Lýðræði Að sögn Harðar Áskelssonar stjórnanda fengu kórfélagar að greiða atkvæði um hluta þeirra laga sem rötuðu inn á efnisskrá jólatónleikanna í ár.
Lýðræði Að sögn Harðar Áskelssonar stjórnanda fengu kórfélagar að greiða atkvæði um hluta þeirra laga sem rötuðu inn á efnisskrá jólatónleikanna í ár.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Síðustu þrjú ár höfum við farið út af slóð kunnuglegra laga og boðið upp á öðruvísi prógramm, sem hefur verið mjög gaman.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Síðustu þrjú ár höfum við farið út af slóð kunnuglegra laga og boðið upp á öðruvísi prógramm, sem hefur verið mjög gaman. Hins vegar var komin stemning fyrir því meðal kórfélaga að koma aftur heim svo að segja og flytja margar af velþekktum perlum okkar,“ segir Hörður Áskelsson, stjórnandi Mótettukórs Hallgrímskirkju, um jólatónleika kórsins sem fram fara í Hallgrímskirkju á morgun, laugardag, og sunnudag kl. 17 báða daga. Einsöngvari tónleikanna er Elmar Gilbertsson tenór og um orgelleik sér Björn Steinar Sólbergsson.

„Yfirskrift tónleikanna er „O magnum mysterium“ sem tónskáld á öllum tímum hafa sótt í að skrifa jólatónlist við. Textinn lýsir hinum mikla leyndardómi og undraverðu dásemdarverki að dýrin skyldu mega sjá frelsarann nýfæddan og liggjandi í jötu,“ segir Hörður, sem valdi tónsetningar þriggja ólíkra tónskálda við textann. Þetta eru spænska endurreisnartónskáldið Tomás Luis de Victoria, franska 20. aldar tónskáldið Francis Poulenc og loks bandaríska samtímatónskáldið Morten Lauridsen.

Brjóta upp tónleikaformið

„Þessar þrjár ólíku tónsetningar eru leiðarstefið í gegnum prógrammið. Fyrsti hluti tónleikanna byggist á endurreisnartónlist,“ segir Hörður og bendir á að meðal laga sem muni hljóma séu „Mig huldi dimm og döpur nótt“ eftir Johann Eccard og „Hin fegursta rósin er fundin“ í útsetningu Michaels Praetorius og mótettan „Hodie Christus natus est“ eftir Jan Pieterszoon Sweelinck.

„Seinni hluti tónleikanna er samsettur af tónlist sem er mun nær okkur í tíma. Þar erum við með marga góða kunningja – bæði íslensk og erlend lög sem tónleikagestir okkar vilja heyra. Þeirra á meðal eru „Það aldin út er sprungið“ í útsetningu Michaels Praetorius, „Betlehemsstjarnan“ eftir föður minn heitinn, Áskel Jónsson, og „Jólagjöfin“ sem ég samdi fyrir nokkuð mörgum árum og er alltaf dregin fram annað slagið,“ segir Hörður og tekur fram að flytjendur leiki sér að því að brjóta upp tónleikaformið.

Nánast heimamaður

„Við komum syngjandi inn og förum syngjandi út auk þess sem við syngjum í kringum tónleikagesti. Að vanda verður kirkjan fagurlega skreytt, enda leggjum við alltaf áherslu á að stemningin komi í gegnum bæði augu og eyru,“ segir Hörður. Spurður um valið á einsöngvara ársins segir Hörður það hafa legið beint við að leita til Elmars. „Enda hefur hann sungið talsvert með okkur sem einsöngvari, einkum í barokkuppfærslum, seinast í sumar við flutning á Messu í h-moll eftir Bach. Hann er nánast heimamaður, enda söng hann með kórnum áður en hann fór út í nám,“ segir Hörður.

Elmar mun syngja „Panis angelicus“ eftir Cesar Franck, einsöng í m.a. „Ó, helga nótt“ eftir Adolphe Adam og „Guðs kristni í heimi“ í útsetningu Davids Willcocks“. Þess má að lokum geta að miðar eru seldir á midi.is og í Hallgrímskirkju.