Hjálmar Freysteinsson yrkir um „áhættuhegðun“: Fádæma slunginn og sleipur við slúðurburð þótti Greipur, sem varð úti með tík sinni í Tólfskerjavík en þangað fór hann með fleipur. Ríkisstjórninni hefur verið vel tekið.

Hjálmar Freysteinsson yrkir um „áhættuhegðun“:

Fádæma slunginn og sleipur

við slúðurburð þótti Greipur,

sem varð úti með tík

sinni í Tólfskerjavík

en þangað fór hann með fleipur.

Ríkisstjórninni hefur verið vel tekið. Davíð Hjálmar Haraldsson flettir upp í „GRIMMS-ÆVINTÝRUM SÍÐARI“:

Rauðhetta, lagleg og ljúf,

er lítil svo minnir á Stúf.

Annað samt óttast þarf meir:

Úlfarnir fylgj' enni tveir.

Hallmundur Kristinsson segir:

Ég til að byrja með hrifningu hem,

þótt hafi ég ekki misst trúna

á stóra fólkinu og stubbunum þrem

sem stjórna landinu núna.

„Ný ríkisstjórn vinsæl, segir RÚV“ er yfirskriftin á vísu Halldórs Guðlaugssonar:

Jólasveinar ganga um gólf,

gæðingar í skötulíki,

ellefu talsins, ekki tólf,

eru þeir í Köturíki.

Arnþór Helgason gerði á þriðjudag athugasemd við það á Boðnarmiði að Veðurstofan skyldi halda því fram að í Reykjavík væri logn. – „Hér í dreifbýlinu á Seltjarnarnesi er stinningskaldi af norðaustri,“ bætti hann við:

Nú er úti ærið kalt,

engu stormur þyrmir –

borgargötum gefið salt

sem glæru yfir hilmir.

Ingólfur Ómar Ármannsson horfði til himins:

Læðist húm um land og ver

lít ég myrkan heiminn.

Skarður máni fölur fer

ferða sinna um geiminn.

Bjarni Gunnlaugur Bjarnason var á svipuðum nótum:

Enn er máninn ekki fallinn

uppi fullur hangir þó

að hafi í tungli kannski karlinn

af kendiríi fengið nóg

Það var bjart veður á þriðjudag og fjallasýn. Jón Valur Jensson orti:

Falleg er sú fjallasýn,

finnst ei betra á jörðu neitt.

Jú, vera má, að enn sé eitt

öllu fegra: börnin mín

og allt það líf sem Guð oss gefur

og gæsku sinni æ umvefur.

„Hnoð dagsins segir frá að ekki fer alltaf allt sem til er sáð,“ segir Hallmundur Guðmundsson:

Reigður líkt og hani á haug

horfð' ann yfir sviðið.

Úr lúkum honum lukkan smaug,

læst var Gullna hliðið.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is