Samkvæmt samantektarskýrslu UNICEF á Íslandi frá því í janúar 2016, þá er talið að um 9,1% íslenskra barna alist upp við mismikinn skort. Þetta eru samtals 6107 börn og þar af eru 1586 þeirra sem líða verulegan skort.

Samkvæmt samantektarskýrslu UNICEF á Íslandi frá því í janúar 2016, þá er talið að um 9,1% íslenskra barna alist upp við mismikinn skort. Þetta eru samtals 6107 börn og þar af eru 1586 þeirra sem líða verulegan skort.

Þetta eru börnin sem geta verið svöng þar sem þau hafa ekki nesti með sér í skólann, fá ekki að borða með hinum börnunum í hádeginu af því að foreldri/foreldrar hafa ekki ráð á að greiða fyrir skólamáltíðir.

Þetta eru börnin okkar sem fá ekki tækifæri til að stunda íþróttir, læra á hljóðfæri, eignast ný föt, né heldur fylgja eftir því sem talið er falla undir eðlilega framfærslu barna almennt.

Þetta eru og börnin okkar sem oftast lifa við hvað erfiðastar aðstæður heima fyrir. Að ríkjandi valdhafar skuli ekki sjá ástæðu til að skera upp herör gegn þessum sorglegu aðstæðum þessara barna, er mér með öllu óskiljanlegt.

Er eitthvað dýrmætara en börnin okkar?

Ég á auðvelt með að svara spurningunni því gagnvart mér er svarið einfalt. NEI, það er ekkert dýrmætara en börnin.

Litla fólkið okkar sem líður hér skort fær aldrei að njóta æskunnar, lifir oft við sult og seyru og virðist gleymast í umræðunni. Þetta eru einstaklingarnir sem eiga hvað mest á hættu að verða utan gátta í samfélaginu og lenda upp á kant við lög og reglur. Við megum aldrei gleyma því að þetta er ekki þeim að kenna, þau völdu ekki þetta erfiða hlutskipti sitt og eiga ekki að þurfa að ganga í gegnum æskuna sem eitt stórt refsingartímabil vanlíðunar og óhamingju.

Tökum saman höndum

Flokkur Fólksins vill taka utan um börnin okkar og tryggja það, að ekkert barn á Íslandi sé nokkurn tímann svangt vegna fátæktar. Ég vil kalla stjórnvöld til ábyrgðar og hef beðið ítrekað um það, að við tökum saman höndum hvar í flokki sem við stöndum. Við eigum frábæra þingmenn, þ.e samansafn einstaklinga með mikla reynslu af þingstörfum. Ég kalla allt þetta frábæra fólk til liðs við börnin okkar nú. Hugsið ykkur, það eru að koma jól, líka hjá þeim. Enn ein jólin sem valda vonbrigðum og sorg í stað gleði og kátínu. Hagsældin og góðærið hefur aldrei verið meira en einmitt nú og því aldrei verið auðveldara að takast á við fátæktina og útrýma henni með öllu.

Ég hrópa því aftur og aftur eins hátt og ég get: „Tökum saman höndum hvar í flokki sem við stöndum og útrýmum þjóðarskömminni fátækt í eitt skipti fyrir öll!Við eigum og getum öll fengið að lifa í fallega landinu okkar með reisn, allt sem til þess þarf er samstaða og vilji valdhafanna.“

Höfundur er alþingismaður og formaður Flokks fólksins.

Höf.: Inga Sæland