Sveinn Rúnar Björnsson fæddist í Reykjavík 30. ágúst 1940. Hann andaðist á Hjúkrunarheimilinu Ísafold í Garðabæ 26. nóvember 2017.

Foreldrar Sveins Rúnars voru Björn Sveinsson, f. 14. júlí 1907, d. 24. maí 1983, og Guðríður Jóhanna Jóhannsdóttir, f. 28. september 1906, d. 26. mars 2004. Sveinn Rúnar var elstur í röð þriggja systkina en næstur er Jóhann Reynir Björnsson, f. 13. janúar 1943, og yngst er Guðrún Erna Björnsdóttir, f. 9. desember 1944. Sveinn Rúnar og Dýrleif Pétursdóttir, f. 6. janúar 1941, gengu í hjónaband 17. ágúst 1963. Börn þeirra eru: 1) Pétur, f. 16. apríl 1963, kona hans er Una Snorradóttir og börn þeirra eru Sveinn Rúnar og Daníel Árni. 2) Björn, f. 5. apríl 1964, börn hans eru Anna Birna og Silja Ýr. 3) Margeir f. 7. maí 1966, kona hans er Helga Benediktsdóttir og börn þeirra eru Sævar og Sigurður Rúnar. 4) Guðjón Rúnar, f. 19. apríl 1977, kona hans er Þóra Björg Andrésdóttir og börn þeirra Inga Dís og Jóhanna Dýrleif og stjúpsonur Andrés Blær. Langafabörnin voru fjögur talsins; Þór Bergmann, Unnur Elísabet, Máney Kamilla og Íris Embla.

Útför Sveins Rúnars verður gerð frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 8. desember 2017, klukkan 13.

Það var 24. júlí 2015 sem ég fór með pabba á slysadeildina við Fossvog og má segja að þá hafi upphafist nýtt tímabil hjá pabba og mömmu enda flutti pabbi ekki heim aftur frá þeim tíma. Ég minnist pabba þannig að hann var ávallt að vinna eða spila á harmónikkuna. Því til viðbótar hafði hann gaman af því að spila fótbolta og spilaði m.a. með knattspyrnudeild Hauka. Tónlistin átti stóran sess í lífi hans, en pabbi byrjaði að læra á harmoniku 13 ára og eignaðist svo sína fyrstu nikku fjórtán ára, sem hann keypti fyrir fermingarpeningana. Þegar ég var sjö ára byrjaði pabbi í hljómsveitinni Hrókum og má segja að eftir það hafi öll föstudags- og laugardagskvöld verið upptekin hjá honum þar sem hljómsveitin var að spila á böllum. Það voru ófá skiptin sem ég fór með pabba til að stilla upp hljóðfærunum á þeim stað þar sem dansleikur var fram undan. Þegar ég fer að rifja upp stundirnar með pabba er mér fyrst hugsað til þeirra fjölmörgu ferða sem við fórum saman til Kvígindisfjarðar, en sá staður togaði mjög í pabba enda oft með hugann þar. Hann hafði áform um að byggja þar sumarhús og byrjaði hann á gistihúsinu enda átti að vera í því á meðan sumarhúsið sjálft var í byggingu. Hann hafði stóra drauma um að gera gott hús úti á Tanga en því miður náði hann ekki þeim markmiðum sínum enda veikindin farin að segja til sín og hafa áhrif á getu hans. Mér er einnig hugsað til jólanna, á mínum yngri árum, og þá sér í lagi aðfangadags, en þá kom það ósjaldan fyrir að pabbi var í vinnu langt fram eftir en náði oftast að koma heim rétt áður en klukkan sló sex. Þá hafði hann verið að aðstoða fólk með rafmagnið svona rétt fyrir hátíðarnar og það á síðustu stundu. Hvað hann sjálfan varðar var pabbi svo sem engin undantekning þar og var ekki mikið að stressa sig á hlutunum þegar kom að því að gera klárt. Hann lét stundum annað ganga fyrir áður en hann tók sig til að klára til dæmis eitthvað heima fyrir. Ávallt tókst honum þó að klára það sem klára þurfti þó að litlu hefði munað og er dæmi þess að hann var að klára að mála vegg hálftíma áður en von var á fyrsta gestinum í afmælisboð til hans. Ég minnist pabba hins vegar sem duglegs og hjálpsams manni. Eftir stutta viðveru á slysadeildinni fyrir rúmlega tveimur árum lagðist hann inn á Landakotspítala þar sem hann var greindur með Lewy Body heilabilunarsjúkdóminn og hafði það mikil áhrif á pabba. Síðar fluttist pabbi á Ísafold í Garðabæ með smá viðveru á Vífilsstöðum áður. Sem gefur að skilja var pabbi aldrei sáttur við sín afdrif en þrátt fyrir það leið honum vel á Ísafold enda mikið heimsóttur af systkinum, frændum og vinum. Frá því að pabbi veiktist og þar til hann lést hefur mamma staðið við hlið hans eins og klettur og verið hans stoð og stytta alla tíð.

Pabbi var lánsamur að hafa átt mömmu að sem kveður nú lífsförunaut sinn.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Í Jesú nafni amen.

(Valdimar Briem)

Margeir Sveinsson.

Mig langar að minnast Sveins Rúnars frænda míns með fáeinum orðum. Af okkur sem þekktum hann frá barnæsku var hann alltaf kallaður Rúnar eða Rúni. Ég man fyrst eftir Rúnari þegar foreldrar hans, þau Gauja og Bjössi, komu í sumarfríum vestur að Kirkjubóli með börnin sín, fyrst líklega sumarið 1946. Svo var Rúnar í sveit á Kirkjubóli á hverju sumri fram yfir fermingu. Á þessum sumrum lékum við systkinin í Bæ okkur mjög oft við krakka sem voru í sveit á Kirkjubóli og kynntumst þess vegna mjög vel. Seinna þegar við bræður fórum að fara suður í vinnu á vetrum vorum við í fæði og húsnæði hjá Gauju frænku og Bjössa og vorum bara eins og hluti af fjölskyldunni. Síðan þá hefur alltaf verið mjög náinn vinskapur á milli okkar og Hraunbergssystkinanna.

Við Rúnar höfum margt brallað saman um dagana. Fyrst farið saman á böll sem ungir menn. Seinna farið í tjaldútilegur á sumrin eftir að við vorum komnir með fjölskyldur. Síðan fórum við báðir að byggja okkur íbúðarhús og enn seinna sumarbústaði. Þar sem Rúnar var rafvirkjameistari lenti öll rafmagnsvinna á honum en sem betur fer gat ég rétt honum hjálparhönd við smíðavinnu í staðinn.

Rúnar var mjög flinkur harmonikuleikari og spilaði hann ásamt félögum sínum á skemmtunum hjá okkur í Barðstrendingafélaginu til fjölda ára.

Síðustu ár hafa verið Rúnari frænda mínum erfið eftir að hann missti heilsuna og varð að dvelja inni á sjúkrastofnunum. Hefur hann örugglega verið hvíldinni feginn.

Að lokum viljum við Systa og börnin okkar votta elsku Dillu og strákunum þeirra, þeim Pétri, Birni, Margeiri og Guðjóni Rúnari og fjölskyldum þeirra innilega samúð okkar.

Ég vil þakka Rúnari frænda mínum áratuga vináttu og tryggð. Megi hann hvíla í friði.

Snorri Jóhannesson.

Nú hefur æskuvinur minn Sveinn Rúnar Björnsson kvatt okkur, við höfum verið vinir frá unga aldri. Það var mér mikils virði að koma frá Öldugötu upp á Hraunberg að heimsækja hann og aðra vini mína þarna.

Við Rúnar og fleiri vinir vorum saman löngum stundum og fundum uppá mörgu. Meðal annars fórum við saman í mótorhjólaferðir. Eitt skipti fórum við eftirminnilega ferð 15 ára á skellinöðrum frá Hafnarfirði vestur á Barðaströnd. Ferðin var á lélegum malarvegum eða slóðum og yfir óbrúaðar ár, í Gilsfirði þurfti að sæta lagi og keyra fjörurnar. Enduðum við í Kirkjubóli á Bæjarnesi þar sem móðir Rúnars fæddist, og tókum þátt í heyskap þar.

Rúnar kom sér vel áfram í lífinu, lærði rafvirkjun og vann sem rafvirkjameistari, eignaðist góða konu og fjóra syni.

Hann hafði gaman af tónlist og lærði að spila á harmonikku eins og pabbi hans.

Það var gott fyrir ungling að eiga vin sem hann getur treyst, og var Rúnar einstaklega traustur og heiðarlegur.

Hann átti indæla foreldra og systkini og voru þau hjónin Björn og Guðríður sérstaklega barngóð. Pabbi Rúnars lék t.d. oft með okkur strákunum í íshokkí og fótbolta.

Að kynnast Rúnari og fólkinu á Hraunbergi var mikil gæfa fyrir mig, voru þau mér eins og önnur fjölskylda.

Við vottum Dýrleifu, sonum hennar og fjölskyldu innilega samúð.

Jóhannes Jónsson,

Guðrún Lárusdóttir.

Okkur hjónin langar til að skrifa nokkur kveðjuorð til okkar góða vinar Sveins Rúnars Björnssonar, en við höfum verið svo heppin að eiga hann að vini og samferðarmanni megnið af lífsleiðinni; Garðar frá því þeir voru drengir í sveit og bjuggu þar með ekta bú eins og börn áttu í sveitum og þegar frí var hjá snúningadrengjum sem þeir voru á Kirkjubóli. Stundum komu góðir gestir í heimsókn í búið, frændur Rúnars frá Bæ sem er næsti bær við Kirkjuból. Stutt er síðan rifjaðar voru upp góðar minningar frá þessum æskuárum hjá þessum vinum. Ég sem var úr sömu sveit og þeir Rúnar og Garðar voru í, kynntist þeim svo á unglingsárunum og trúlofaðist Garðari. Eftir það kom ég næstum daglega á heimili Rúnars, þangað var alltaf jafn einstaklega gott að koma og oft spilað, aðallega vist af miklu fjöri.

Rúnar var fljótt kominn með kærustu sem er konan hans enn í dag, og öll höfum við fjögur haldið okkar sömu vináttu enn í dag og heimsótt hvort annað á öllum stöðum sem við höfum búið á. Þau buðu okkur með sér til Siglufjarðar, æskustöðva Dýrleifar konu Rúnars, í mjög skemmtilega ferð og við höfum líka farið saman vestur í Múlasveit, þaðan sem við Rúnar erum bæði ættuð og höfðum alltaf miklar tryggðartaugar til.

Rúnar hafði verið að undirbúa að byggja sumarhús á Kirkjubóli, en þau hjón eiga fallegan sumarbústað uppi í Borgarfirði og þar höfum við notið gestrisni þeirra og átt margar glaðar stundir, oftast með vinum okkar beggja.

Rúnar spilaði mjög vel á harmoniku og spilaði oft á skemmtunum sem Barðstrendingafélagið í Reykjavík hélt og voru þær skemmtanir mjög vel heppnaðar. Rúnar var einnig með hljómsveit og spilaði víða á skemmtunum um tíma og hét hljómsveitin Hrókar.

Að eiga eins góðan vin eins og við áttum í Rúnari er ekki sjálfgefið, svo tryggur og góður vinur var hann okkur. Hvíl í friði, kæri vinur, og við þökkum fyrir allt.

Við hjónin vottum Dýrleif, börnum þeirra og öðrum ættingjum okkar innilegustu samúð og biðjum góðan guð að vera með ykkur og vernda ykkur öll.

Ykkar vinir,

Garðar og Ásta.

Það snertir mann alltaf djúpt að fá fréttir af andláti góðs vinar, þó að við þeim megi jafnvel búast. Við Sveinn Rúnar kynntumst fyrst þegar ég hóf nám í rafvirkjun í Rafröst í Reykjavík árið 1964. Þar var Rúnar þá fyrir á námsamningi. Fljótlega kom að því að við Rúnar fórum að vinna saman í raflögnum víðsvegar um höfuðborgarsvæðið, í verkum sem hann bar hitann og þungann af, enda mjög vandvirkur og nákvæmur í einu og öllu. Skipulagður og úrræðagóður. Sá eiginleiki hans kom sér líka einkar vel, því nóg var alltaf að gera. Hann var líka harmónikkuleikari í danshljómsveitinni Hrókum sem spilaði fyrir dansi vítt og breitt um landið. Svo fékk fótboltinn sem hann iðkaði með Haukum líka sinn tíma. Fljótt tókst mikil og góð vinátta með okkur Rúnari. Allt okkar samstarf gekk mjög vel. Sú vinátta og samvinna hefur staðið alla tíð síðan, eða í rúma hálfa öld. Á meðan við vorum enn í iðnnámi fékk Rúnar og hans fjölskylda lóðarúthlutun í raðhúsahverfi sem var þá í uppbyggingu við Smyrlahraun í Hafnarfirði. Rúnar hafði frétt af lausum raðhúsalóðum þar í hverfinu og við Didda mín, sem vorum þá ungt kærustupar, ákváðum að sækja líka um lóð, sem við og fengum. Þar byggðu Rúnar, Dilla og fjölskylda, við líka og bjuggum svo þar í nábýli í næstum 30 ár og höfðu fjölskyldur okkar mikinn samgang þar allan tímann.

Við Rúnar unnum saman að mörgum verkum og þar á meðal í nýbyggingu Hótels Loftleiða, raflagnavinnu og uppsetningu lýsingar í sölum hótelsins. Meðan ég starfaði í lögreglunni í Hafnarfirði vann ég með Rúnari í raflögnum á frívöktum. Alltaf var Rúnar boðinn og búinn að aðstoða mig og leiðbeina í þeim verkum sem ég tók að mér sjálfur.

Árið 1978 fengum við Rúnar úthlutaða lóð undir iðnaðarhús að Kaplahrauni 12 í Hafnarfirði. En þegar ég hóf störf hjá Málmsteypunni Hellu yfirtók Rúnar minn hlut í þeirri lóð. Þegar Hella hóf svo byggingu á nýrri starfsstöð að Kaplahrauni 5 tók Rúnar að sér raflagnir í því húsnæði. Hann sá síðan um alla raflagnavinnu þar meðan heilsa leyfði.

Rúnar dvaldi á Ísafold í Garðabæ síðasta árið sem hann lifði og þar áttum víð sem oftar góða samverustund að morgni dags nú í oktober og ræddum ýmis hugleikin mál. Ég kvaddi svo Rúnar vin minn þegar starfsmaður Ísafoldar kom og fylgdi honum til hádegisverðar. Síðdegis þann dag hringdi Margeir sonur Rúnars í mig og sagði mér að faðir hans hefði dottið í herbergi sínu og brotnað illa. Sú bylta og það sem henni fylgdi varð honum ofviða. Við Didda og okkar fjölskylda þökkum Rúnari, Dillu og þeirra fjölskyldu fyrir góða vináttu alla tíð og biðjum góðan Guð að veita þeim styrk.

Þorvaldur Stefán

Hallgrímsson.

Fallinn er frá góður vinur til margra ára. Okkar leiðir lágu fyrst saman 1970 þar sem við unnum hjá Rafröst í Ingólfsstræti sem rafvirkjar. Frá árinu 1973 varð ég rafvirkjameistari Hrafnistu Reykjavík í 20 ár og fékk ég Rúnar oft til að aðstoða mig þegar mikið lá við. Hann var handlaginn, ráðagóður og kunni góð skil á fagi sínu. Árið 1973 vantaði okkur Lárus Sigurðsson trommara (sem nýfallinn er frá) harmonikkuleikara og kom enginn til greina nema Rúnar. Við stofnuðum þá tríóið „Hrókar alls fagnaðar“ sem starfaði í um 15 ár. Mikið var að gera hjá okkur og spiluðum við um allt land. Eftirminnileg er ferð okkar með eiginkonum er við spiluðum á þorrablótum bæði í New York og Washington. Við lékum á alls kyns skemmtunum í Domus Medica fyrir Barðstrendingafélagið og fleiri átthagafélög í mörg ár. Rúnar var afskaplega músíkalskur, þolinmóður frábær spilari og hafði næmt tóneyra. Þá æfði hann stíft og lét ekkert frá sér fara né heyrast fyrr en hann var ánægður. Hann var ekki að trana sér fram, heldur var til hlés og hugljúfir tónarnir flæddu frá honum. Hann hafði góða aðstöðu á háalofti fyrir ofan verkstæði sitt í Hafnarfirðinum þar sem við æfðum saman einu sinni til tvisvar í viku og var oft glatt á hjalla þar yfir kaffibolla. Oft eftir böllin sem stóðu til kl. 2 og 3 að nóttu enduðum við heima hjá einhverjum okkar þar sem beið kaffi og nætursnarl. Þá fórum við Rúnar saman nokkrum sinnum til rjúpnaveiða. Ég sakna þess að ekki skuli liggja eftir Rúnar upptökur af harmonikkuleik hans, þjóðinni til ánægju og til að sýna hversu mikill snillingur hann var.

Rúnar minn. Þú ert farinn, við komum á eftir. Elsku Dýrleif og fjölskylda. Við Arna sendum ykkur hugheilar samúðarkveðjur.

Sighvatur Sveinsson.