Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Agnes Bragadóttir agnes@mbl.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segist ekki átta sig á því hvernig Samtök atvinnulífsins (SA) geti komist að þeirri niðurstöðu að árlegur útgjaldaauki ríkissjóðs vegna fjarskipta, samgangna og byggðamála verði 42,2 milljarðar króna.

SA birti í gær á heimasíðu greinargerð og eigin útreikninga á því hver útgjaldaauki ríkissjóðs verði á ári, miðað við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Orðrétt segir m.a. í greinargerð SA: „Komist allt til framkvæmda sem lofað er í stjórnarsáttmála má gróflega áætla að árleg útgjöld ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja vaxi um 90 milljarða króna.“ Birt er tafla með greinargerðinni þar sem m.a. er áætlað að vegna fyrirhugaðra skattalækkana muni tekjur ríkissjóðs skerðast um 15 milljarða króna, aukin framlög til heilbrigðismála muni kosta um 15 milljarða á ári, aukin framlög til mennta- og menningarmála þýði útgjaldaauka upp á 9,3 milljarða króna og alstærsta póstinn telur SA vera fjarskipti, samgöngur og byggðamál og reiknar það út að árlegur útgjaldaauki ríkissjóðs vegna þessara liða verði 42,2 milljarðar króna.

Fjármálaráðherra sagðist í gær sem minnst vilja segja um þetta plagg Samtaka atvinnulífsins, að svo stöddu.

„Þó verð ég að segja að ég átta mig alls ekki á hvernig SA kemst að þeirri niðurstöðu að við verðum með varanlega útgjaldaaukningu í samgöngum, fjarskiptum og byggðamálum, upp á 42,2 milljarða króna á ári. Mér finnst þetta vera stærsta spurningin, sem Samtök atvinnulífsins þurfa að svara,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í samtali við Morgunblaðið í gær.