Dagskrárliðir Afmælisnefnd vegna 100 ára afmælis fullveldis Íslands afhenti styrki til 100 verkefna við athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu í gær.
Dagskrárliðir Afmælisnefnd vegna 100 ára afmælis fullveldis Íslands afhenti styrki til 100 verkefna við athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu í gær. — Morgunblaðið/Hari
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Með þessu erum við að fá landsmenn til að móta dagskrá afmælisársins.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Með þessu erum við að fá landsmenn til að móta dagskrá afmælisársins. Það skiptir okkur miklu máli að fá sem flesta til að taka þátt,“ segir Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, framkvæmdastjóri afmælisnefndar, vegna 100 ára afmælis fullveldis Íslands á næsta ári. Nefndin kynnti í gær 100 verkefni sem fá styrki til að standa fyrir ýmsum viðburðum á afmælisárinu.

Styrkir til verkefnanna er leið afmælisnefndarinnar til að standa fyrir hátíðahöldum um allt land eins og henni var falið samkvæmt ályktun Alþingis.

Auglýst var eftir tillögum að verkefnum á dagskrána. 169 tillögur bárust og var sótt um 280 milljónir króna til þeirra. Nefndin hafði úr 75 milljónum kr. að spila og skipti fjárhæðinni á milli 100 verkefna sem valin voru úr bunkanum.

Styrkja ímynd þjóðarinnar

Þrjú verkefni fengu hæstu styrkfjárhæðina, 3 milljónir kr. Það eru Þjóðminjasafn vegna hátíðasýninga, Íslenska óperan till að setja upp óperuna Bræður eftir Daníel Bjarnason í samstarfi við dönsku þjóðaróperuna og Sagafilm til að gera tíu stutta sjónvarpsþætti um merka atburði á fullveldisöldinni. „Verkefnin spanna allt litrófið. Þau eru stór og umfangsmikil eða minni um sig, en öll styrkja þau ímynd þjóðarinnar sem sjálfstæðrar og fullvalda þjóðar í samfélagi þjóðanna,“ segir í tilkynningu afmælisnefndar.

Ragnheiður Jóna segir að þessir viðburðir verði nú settir inn á dagskrá afmælisins á vef afmælisnefndarinnar. Sum verkefnin sem hljóta styrk verði með marga viðburði. Dagskráin hefst í janúar og stendur fram í desember.

Fleiri þátttökuverkefni

„Við fengum margar góðar tillögur en því miður getum við ekki styrkt fleiri. Áhugafólk hefur áfram tækifæri til að koma viðburðum inn á dagskrána,“ segir Ragnheiður. Nefnir hún að um miðjan desember verði opnað fyrir skráningu þátttökukverkefna á vef afmælisársins. Þegar eru komin nokkur slík verkefni.

Í tilkynningu afmælisnefndarinnar eru þrjú nefnd sérstaklega. Það er Fullveldiskakan sem Landssamband bakarameistara ætlar að láta baka, Fullveldisbörnin – aldarafmæli sem Hrafnista stendur fyrir og Umhverfis-Suðurland sem Samtök sunnlenskra sveitarfélaga standa fyrir.

Tveir hápunktar

Þótt hundruð viðburða verði á afmælisárinu standa tveir upp úr. 18. júlí verður hátíðarfundur Alþingis á Þingvöllum. Honum verður sjónvarpað beint. Þann dag fyrir 100 árum var sambandslagasamningur Íslands og Danmerkur undirritaður.

1. desember 2018, á sjálfan afmælisdaginn, verða hátíðahöld í Reykjavík á vegum ríkisstjórnarinnar, meðal annars við stjórnarráðið. Ragnheiður Jóna segir að afmælisnefndin hvetji sveitarfélög landsins til að halda hátíðir sem víðast á þessum tíma.