Uummannaq Um 1.300 búa á staðnum, þar af margir frá flóðaeyjunni.
Uummannaq Um 1.300 búa á staðnum, þar af margir frá flóðaeyjunni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Á næstunni verður gengið formlega frá stofnun velferðarsjóðs fyrir börn í bænum Uummannaq á Grænlandi, þar sem í dag búa flestir þeir sem urðu að yfirgefa heimaslóðir sínar þegar flóðbylgja skall á eyjaþorpið Nuugaatsiag síðastliðið sumar. Fjórir fórust í flóðinu og ellefu hús eyðilögðust svo fólk snýr ekki aftur til búsetu í þorpinu í náinni framtíð. Höfuðstól sjóðsins mynda fjármunir úr söfnuninni Vinátta í verki, alls um 40 milljónir króna.

Styrkja byggðina félagslega

Það var jarðskjálfti sem hratt flóðbylgjunni af stað og bárust öldur hennar langt inn á land í Nuugaatsiag með þeim hrikalegu afleiðingum sem fyrr getur. Þorpið er á vesturströnd Grænlands – um 600 kílómetra fyrir norðan heimsskautsbaug – og voru íbúarnir sem voru um 200, þar af um 70 börn, fluttir á brott með þyrlum til Uummannaq sem er 1.300 manna bær. Hrafn Jökulsson sem var upphafsmaður söfnunarinnar síðasta sumar segir mikilvægt að mikilvægt sé að styrkja byggðina í Uummannaq félagslega með hagsmuni barnanna þar að leiðarljósi.

„Vinir okkar á grænlenskri lögmannsstofu í höfuðstaðnum Nuuk, eru nú að skrifa stofnskrá sjóðsins og útbúa regluverk sem þarf að vera til staðar,“ segir Hrafn. „Forsjá sjóðsins verður svo falin heimafólki í Uummannaq, enda þekkir það best hvað þarf. En við sjáum fyrir okkur að sjóðurinn gæti komið að ýmsum verkefnum er lúta að menntun, afþreyingu og tómstundastarfi barnanna á þessum slóðum, auk þess sem listafólk eða aðrir sem vilja gera skemmtilega hluti fyrir ungt fólk á þessum slóðum og vill koma á staðinn gæti fengið stuðning úr sjóðnum. Það verður að segjast að Uummannaq er um margt gleymdur staður á Grænlandi, enda utan allra alfaraleiða.“

Hrókurinn fór á staðinn

Söfnunin Vinátta í verki var samstarfsverkefni á vegum skákfélagssins Hróksins, Kalak – vináttufélags Íslands og Grænlands og Hjálparstarfs kirkjunnar. Síðastnefndu samtökin gæta þess fjár sem safnaðist og það án nokkurs tilkostnaðar, eins og Hrafn Jökulsson getur sérstaklega. Munaði þar mjög um framlög allra sveitarfélaga á Íslandi, 73ja að tölu, auk þess sem fólk og fyrirtæki lögðu lið. Þá má geta þess að Hróksfélagar voru á dögunum í heimsókn í Uummannaq og stóðu þeir fyrir ýmsum uppbyggjandi menningarviðburðum fyrir börnin í bænum og voru móttökur hinar bestu.