Degi er tekið að halla. Víkverji sér erlenda ferðamenn reyna að bjarga lífi sínu í niðamyrkri og ískaldri norðanáttinni. Eru þeir þó við öllu búnir að því er virðist. Eru í það minnsta vafðir inn í nokkur lög af flíkum. En dugir tæplega til.

Degi er tekið að halla. Víkverji sér erlenda ferðamenn reyna að bjarga lífi sínu í niðamyrkri og ískaldri norðanáttinni. Eru þeir þó við öllu búnir að því er virðist. Eru í það minnsta vafðir inn í nokkur lög af flíkum. En dugir tæplega til.

Augu þeirra ljúga ekki. Þeim líst ekki á blikuna. Velta því sjálfsagt fyrir sér hvers vegna þeir völdu Ísland sem áfangastað um háveturinn. Hvers vegna fóru þau ekki til Arúba eða Bahamaeyja? Ef til vill ná þau að sjá norðurljósin. Í því felst kannski einhver sárabót. Ferðaþjónustuaðilar rukka þau um „hóflega“ þóknun fyrir. En undrunin vegna upphæðarinnar dregur ekki dilk á eftir sér. Norðurljós sjá þau mögulega bara einu sinni á ævinni. Þá nennir fólk síður að röfla yfir verðinu sem því fylgir.

Gott finnst þó Víkverja að vita til þess að nú er í boði fjöldinn allur af veitingastöðum og öldurhúsum þar sem ferðamennirnir geta hlýjað sér, og gleymt um stund hvar þeir eru staðsettir á hnettinum. Slíkum stöðum hefur fjölgað mjög en sem betur fer hafa þeir sem óttast aukið aðgengi að áfengi ekki tekið eftir því. Ótrúlegustu aðilar geta hoppað á slíkan vagn eins og dæmin sanna. Síðast blandaði Ungmennafélag Íslands sér í þá umræðu af einhverjum ástæðu.

Um það þarf ekki að deila að við eyjaskeggjar höfum mun fleiri valmöguleika en áður ef við viljum gera okkur dagamun og fara út að borða. Getum þakkað það sprengingunni sem varð í ferðamennskunni. Þessu úrvali veitingastaða myndi ekki vera haldið úti eingöngu fyrir þá sem hér búa.

Reyndar kostar það sitt að fara út að borða hérlendis. Víkverji lætur það þó vera að kveinka sér vegna verðsins á matnum sjálfum. En ef drekka á vín með matnum þá rýkur reikningurinn upp.