Bjarni Harðarson fæddist í Reykjavík 1. september 1954. Hann lést á heimili sínu í Bredebro í Danmörku 15. nóvember 2017.

Foreldrar Bjarna voru hjónin Hörður Jónasson úr Reykjavík, starfsmaður Gjaldheimtunnar, en hann lést 46 ára að aldri í októbermánuði 1975, og Kristín Brynja Árnadóttir frá Akureyri, skókaupmaður og síðar starfsmaður á Borgarspítalanum, og lifir hún son sinn. Systur Bjarna eru Hildur og Halldóra.

Einkadóttir Bjarna er Ingunn. Móðir hennar er Helga Matthíasdóttir, en þau Bjarni slitu samvistir eftir fárra ára hjúskap. Sonur Ingunnar er Kristófer Jens Brynjólfsson. Bjarni bjó síðar með Ásdísi Sól Gunnarsdóttur, og gekk hann syni hennar, Kristni Inga Hrafnssyni, í föðurstað. Í Danmörku bjó Bjarni um tíma með Tove Grascher, sem lést 8. desember 2010. Yngsta dóttir hennar, Melanie, ólst upp hjá þeim Bjarna.

Bjarni Harðarson verður jarðsunginn frá Áskirkju í dag, 8. desember 2017, klukkan 13.

Í dag kveð ég bróður minn. Hann bróðir minn var meira en bara bróðir, við vorum líka vinir, góðir vinir.

Við vorum mjög náin, allt frá því að við vorum börn. Ég fékk alltaf að vera með í leik og starfi hans, hvort sem það var með honum einum eða vinum hans á uppvaxtarárum okkar sem og í alvöru lífsins þegar fram liðu stundir. Við höfum því gengið í gegnum margt saman, bæði súrt og sætt.

En skjótt skipast veður í lofti, ekki renndi mig grun í að kveðjustundin væri svona nálægt, minn kæri bróðir. Ég er svo ósátt að þú sért farinn úr lífi mínu. Ég finn fyrir mikilli sorg að þurfa að kveðja en ég reyni að hugga mig við minninguna um góðan dreng.

Við vorum ákveðin í að eldast saman og ég að búa mig undir að hugsa um þig samhliða Árna eða ykkur gamlingjana saman. Við áttum svo margt ógert.

Minningin um góðan dreng, hann bróður minn, mun ávallt vera með mér í hjarta mínu og hans verður sárt saknað.

Þótt lífið oft á tíðum sýnist erfitt,

er endalaust af gleði til í því.

Elsku bróðir, þig ég missi.

Ekki bara bróður, einnig besta vin

en ég veit við munum hittast á ný.

Þín systir

Halldóra.

Bjarni Harðarson var í mörg ár skólafélagi okkar í 1954 árgangi í Langholtsskóla. Flest okkar kynntust í sjö ára bekk og voru saman til fimmtán ára aldurs.

Þessi ár mótuðu okkur og árgangurinn hefur verið samheldinn og hefur hist reglulega undanfarna áratugi.

Nýlega þegar Bjarni var síðast á Íslandi, hitti einn af okkur skólafélögunum hann og Bjarni sendi góðar kveðjur til skólafélaganna sem tóku kveðju Bjarna mjög vel og minntust hvað allir hefðu góðar minningar um Bjarna og hlökkuðu til að hitta hann hvenær sem það yrði.

En skömmu seinna fréttum við af andláti Bjarna og við 1954 árgangurinn í Langholtsskóla minnumst hans með sorg í hjarta.

Við minnumst hans sem góðs drengs, góðs félaga með góða kímnigáfu og trausts vinar.

Við sendum Ingunni dóttur Bjarna og öðrum fjölskyldumeðlimum samúðarkveðjur og þökkum fyrir að hafa átt allar góðar stundir með Bjarna.

Fyrir hönd Langholtsskólaárgangs 1954,

Óskar Jóhann Óskarsson.