Katla Þórðardóttir fæddist í Reykjavík 3. október 1945. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 24. nóvember 2017.

Hún var dóttir Þórðar Gestssonar kennara frá Dal í Miklaholtssókn, f. 26. mars 1914, d. 27. september 1946 og Þórdísar Gunnlaugsdóttur starfsstúlku frá Reynihólum í Miðfirði, f. 8. janúar 1914, d. 10. desember 2002.

Systkini Kötlu eru: Gunnlaug Björk, f. 1936, Eiríkur Ólafur, f. 1938, Jónína Helga, f. 1940, Bergljót, f. 1943, Ingibjörg, f. 1944, d. 1990, Ingi Þór, f. 1948, og Heiðrún Bára, f. 1954.

Katla eignaðist tvo syni: Vilmund Óskarsson, f. 2. maí 1965, með Óskari Karlssyni, f. 26. nóvember 1944, og Þóri Jónsson, f. 10. ágúst 1968, með Jóni Þór Sigurðssyni, f. 15. september 1943.

Börn Vilmundar eru Katla, f. 13. maí 1988, með fyrrverandi sambýliskonu sinni Guðbjörgu Sævarsdóttur, f. 12. apríl 1970. Barn Kötlu er Heiðdís Klara, f. 2. júlí 2013, með sambýlismanni sínum Hirti Magna Sigurðssyni, f. 10. júlí 1990. Stefán Joseph Martin, f. 13. apríl 1993. Ísak Lane Martin, f. 17. september 1996, með eiginkonu sinni Margaret Róbertu Martin, f. 28. maí 1968.

Börn Þóris eru Magni Freyr, f. 31. desember 1990, Daníel Þór, f. 8. júní 1993, og Ása Hrönn, f. 29. apríl 1999, með eiginkonu sinni Friðbjörtu Gunnarsdóttur f. 15. júlí 1969.

Katla veiktist alvarlega af heilahimnubólgu um eins árs aldur og var vart hugað líf en heyrnleysi varð hlutskipti hennar vegna veikindanna. Hún fór því á heimavist heyrnleysingjaskólans í Stakkholti fjögurra ára gömul og kláraði hann 15 ára gömul. Við tók Húsmæðraskólinn að Laugum þar sem hún útskrifaðist. Katla lagði stund á ýmis verkakvennastörf um ævina, m.a. fiskvinnslu, vinnu á saumastofum, verkakvennavinnu í verksmiðjum, m.a. í Hampiðjunni, vinnu í eldhúsi á bæjarskrifstofum Kópavogs og hjá heyrnleysingjaskólanum í Öskjuhlíð auk þess sem hún vann ýmsa handiðn heima við og seldi til verslana. Hún reyndi sig í námi við tækniteiknun í Iðnskólanum í Reykjavík en varð frá að hverfa vegna aðstöðuleysis fyrir heyrnalausa. 39 ára fluttist Katla búferlum til Svíþjóðar og starfaði lengst af í Saab-verksmiðjunni í Trollhättan. Í Svíþjóð hóf hún nám í þroskaþjálfun fyrir heyrnarlausa sem hún lauk og starfaði við það síðustu árin þar. Hún flutti heim til Íslands á ný 1997. Hér starfaði hún á sambýli fyrir daufblinda og lauk starfsferli sínum í eldhúsi á leikskóla. Katla tók virkan þátt í félagi heyrnarlausra og var meðal annars gjaldkeri skíðafélagsins nokkur misseri. Hin síðustu ár fór hún víða og átti meðal annars athvarf í Danmörku þar sem hún dvaldist löngum. Katla greindist með heilaæxli í lok árs 2016 sem að lokum varð henni að aldurtila.

Jarðarför Kötlu fer fram frá Grensáskirkju, kirkju heyrnarlausra, í dag, 8. desember 2017, klukkan 13.

Elsku Katla systir mín er dáin.

Viku fyrir eins árs afmæli hennar dó pabbi okkar. Um sama leyti veiktist Katla af heilahimnubólgu og var ekki hugað líf. En hún lifði, ótrúlega sterk frá upphafi. En það hafði tekið sinn toll. Heyrnin var algjörlega farin. Hún lá lengi á Landakotsspítala. Nunnurnar sem önnuðust hana heilluðust af þessari litlu telpu og fóru fram á að fá hana til fósturs. En mamma, ung ekkja með fimm börn, gat haldið hópnum sínum saman. Börn þurftu að fara í skóla til að læra, það var skólaskylda. Og heyrnarlausu börnin líka. Þegar Katla var fjögurra ára fór hún í Heyrnleysingjaskólann. Þá var hún skikkuð burt af heimilinu og í heimavist, engin miskunn. Þetta skildi eftir sig djúpt sár. En hún fékk að koma heim um helgar, sem var meira en börnin utan af landi gátu gert. Hún var þar skólaskyldutímann fram á unglingsár og skólasystkin hennar voru eins og önnur systkin. Hún fór svo á Húsmæðraskólann að Laugum í Aðaldal. Það var henni gott veganesti. Hún var alla tíð myndarleg og hagsýn húsmóðir. Allur saumaskapur og aðrar hannyrðir léku í höndunum á henni. Hún sneið og saumaði á sig föt eftir nýjustu tísku, oft úr efnisbútum og notuðum fötum. Og þegar hún drýgði tekjurnar með því að prjóna lopapeysur hannaði hún þær eftir hendinni og þær runnu frá henni á ótrúlega stuttum tíma eins og prjónavél. Svo eignaðist hún drengina sína, Villa og Þóri. Með góðri hjálp mömmu og fjölskyldunnar gat hún unnið og unnið mikið. Eignaðist sína íbúð og bíl. Þegar drengirnir voru orðnir stálpaðir fór hún til Svíþjóðar og var þar í þrettán ár. Vann þar við saumaskap hjá SAAB. Þar saumaði hún leðuráklæði í bílana, sem segir sitt um færni hennar. Svo fór SAAB á hausinn og fólk gat farið á atvinnuleysisbætur eða í nám. Auðvitað fór Katla í nám og lærði umönnun heyrnarlausra þroskaheftra. Í Svíþjóð hitti hún Lennart, sem var líka heyrnarlaus. Þau bjuggu saman í nokkur ár en svo skildu leiðir. Hún vildi heim til Íslands en hann vildi ekki fara frá Svíþjóð. Þegar hún kom til Íslands fór hún að vinna á sambýli þar sem menntun hennar gat nýst. Þar varð hún fyrir grófu einelti, sem fór illa með hana. En svo birti til þegar hún hitti Carl, þann sómamann, Þau áttu saman fjögur yndisleg ár þangað til heilaæxli lagði hana að velli.

Elsku Katla systir mín, svo sjálfstæður og sterkur persónuleiki. Alltaf glettin og spaugsöm.

Ég kveð þig með virðingu og þökk.

Helga systir.

Elsku Katla systir mín er látin eftir baráttu við heilaæxli.

Hún vissi að hverju stefndi og notaði tímann eins vel og henni var unnt, framkvæmdi allt sem hún gat og gott betur eins og hún hafði alltaf gert. Hún var ársgömul þegar hún missti heyrnina af völdum heilahimnubólgu og fór fjögurra ára gömul í heyrnleysingjaskólann og var þar á veturna til fimmtán ára aldurs. Hún kom alltaf heim um helgar og var heima á sumrin. Katla var sérstaklega dugleg í öllu sem hún tók sér fyrir hendur, hvort sem það var vinna eða nám. Hún eignaðist tvo syni, keypti sér íbúð og bíl og vann stundum í þremur störfum. Katla mín var einstakur húmoristi og gerði óspart grín að sjálfri sér og sagði sögur svo að fólk veltist um af hlátri. Nú verða sögurnar ekki fleiri og ég sakna Kötlu systur minnar. Guð blessi hana.

Þegar þú eignaðist sess í hjarta mínu

fannst mér

hann svo stór að

hann fyllti hjarta mitt.

Það var mér nóg.

Síðan fóru að bætast við

fleiri sessar og þá

áttaði ég mig á því

að það höfðu verið þar fleiri fyrir

þeir byrjuðu að koma

strax við fæðingu mína

og þeim fór alltaf fjölgandi

þrátt fyrir að ég veldi þá

alltaf vandlega

þeir eru þarna og fara ekkert

mismunandi stórir

en alltaf stöðugir.

Það tekur enginn sess annars í hjarta manns

hann fær bara sinn eigin sess.

Þó einhver hverfi á braut

á hann samt alltaf

sinn sess

á sínum stað

í hjarta manns.

(BÞ)

Bergljót Þórðardóttir.

Mig langar að skrifa nokkrar línur um þessa yndislegu konu sem kvaddi þennan heim eftir erfið veikindi. Við urðum nánar þegar við bjuggum í Svíþjóð en þegar við fluttum heim til Íslands 1997 urðum við enn nánari og hún sagði að hún ætti enga dóttur og kallaði mig litlu stelpuna sína. Við höfum gert margt saman og brallað saman. Ég sakna þess að baka ekki sörurnar um jólin með þér. Læt fylgja ljóð til þín, elsku „mamma“, og mun alltaf vera litla stelpan þín. Carl besti vinur hennar stóð við hlið hennar sem klettur. Villi og Þórir, ég votta ykkur og fjölskyldum ykkar samúð.

Hvíl í friði.

Þú gengin ert hugglöð á frelsarans fund

og fagnar með útvaldra skara,

þar gleðin er eilíf, þar grær sérhver und.

Hve gott og sælt við hinn hinsta blund

í útbreiddan faðm Guðs að fara.

Nú kveðja þig vinir með klökkva og þrá

því komin er skilnaðarstundin.

Hve indælt það verður þig aftur að sjá

í alsælu og fögnuði himnum á,

er sofnum vér síðasta blundinn.

(Hugrún)

Ragna Guðrún og fjölskylda.

Elsku Katla mín.

Margt þú hefur misjafnt reynt,

mörg þín dulið sárin.

Þú hefur alltaf getað greint,

gleði bak við tárin.

(JÁ)

Þín er saknað. Það er mér heiður að fá að kynnast þér í öll þessi ár.

Ég er ekki að telja hvað þau eru mörg en allavega var ég mjög ung þegar ég sá þig fyrst og ég man ég hugsaði hvað þú gætir sagt svo mikið á táknmáli. Ég var bara hálfdrættingur í því og var að læra, bara smástelpa. Við byrjuðum þó ekki fyrr en ég var komin á framhaldsskólaaldurinn að kynnast betur og spjalla meira. Þú varst alla tíð svo frábær í að segja sögur af fólki og atburðum í lífi þínu. Það var alveg ótrúlegt að horfa á þig segja frá og sjá hvernig þú gæddir sögur þínar lífi með ýmsum aukatilburðum og svipbrigðum. Mér er enn minnisstætt eitt dimmt nóvemberkvöld þegar þú keyrðir mig heim í heimavistina. Ekki gastu stoppað að segja frá einhverju sem þér var svo mikið um að segja frá að við bara reyktum „milli sögukafla“ inni í bílnum og spjölluðum alla nóttina þarna inni í bílnum og ég man að Guðrún Haf var með okkur þarna. Á meðan við spjölluðum þá byrjaði að snjóa, svo kom morgunninn og starfsmenn skólans mættu til vinnu og urðu ekkert smá undrandi þegar bíllinn var opnaður, snjórinn datt af og út stigum við. Þetta er bara eitt lítið dæmi hvernig maður gat nú gleymt sér þegar við spjölluðum saman.

Ég mun sakna þess að fá ekki lengur sms frá þér eða hvað þá símtal í gegnum símann sem við áttum svo oft og svo mörg á þessu ári. Þú lést svo sannarlega ekki aldurinn trufla þig, þú vildir vera vel tæknilega tengd til að geta átt samskipti; flottur snjallsími og góð fartölva var málið og þú stóðst á sjötugu.

Það var yndislegt að eiga með þér góða stund í Kaupamannahöfn í júní, sjá þig ánægða með Carli þínum og að segja mér frá Kaupmannahöfn þegar við gengum um, settumst niður við Nyhavn og fórum að borða á Skade restaurant.

Þú varst alltaf svo sjálfstæð og alltaf að skipuleggja. Skipulagðir daginn, skrifaðir á litla miða hvað þú ætlaðir að gera og ég get með sanni sagt að sjaldan eða aldrei hafir þú vaknað með auðan minnismiða.

Þú sagðir oft við mig að þú vildir vera á sama aldri og ég, aðeins einhverjum árum yngri þá værir þú búin að stofna fyrirtæki – gera hitt og þetta. Koma þér vel fyrir en þú minntist aldrei á að setjast niður og hafa það bara næs.

Synir þínir, Villi og Þórir, voru yndin þín. Þú sagðir mér oft frá þegar þeir voru litlir, þú einstæð móðir með þá og hvernig þér tókst að kaupa íbúð, bíl og koma ykkur vel fyrir. Búa þeim fallegt heimili, gefa ykkur að borða og sauma öll föt á ykkur. Auk þess alls varstu líka að vinna mikið til að geta séð fyrir ykkur. Meðan þú sagðir mér þessar sögur litaðir þú þær jákvæðni og skemmtilegheitum. Þú varst svo sannarlega mikill „multitasker“.

Vinmörg varstu og hugsaðir vel um vini þína. Það er mér heiður að vera ein af þeim og hafa fengið að kynnast þér svo vel – ég þakka fyrir innileg og skemmtileg margra ára kynni. Ég mun svo sannarlega sakna þín.

Carli vini þínum, sonum þínum Villa og Þóri og fjölskyldum votta ég mína dýpstu samúð.

Sigurlín Margrét og Magnús.

Góð vinkona okkar hún Katla er dáin. Hún sem var alltaf svo kát og glöð að sjá okkur og svo full af orku og lífsgleði. En nú er hún farin, bara einu ári eftir að hún veiktist. Hún er önnur í vinkvennahópnum sem við missum á einni og hálfri viku, en við höfum verið allar saman í saumaklúbbnum Perlu. Vinátta sem byrjaði þegar við vorum börn og hún unglingur.

Katla átti fallegt heimili. Það var alltaf svo fínt hjá henni og alltaf tilbúin kaffikanna og kökur handa okkur. Alltaf yndislegt að koma til hennar.

Hún var svo dugleg að bjarga sér. Hún fór til Svíþjóðar og bjó þar í 11 ár og vann þá í Saab-verksmiðju. Síðan fór hún í lýðháskóla fyrir heyrnarlausa og lærði að vera stuðningsfulltrúi. Hún vann líka á sambýli heyrnarlausra. Eftir að hún flutti heim aftur vann hún á sambýli hér heima.

Fyrir nokkrum árum kynntist hún góðum manni í Danmörku og var oft hjá honum. Hún tók mikinn þátt í félagslífi, var með okkur í Gerðubergi og fór í ferðalög með hópnum. Hún var mikil handavinnukona, prjónaði mikið lopapeysur og seldi og saumaði föt á sjálfa sig og aðra.

Hún skilur eftir sig tvo yndislega syni og tengdadætur og ömmubörn og langömmubarn.

Elsku Katla okkar. Þú skilur eftir þig margar góðar minningar og í hjörtum okkar verður þú alltaf þessi líflega, glaða og fjöruga kona. Takk fyrir allt sem þú gafst okkur. Við vitum að foreldrar þínir og aðrir sem hafa farið á undan taka vel á móti þér. Hvíldu í friði og Guð blessi þig.

Kveðja frá vinkonunum Diddu og Önnu Jónu.

Anna Jóna Lárusdóttir og Ingibjörg Andrésdóttir.