[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Reyni Finndal Grétarsson. Crymogea 2017. Innbundin, 182 bls.
Þessi bók er í nokkuð stóru broti og fallega úr garði gerð, texti tvídálkaður á síðum og aðal bókar eru ótal myndir af kortum. Höfundur segir í inngangi að bókin sé ekki „fræðirit, heldur bók sem hægt væri að lesa án þess að þekkja neitt til efnisins.... Aðaltilgangur þessarar bókar er því að sýna gömul Íslandskort“. Ártöl í bókarheiti eru við það miðuð að 1482 birtist á prenti fyrsta kortið með Íslandi og 1850 birtist uppdráttur Björns Gunnlaugssonar og Olafs Nikulas Olsens þar sem landið er vísindalega mælt. Á elstu uppdráttum er lögun landsins víðs fjarri raunveruleikanum; minnir á mynd af amöbu í kennslubók í líffræði (22-25) eða spýtt skinn á hurðarfleka (29). Kaflaskil verða í kortagerðinni þegar Ortelius gaf út kort af landinu 1590 og er talið fullvíst að Guðbrandur Þorláksson biskup hafi lagt ýmislegt í það púkk. Örnefni eru þar stórum fleiri en á fyrri kortum (þar voru Hólar, Skálholt og kannski Hekla) og þau voru raunveruleg. Þetta kort var risastökk frá furðulögun landsins í átt til raunveruleikans; landið verður þekkjanlegt í augum nútímamanna. Það er engan veginn vandalaust að prenta kort svo vel sé. Kortabók verður að vera í stóru sniði; sum kort í þessari bók eru svo lítil að sá sem hér skrifar gat engan veginn áttað sig, t.d. engilsaxneska heimskortið (11). Á nokkrum stöðum eru bútar úr kortum stækkaðir upp og það er vel. Allmörg kort hverfa að hluta til inn í bókarkjölinn þannig að sá hluti verður lesendum lítt aðgengilegur.

Öll kortlagning er viðleitni manna til að glöggva sig á rými og staðháttum. Alls konar firrur voru kortlagðar af því að kortagerðarmenn höfðu aldrei augum litið staðina, þeir höfðu engar mælingar, en kannski misgreinargóðar frásagnir ferðalanga eða sjófarenda. Þannig var Thule býsna lengi loðandi við kort af norðurhöfum, en þegar því var endanlega sökkt í sæ á 16. öld, þá reis ný eyja úr hafi, Frísland, sem prýddi kort um skeið. Kortagerðarmenn settu líka ýmsar sjávarskepnur inn á kortin, raunverulegar sem ímyndaðar. Þannig eru kortin líka menningarsöguleg heimild. Hér má taka hlut Heklu sem dæmi, en lengi var hún sýnd eldspúandi enda trúðu einhverjir því að þar væru port helvítis.

Sá sem hér skrifar hafði gagn og gaman af að lesa þessa bók og rýna í kortin; höfundir lýsir ágætlega þeirri tækni sem notuð var við kortagerðina, allt frá uppdrætti á skinn yfir í tréristur, koparstungur og litógrafíur. Mörg kortin eru greinilega frábærir prentgripir. Af hálfu forlags hefði raunar mátt beita meira ritstjórnarvaldi til þess að varast endurtekningar og útrýma misræmi; vættir og óvættir eru yfirleitt í karlkyni sem ritara þykir til óprýði þótt kvenkynsmyndin skjóti á einum stað upp kolli. Prentvillur eru fáar; á Zenokortinu (63) virðist eyja heita Icaria en Iscaria í texta (62). Á einum stað segir að Eggert Ólafsson hafi drukknað á Breiðafirði „á leið til fundar við unnustu sína“ (143) en hið rétta er að þau hjón drukknuðu bæði í heiftarlegu óveðri; glögg ritstjórn er til að lagfæra svona fingurbrjóta. Annars blasir við að höfundur bókarinnar er haldinn mikilli ástríðu fyrir efni sínu og ótal fróðleiksmolar falla lesanda í skaut um leið og þróunarsaga kortagerðar er skilmerkilega rakin.

Enn reyna menn að staðsetja sig í tíma og rúmi en nú er það gert með stafrænum hætti. Ortelíus og Mercator stæðu á öndinni ef þeim auðnaðist að opna Google kortin. Nú geta menn nefnilega kortlagt allar sínar ferðir rafrænt – nema til himins eða heljar.

Sölvi Sveinsson

Höf.: Sölvi Sveinsson