Þórhallur Heimisson
Þórhallur Heimisson
Eftir Þórhall Heimisson: "Eins og í Mishna tengja íslenskar frásagnir oft púka og ára við skít og ómennsku."

Í sex pistlum hef ég á liðnu hausti verið að leiða ykkur í gegnum völundarhús Biblíunnar, kæru lesendur, hér á síðum Morgunblaðsins. Ég ætlaði að enda á þeim síðasta – en get þó ekki látið hjá líða að bæta við aukapistli og helga hann hinu illa. Því hið illa og hinn illi koma oft við sögu á spjöldum heilagrar ritningar – og í sögu kirkjunnar allt til þessa dags. Það er í raun varla hægt að fjalla um Biblíuna án þess að skoða þennan vágest nánar.

Höfðingi hins illa ber mörg nöfn í Biblíunni. Heitið „djöfull“ er eitt þeirra og komið úr grísku og heitir þar diabolos, sem merkir rógberinn. Hann er sá sem ber róginn og illyrðin milli manna og kemur þannig af stað illindum og átökum, sundrar og sáir misklíð. Annað nafn hans er „Satan“, sem er hebreskt og merkir andstæðingurinn eða sá er vinnur gegn vilja Guðs. Einnig er nafnið „Lúsífer“ komið úr hebresku, en Lúsífer er einn af englum Guðs sem gerði uppreisn gegn Guði, vildi sjálfur verða sem Guð og var því kastað niður í myrkrið þar sem hann ríkir sem myrkrahöfðinginn. Í lagabókum gyðinga er heita Mishna og Talmúd, er gert háðulegt grín að þessum andstæðingi Guðs og hann kallaður „Belsebúl“ sem merkir Flugnahöfðinginn, sá er ríkir yfir rotnuninni og flugunum sem safnast um hræin. Einnig ber hann þar nafnið „Belíel“ en það táknar verðleysi.

Að illt afl skuli finnast í veröldinni telur Biblían vera vegna þess að mennirnir hafi snúið sér frá Guði, eins og Lúsífer gerði, til þess að gera sjálfa sig að guðum.

Í Nýja testamentinu er lítill áhugi á vangaveltum um þessi myrku fræði. Vissulega er talað þar um demóna, púka og ára sem eru leikbrúður andstæðingsins, Satans, og freista kristinna manna. Gegn þeim og rógberanum sjálfum, djöflinum, þurfa kristnir menn að standa og berjast. En Jesús, sem sonur Guðs og orð Guðs í heiminum, hefur algert vald yfir þessum illu öflum og rekur burt illu andana hvar sem þeir mæta honum. Þannig sýnir hann óskorað vald Guðs. Eftir daga Krists blómstrar aftur á móti djöflafræðin, bæði meðal gyðinga, í frumkirkjunni og hjá kirkjufeðrunum.

Vaxandi áhugi á djöflafræðum eftir daga Jesú var í tengslum við hin svokölluðu heimsslitafræði eða apokalyptik, sem fjallaði um yfirvofandi endi tímanna. Sjást þess glögglega dæmi í Opinberunarbók Jóhannesar svo dæmi sé tekið, þar sem hið góða og hið illa takast á um heiminn á efsta degi. Í galdrafárinu í Evrópu á 16. og 17. öld blómstruðu hugmyndirnar um djöfulinn, bæði innan og utan kirkju, og sömu hugmyndir lifa enn í dag í leynifélögum og dulspekihreyfingum.

Biblían viðurkennir aldrei myrkrahöfðingjann sem jafnoka Guðs.

Í Opinberunarbók Jóhannesar sem verður til eftir daga Jesú hafa heimsendafræðin mikil áhrif eins og fyrr segir. Þar gegnir andkristur stóru hlutverki í baráttunni um heiminn en tapar að lokum. Ákefð hins illa í heiminum er útskýrð þannig að andkristurinn veit að hann hefur tapað fyrir Jesú og berst því um þegar endalokin nálgast. Niðurstaða Biblíunnar er sú að allir þeir sem rísa gegn Guði, hvort sem það eru menn eða englar, geri það eingöngu til þess að verða sem Guð, gera sjálfa sig að guðum. Laun þeirra eru niðurlæging og í stað þess að verða Guði líkir verða þeir eins og ormurinn, verðleysið, myrkrið.

En sá sem gerir vilja Guðs ber mynd Guðs og verður í verkum sínum sendiboði Guðs, engill Guðs í heiminum.

Þessar vangaveltur Biblíunnar endurspeglast í íslenskum þjóðsögum. Íslenskar þjóðsögur og alþýðufrásagnir fjalla lítið um hina heimspekilegu hlið baráttunnar milli hins góða og illa í heiminum. Í þessum sögum mætum við Kölska fremur í samskiptum við einstaklinga sem láta freistast af gylliboðum hans eða gera við hann samning og reyna síðan að leika á Myrkrahöfðingjann. Eins og í Mishna tengja íslenskar frásagnir oft púka og ára við skít og ómennsku. Þar segir t.d. frá púkanum á fjósbitanum sem fitnar þegar fjósamaðurinn og konan bölva en einnig freistar Kölski bænda og búaliðs til að vinna slælega nauðsynleg verk og lenda þau þá í erfileikum. Oftast tengist djöfullinn galdramönnum í þjóðsögunum. Hann kennir svartagaldur. Kölski býður líka fram þjónustu sína gegn sál galdramannsins að launum. Sögurnar fjalla síðan um keppni galdramanns og Kölska, með sál hins fyrrnefnda að veði. Galdrasögur fóru að berast hingað til lands á 12. öld og í þeim var Sæmundur fróði hvað frægastur. Voru þessar sögur gamansamar og yfirleitt sigraði galdramaðurinn Kölska með klókindum. Á 13. öld setti kirkjan þessar flökkusögur í guðfræðilegt kerfi þar sem samningur Kölska og galdramanns varð aðalþemað, galdramáttur í skiptum fyrir sálu. En fljótlega komst galdrafárið í algleyming og fólk var brennt fyrir samninginn við Kölska. Urðu sögurnar þá fullar af hatri og illum öflum en glettnin og gamansemin vék. Hafði þar hræðilegt ástand þjóðarinnar sitt að segja en hún barðist fyrir tilveru sinni við ís, eldgos, einokun, mannfelli og pest.

Sést á þessu að árferðið hefur mikil áhrif á það hvernig menn hugsa sér mátt hins illa.

Höfundur er sóknarprestur. thorhallur33@gmail.com