Líkleg Aníta Hinriksdóttir er ein þeirra sem sótt var um styrk fyrir.
Líkleg Aníta Hinriksdóttir er ein þeirra sem sótt var um styrk fyrir. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Tókíó 2020 Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Íþrótta- og ólympíusamband Íslands hefur sótt um styrki fyrir 12 einstaklinga frá Alþjóða ólympíusambandinu í gegnum Ólympíusamhjálpina svokölluðu.

Tókíó 2020

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Íþrótta- og ólympíusamband Íslands hefur sótt um styrki fyrir 12 einstaklinga frá Alþjóða ólympíusambandinu í gegnum Ólympíusamhjálpina svokölluðu. Styrkirnir eru ætlaðir fyrir keppendur sem stefna á Ólympíuleikana í Tókíó 2020. Búast má við að átta af þessum 12 einstaklingum fái styrk og að upplýst verði um styrkþega fyrir jól.

Styrkirnir koma úr digrum sjóði Ólympíusamhjálparinnar en heildarfjármagn hans er 509.285.000 Bandaríkjadalir, jafnvirði um 54 milljarða króna. Sjóðnum er ætlað að auðvelda þeim sem mest þurfa á fjármagni til þess að halda, að komast á Ólympíuleikana.

Styrkveitingar eiga að hefjast í byrjun næsta árs og mun hver Íslendinganna átta, sem búast má við að hljóti styrk, fá jafnvirði um 105.000 króna á mánuði (1.000 dali) fram að Ólympíuleikunum í Tókíó, en ljóst er að sú upphæð vegur ekki nema að litlu leyti á móti heildarkostnaði við undirbúning fyrir leikanna. Ekki hefur verið gert opinbert fyrir hvaða Íslendinga sótt var um styrk fyrir, en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru meðal annarra hlaupakonan Aníta Hinriksdóttir, sundkonan Eygló Ósk Gústafsdóttir og lyftingakonan Þuríður Erla Helgadóttir á þeim lista.

Eygló og Aníta voru meðal átta styrkþega vegna ÓL í Ríó en auk þeirra hlutu styrki þau Ásdís Hjálmsdóttir frjálsíþróttakona, Ásgeir Sigurgeirsson skotíþróttamaður, Guðmundur Sverrisson frjálsíþróttamaður, Hrafnhildur Lúthersdóttir sundkona, Meisam Rafiei taekwondómaður og Þormóður Árni Jónsson júdómaður.