Dómhús Hús Hæstaréttar Íslands.
Dómhús Hús Hæstaréttar Íslands. — Morgunblaðið/Ófeigur
Hæstiréttur hefur vísað heim í hérað á ný máli, þar sem Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi 25 ára gamlan karlmann í 4 ára fangelsi fyrir manndrápstilraun. Héraðsdómur sakfelldi manninn, Árna Gils Hjaltason, í ágúst sl.

Hæstiréttur hefur vísað heim í hérað á ný máli, þar sem Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi 25 ára gamlan karlmann í 4 ára fangelsi fyrir manndrápstilraun.

Héraðsdómur sakfelldi manninn, Árna Gils Hjaltason, í ágúst sl. fyrir að stinga mann með hnífi í höfuðið utan við söluturn í Breiðholti í Reykjavík í mars. Var það niðurstaða dómsins, að ekki væri óvarlegt að telja sannað að Árni hefði í átökunum við brotaþola veitt honum högg með hnífnum í höfuðið eins og honum var gefið að sök í ákærunni.

Slys eða sjálfsvörn

Árni neitaði sök og sagði að þarna hefði orðið slys eða í versta falli sjálfsvörn enda hefði fórnarlambið komið sjálft með hnífinn á staðinn.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu, að ekki væri unnt án frekari sönnunarfærslu að slá því föstu, eins og héraðsdómur hefði gert, að útilokað væri að hnífurinn hefði rekist í brotaþolann fyrir slysni í átökum hans og Árna. Því ógilti Hæstiréttur dóm héraðsdóms og vísaði málinu aftur heim í hérað til meðferðar að nýju.

Hæstiréttur staðfesti hins vegar í gær fjögurra mánaða fangelsisdóm yfir Árna í öðru máli fyrir líkamsárás og fyrir að hafa hrækt á lögregluþjón.