Öflug Helena Sverrisdóttir skoraði 26 stig fyrir Hauka og tók 22 fráköst og hér reynir Ivory Crawford, sem skoraði 33 stig fyrir Breiðablik, að stöðva hana.
Öflug Helena Sverrisdóttir skoraði 26 stig fyrir Hauka og tók 22 fráköst og hér reynir Ivory Crawford, sem skoraði 33 stig fyrir Breiðablik, að stöðva hana. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Ásvöllum Kristófer Kristjánsson sport@mbl.is Haukar náðu hefndum er þeir unnu Breiðablik, 87:69, í 12. umferð Dominos-deildar kvenna í körfubolta í gærkvöldi en Blikar höfðu unnið fyrri tvær viðureignir liðanna í vetur, bæði í deild og bikar.

Á Ásvöllum

Kristófer Kristjánsson

sport@mbl.is

Haukar náðu hefndum er þeir unnu Breiðablik, 87:69, í 12. umferð Dominos-deildar kvenna í körfubolta í gærkvöldi en Blikar höfðu unnið fyrri tvær viðureignir liðanna í vetur, bæði í deild og bikar.

Eftir ágæta byrjun á mótinu voru Haukar búnir að tapa þremur af síðustu fjórum leikjum sínum og var talsverð pressa á þeim að komast aftur á beinu brautina á Ásvöllum í gær. Það álag virðist ekki hafa haft áhrif á leikmenn liðsins sem hófu leikinn af krafti og voru yfir frá fyrstu mínútu. Landsliðskonan Helena Sverrisdóttir átti stórleik fyrir Hauka og náði heilum 17 varnarfráköstum en varnarleikur liðsins hefur verið einn helsti veikleiki þess í ár. Sigur sem þessi var akkúrat það sem Haukar þurftu eftir erfiðan nóvembermánuð.

Nýliðar Breiðabliks hafa náð óvæntum árangri í vetur en í gær lentu þeir á vegg og spiluðu sinn versta leik til þessa. Þetta unga lið Blika fór illa með Hauka í fyrri viðureign liðanna en í gær snerist þetta algjörlega við. Sóknarleikurinn var afleitur og bar á reynsluleysi liðsins eftir því sem leið á þegar ákvarðanatakan við körfuna varð verri og verri. Blikar verða að taka svona dag undir beltið og halda áfram enda stutt í næsta leik og vissulega mikið í þetta lið spunnið þó illa hafi gengið í gær.