Helga Guðmundsdóttir fæddist í Reykjavík 23. febrúar 1942. Hún lést að heimili sínu, Dalbraut 20, Reykjavík 22. nóvember 2017.

Helga var einkadóttir hjónanna Guðrúnar Guðmundsdóttur, f. 7. október 1920 í Efri-Hlíð í Helgafellssveit, d. 15. mars 2003, og Guðmundar Gestssonar, f. 16. desember 1914 að Miðdalskoti í Kjós, d. 14. desember 1993. Guðmundur starfaði hjá Mjólkursamsölunni sem bifreiðastjóri frá 1952 og alla tíð síðan fram á starfslok. Guðrún var heimavinnandi húsmóðir eins og þá var títt.

Helga giftist 11. apríl 1970 Guðmundi Vilbergssyni rafvélavirkjameistara, f. 26. maí 1942, d. 18. ágúst 1994. Foreldrar hans voru hjónin Valgerður Ingibjörg Guðmundsdóttir, f. 12. október 1913, d. 28. apríl 2004, og Hans Vilberg Guðmundsson rafvirkjameistari, f. 23. mars 1911, d. 2. júlí 1987. Þeim Helgu og Guðmundi varð ekki barna auðið, en fyrir hjónaband átti Guðmundur einn son, Hans Vilberg, f. 15. maí 1962. Helga ólst upp í föðurhúsum í Skipasundi í Reykjavík. Hún lauk hefðbundinni skólagöngu og fór síðan út á vinnumarkaðinn. Hún hóf ung störf hjá Mjólkursamsölunni og starfaði þar um nokkurt árabil en vann síðan hjá sælgætisgerðinni Nóa-Síríus í allmörg ár. Eftir það lá leið hennar aftur til Mjólkursamsölunnar þar sem hún vann m.a. lengi í ísgerð Samsölunnar.

Helga bjó þeim Guðmundi einstaklega fallegt heimili og annaðist það alla tíð með miklum myndarbrag. Þá hafði hún mikla unun af félagsstörfum, ekki síst spilamennsku, og dansinn var líf hennar og yndi, einkum á síðari hluta ævinnar.

Útför Helgu fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 8. desember 2017, klukkan 13.

Elsku Helga frænka.

Enn tókst þér að koma okkur á óvart, en þú hafðir löngum gaman af því. Fréttin um ótímabært andlát þitt kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Það er varla að við trúum því enn þá að þú komir ekki oftar til okkar í kaffi og spjall.

En vegir Guðs eru órannsakanlegir. Það reyndir þú þegar þú misstir Gumma þinn í blóma lífsins. Þið áttuð svo margt ógert. Nú ertu komin til hans á ný og þið getið aftur farið að skipuleggja eitthvað skemmtilegt. Svo áttirðu líka góða daga í Danmörku forðum með Þóru vinkonu þinni sem þú ert örugglega búin að hitta í Sólarlandinu núna.

Á unglingsárunum, þegar við systurnar bjuggum í Langagerði, en Helga var flutt í Hlíðagerði, var stutt á milli og þá áttum við góð ár saman meðan við vorum allar unglingar með æskudrauma. En tímarnir breyttust og við fórum að hitta strákana sem urðu síðan lífsförunautar okkar.

Þá fór hver að hugsa um sína fjölskyldu og tengslin urðu minni en rofnuðu samt aldrei.

Eftir lát Gumma og ekki síður eftir að Guðrún, móðir Helgu, féll frá varð samband okkar systra við Helgu aftur nánara og síðustu árin liðu sjaldan margir dagar svo önnur hvor okkar heyrði ekki í henni eða hún sækti okkur heim.

Helga hafði einstaklega gaman af því að spila og dansa og sótti samkomur þar sem slíkt var í boði hvenær sem þess var kostur. Þær voru oft góðar sögurnar sem hún sagði okkur frá spilaborðinu, þar sem henni fannst hún stundum órétti beitt, en hitt kom líka fyrir að hún kom með góð verðlaun úr félagsvistinni og þá var létt yfir henni. Við frænkur fórum líka oft í verslunarleiðangra og sóttum saman ýmsa viðburði sem henni fannst afar gaman. Það var oft mikið spjallað og hlegið þegar hún kom í mat eða kaffi til okkar.

Heimili Helgu var ávallt mjög fallegt og snyrtilegt, hún var mikill fagurkeri og hafði unun af fallegum hlutum. Það er svo sannarlega skarð fyrir skildi hjá okkur systrum og mörgum fleiri þegar Helgu nýtur ekki lengur við. Hún fékk að reyna ýmislegt um dagana en tók á mótlætinu án þess að æðrast eða bera harma sína á torg.

Okkur langar að minnast hennar með einu erindi úr fallegum sálmi sem heitir „Ljósið á kertinu lifir“ eftir Kristján frá Gilhaga:

Við flöktandi logana falla nú tár,

það flýr enginn sorgina lengi.

Hún braut allar vonir, hún braut allar þrár,

hún brýtur þá viðkvæmu strengi,

er blunda í hjarta og í brjósti hvers manns.

Nú birtir, og friður er yfir,

því ljósið á kertinu lifir.

(Kristján frá Gilhaga)

Greta og Kolbrún Jónsdætur.

Í dag verður Helga Guðmundsdóttir borin til hinstu hvílu og því langar okkur að minnast hennar með þessu ljóði:

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Héðan skal halda

heimili sitt kveður

heimilisprýðin í hinsta sinn.

Síðasta sinni

sárt er að skilja,

en heimvon góð í himininn.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

Grátnir til grafar

göngum vér nú héðan,

fylgjum þér, vinur. Far vel á braut.

Guð oss það gefi,

glaðir vér megum

þér síðar fylgja' í friðarskaut.

(Valdimar Briem)

Við þökkum samfylgdina í gegnum árin.

Hvíldu í friði.

Sigurður Vilbergsson og

Lilja Benediktsdóttir.