Gunnlaugur Sigvaldason fæddist í Hofsárkoti í Svarfaðardal 29. janúar 1935. Hann lést á dvalarheimili aldraðra á Dalvík 26. nóvember 2017.

Foreldrar hans voru Sigvaldi Gunnlaugsson, f. í Hofsárkoti 8. nóvember 1909, d. 6. júlí 1996, og Margrét Kristín Jóhannesdóttir, f. á Sandá 30. október 1913, d. 21. september 1998. Gunnlaugur var elstur átta systkina, þau eru Jóhannes Grétar, f. 1936, Árdís Fanney, f. 1939, Anna Kristín, f. 1941, Steinunn Helga, f. 1944, Rósa, f. 1947, Adda Hólmfríður og Elín Sigríður, fæddar 1950.

Gunnlaugur bjó í Hofsárkoti með sambýliskonu sinni, Sigríði Margréti Jónsdóttur frá Holti við Dalvík, f. 22. janúar 1934, d. 21. apríl 2014, á árunum 1968 til 1999 er þau slitu samvistir. Foreldrar hennar voru Jóhanna Sigurbjörg Halldórsdóttir, f. 1891, d. 1975, og Jón Emil Ágústsson, f. 1888, d. 1947.

Börn þeirra eru 1) Jóhanna Kristín, f. 1967, sambýlismaður Þorvar Þorsteinsson, f. 1965. Synir þeirra eru Jón Stefán, f. 2000, og Eyþór Þorsteinn, f. 2003. 2) Sigvaldi, f. 1969, eiginkona hans er Gígja Björk Valsdóttir, f. 1970. Synir hans úr fyrri samböndum eru Gunnlaugur, f. 1989, dóttir hans er Krista Mist, f. 2011, og Alexander Elí, f. 2002. 3) Ólöf, f. 1970, eiginmaður hennar er Þórarinn Geir Gunnarsson, f. 1969, börn þeirra eru Sigríður Linda, f. 1990, sambýlismaður Jónas Davíð Jónasson, f. 1989, Gunnar, f. 1992, sambýliskona Ingibjörg Sigurrós Sigurðardóttir, f. 1992, Konkordía Guðrún, f. 1995, sambýlismaður Benjamin Midtun Nyborg, f. 1991. 4) Elín Hólmfríður, f. 1971, sambýlismaður Ólafur Haraldsson, f. 1971. Börn þeirra Helga María, f. 1997, Arnar Freyr, f. 2000, og Haraldur Andri, f. 2004. Ekki sammæðra 5) Helgi, f. 1978, eiginkona hans Þórunn Ágústa Garðarsdóttir, f. 1983. Börn þeirra Natalía Nótt, f. 2003, Karlotta Klara, f. 2010, og Garðar Breki, f. 2012.

Gunnlaugur lauk búfræðinámi frá Bændaskólanum á Hólum árið 1956. Hann lærði smíðar á Akureyri á árunum 1962-1964. Gunnlaugur vann hin ýmsu störf, t.d. á jarðýtu, mjólkurbíl, við smíðar og var fjósamaður þar til hann tók við búskap í Hofsárkoti 1967.

Gunnlaugur var virkur í félagsstörfum og hafði gaman af að spila bridge. Hann hætti bústörfum í lok árs 1991 en var viðloða búskapinn í Hofsárkoti með börnum sínum til 1999 en þá flutti hann til Reykjavíkur og fór að vinna hjá Hampiðjunni. Síðustu árin bjó hann á Dalvík.

Útförin fer fram frá Dalvíkurkirkju í dag, 8. desember 2017, klukkan 13.30.

Til minningar um

föður okkar.

Mér tregt er um orð til að þakka þér,

hvað þú hefur alla tíð verið mér.

Í munann fram myndir streyma.

Hver einasta minning er björt og blíð,

og bros þitt mun fylgja mér alla tíð,

unz hittumst við aftur heima.

Ó, elsku pabbi, ég enn þá er

aðeins barn, sem vill fylgja þér.

Þú heldur í höndina mína.

Til starfanna gekkstu með glaðri lund,

þú gleymdir ei skyldunum eina stund,

að annast um ástvini þína.

Þú farinn ert þangað á undan inn.

Á eftir komum við, pabbi minn.

Það huggar á harmastundum.

Þótt hjörtun titri af trega og þrá,

við trúum, að þig við hittum þá

í alsælu á grónum grundum.

Þú þreyttur varst orðinn og þrekið smátt,

um þrautir og baráttu ræddir fátt

og kveiðst ekki komandi degi.

(Hugrún)

Jóhanna, Sigvaldi, Ólöf,

Elín, Helgi og fjölskyldur.

Gulli bróðir er dáinn. Þannig er lífið. Hann var síðustu mánuðina smám saman að týna tengslum við umhverfið og fólkið í kringum sig. Þekkti okkur næstu þó til hinstu stundar.

Minningar frá löngu liðinni tíð leita á hugann þegar sú stund er orðin að bróðir minn er horfinn af þessum heimi.

Við vorum báðir komnir á níræðisaldur og vegferð saman orðin ansi löng.

Við vorum litlir pollar sendir á síðasta degi sumars að ná í hestana og hittum Hjört á Syðra-Hvarfi og sögðum honum að við yrðum að láta þá inn því veturinn kæmi á morgun.

Við fórum á Grána gamla við einteyming yfir ána á leið í skólann og geymdum hann í túninu á Bakka meðan við lærðum hjá Þóra rni á Tjörn.

Við gerðum snjóhús í skaflinum suður af bænum og bjuggum til snjókúlur daginn sem þiðnaði svo hægt var að hafa stríð í heilan dag.

Við fengum að fara með mömmu á vagni til Dalvíkur að sjá sjóinn og koma í kaupfélagsbúðina og kaupa bolsíur og Valash.

Ég var í uppáhaldi hjá mömmu og Gulli sagði: „Jói, skældu svo mamma nái í lifrarpylsu.“

En Gulli fékk einn að fara á Hofsárdalinn með pabba að leita að kindum – ég var of lítill.

Svo urðum við svolítið stærri og látnir mjólka kýrnar og fara með dunkana á pallinn við veginn. Mjólkurbíllinn tók þá og skildi eftir tvo poka af fóðurbæti á pallinum – við Gulli bárum þá heim á bakinu.

Svo hættum við allt í einu að vera litlir og reyndum að verða fullorðnir – lukum prófi úr bændaskóla og Gulli fór að búa og ég að segja honum hvernig hann ætti að búa.

Höfðum svo báðir n okkuð við að dunda.

En rétt þegar þetta var byrjað urðum við báðir gamlir og byggðum saman hús til að geyma í minningar.

Nú er Gulli bróðir dáinn og ekki verður aftur farið í búð að kaupa bolsíur eða tvímenna á Grána yfir ána.

Söknuður þess horfna fyllir hugann og stundina sem er aðeins til þess að færa þökk fyrir samveru um langan aldur og flytja samúðarkveðjur til allra er hann þekktu á tíma sem var.

Jóhannes

Sigvaldason.