmö til fjögurra ára og verður með því sjöundi Íslendingurinn sem leikur með aðalliði félagsins.

Ólafur Örn Bjarnason og Sverrir Sverrisson voru fyrstu íslensku leikmennirnir hjá Malmö en þeir spiluðu báðir með liðinu árin 1998 og 1999.

Guðmundur Viðar Mete lék með unglingaliðum Malmö, var þar m.a. samherji Zlatans Ibrahimovic, og spilaði með aðalliði félagsins frá 2000 til 2002.

Emil Hallfreðsson lék með Malmö tímabilið 2006 sem lánsmaður frá enska félaginu Tottenham.

Kári Árnason kom til Malmö á miðju árinu 2015 og lék með liðinu út tímabilið 2016 þar sem hann fagnaði sænska meistaratitlinum.

Viðar Örn Kjartansson kom til Malmö fyrir tímabilið 2016 og lék þar fram í ágúst þegar hann var seldur til Maccabi Tel Aviv.

Þá leikur Aron Már Brynjarsson, leikmaður 21-árs landsliðs Íslands, með U21-árs liði Malmö og gæti því komið inn í aðalliðshópinn á komandi tímabili.

Malmö keypti Arnór af Rapid Vín en þangað fór hann frá Norrköping í Svíþjóð sumarið 2016. Arnór var í láni hjá AEK í Grikklandi frá byrjun þessa tímabils en lék aðeins þrjá deildarleiki með liðinu.

Malmö hefur orðið sænskur meistari tvö ár í röð og fjórum sinnum á síðustu fimm árum. Árið 2015 varð Arnór Ingvi hinsvegar meistari með Norrköping, og tryggði einmitt liðinu titilinn með marki gegn Malmö í lokaumferð úrvalsdeildarinnar. vs@mbl.is