Trausti Einarsson fæddist á Hellissandi 1. september 1935. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 28. nóvember 2017.

Foreldrar hans voru Sigríður Sesselja Hafliðadóttir, f. 17. júní 1908, d. 1. ágúst 1984, og Einar Ögmundsson, f. 26. febrúar 1899, d. 3. mars 1974.

Einar og Sigríður eignuðust átta börn: Þórveig Hrefna, f. 1931, d. 2004, Hafsteinn, f. 1932, d. 1987, Jóhanna Margrét, f. 1934, d. 2016, Tryggvi (tvíburabróðir Trausta), f. 1935, d. 1936, Sólmundur Tryggvi, f. 1941, Erna Sigríður, f. 1944, og Sæmundur, f. 1945.

19. október 1955 kvæntist Trausti Kristínu Erlu Jónsdóttur, f. 29. febrúar 1936, d. 2. apríl 2016. Foreldrar hennar voru Vigdís Helgadóttir, f. 1898, d. 1975, og Jón Þorvarðsson, f. 1891, d. 1982.

Börn Trausta og Kristínar Erlu eru:

1) Einar Tryggvi, f. 1955, kvæntur Sigríði Margréti Þorkelsdóttur, og eiga þau þrjár dætur: Sóley, f. 1999, Sunna, f. 2001, og Líf, f. 2006. Með fyrri konu sinni, Sigríði Snorradóttur, á Einar tvær dætur: Soffía Erla, f. 1980, gift Steinari Kaldal og eiga þau tvo syni: Kári og Kristinn, Vigdís Eygló, f. 1988, í sambúð með Mark Nelmida Ax. Fyrir á Einar soninn Helga Þór, f. 1976, barnsmóðir Sveinhildur Helgadóttir. Helgi Þór er í sambúð með Margréti Blöndal og börn þeirra eru Agnes Eir og Vilhjálmur Logi. Fyrir á Helgi Þór soninn Benedikt Jökul, barnsmóðir Kristín Kristjánsdóttir.

2) Ástríður Vigdís Traustadóttir, f. 1956, gift Guttormi B. Þórarinssyni, og eiga þau þrjár dætur: Vigdís Erla, f. 1992, unnusti Kristinn Kerr Wilson, Járngerður Kristín, f. 1993, og Margrét Katrín, f. 1995. Áður átti Guttormur tvö börn: Hjörtur, f. 1987, kvæntur Kaitlyn-Hua, þeirra dóttir er Thea, og Guðbjörg, f. 1989, í sambúð með Stefáni Ó. Stefánssyni og þeirra sonur er Stefán Ólafur.

3) Torfi Smári Traustason, f. 1958, kvæntur Sigfríði Sigurgeirsdóttur og eiga þau þrjú börn: Tinna Rut, f. 1981, í sambúð með Stefáni Short og eiga þau þrjú börn: Írena Rut, Lúkas Aron og Baltasar Smári, Trausti Geir, f. 1985, í sambúð með Láru Ólafsdóttur en dætur þeirra eru Elma Rún og Erla Fríða, Tryggvi Freyr, f. 1988, í sambúð með Árnýju S. Guðjónsdóttur.

4) Trausti Már Traustason, f. 1968, í sambúð með Elísabetu Gallagher og börn þeirra eru Magnús Már, f. 1996, Helena Rut, f. 2000, og Bryndís Björk, f. 2002.

Trausti lærði múraraiðn á árunum 1955-1959. Hann stundaði nám við Byggingartækniskólann í Kaupmannahöfn 1963-1964 og lauk meistaraprófi frá Iðnskólanum í Reykjavík 1967. Hann var formaður Múrarafélags Suðurnesja frá 1965-1970. Var um tíma í Rótarýklúbbi Keflavíkur og sat í stjórn 1987. Trausti stundaði sjálfstæðan atvinnurekstur í byggingariðnaði allt til dauðadags. Eftir hann standa mörg mannvirki, s.s. fjölbýlishús, iðnaðarhús, einbýlishús, skólar, kirkjur og sumarhús. Rak hann byggingarfyrirtæki sitt til margra ára.

Trausti og Kristín Erla bjuggu allan sinn búskap í Ytri-Njarðvík.

Útför Trausta verður gerð frá Ytri-Njarðvíkurkirkju í dag, 8. desember 2017, og hefst athöfnin klukkan 13.

Mig langar að skrifa nokkur orð um hann pabba minn, hann var góður maður í alla staði, vildi allt fyrir alla gera og hjálpaði fólki með ýmis góð ráð og hugsaði alltaf í lausnum. Það var alltaf lausn á öllu, hann var víðlesinn og voru ævisögur vinsælastar, bjartsýni einkenndi hann og horfði hann alltaf fram á veginn. Vinnuþjarkur var hann með eindæmum svo stundum þótti manni nóg um, byggði steinsteypt hús á áttræðisaldri og einnig fjölda smáhýsa sem hann hafði yndi af, þar sem hann gat unað sér einn fram á síðasta dag. Var reyndar enn að tala um byggingar á dánarbeðinum, þær áttu hug hans allan, er ábyggilega búinn að fá lóðir þarna uppi. Yfir vetrarmánuðina áttu Kanaríeyjar stóran sess í hans lífi og á sumrin var það bústaðurinn á Arnarhóli sem hann og mamma byggðu.

Pabbi var ekki mikið að elda á meðan mamma var á lífi, en þegar hún dó, tók hann til sinna ráða og voru þær ófáar hringingarnar yfir til mín, þar sem hann bauð mér í mat og var hann ýmist með kjötsúpu, baunasúpu, sigin fisk, svið – já bara rammíslenskan mat, sem hefur ábyggilega lengt líf hans svo um munar – eldaði hann bleikju þann 18. nóvember og það var það síðasta sem hann gerði í eldhúsinu og hún var svo góð, alúð og hlýja lögð í eldamennskuna. Allt sem hann gerði gerði hann vel, hversu lítið sem það var. Sagði hann alltaf „það á að gera hlutina vel“.

Faðir minn var engum líkur, greindist með krabbamein fyrir 17 árum, en það sló hann ekki út af laginu.

Hann barðist mikið við þennan vágest og tók það mikið á hann, en hann ætlaði sér að lifa sem hann gerði vel og lengi. Hann hefur marga fjöruna sopið í þessu lífi og eitt það sárasta var þegar viðskiptabanki hans sneri baki við honum á örlagastundu. Hann jafnaði sig eiginlega aldrei á því.

Óréttlæti var eitthvað sem pabbi þoldi illa, orðspor pabba er demantur sálar hans. „Orð skulu standa“ var mikið notað. Hann var ættjarðarvinur mikill og sagði alltaf að Ísland væri besta land í heimi þrátt fyrir misvitra bankamenn, en ekki verður á allt kosið.

Takk fyrir allt, kæri faðir, meistari, lærifaðir, vinur, afi barna minna, takk fyrir að vera ávallt til staðar. Takk fyrir allt.

Þinn elskandi sonur,

Trausti Már Traustason.

Trausti Einarsson tengdafaðir minn er fallinn frá. Mér er það ljúft að þakka fyrir vegferðina með Trausta. Það fór vel á með okkur frá fyrstu tíð. Trausti kunni að meta það að ég hafði við honum á göngu. Það var því mikilvægt fyrir mig að koma vel búinn „suður með sjó“ því ævinlega fórum við karlarnir í langar göngur um Njarðvíkur og Keflavík, jafnvel upp á heiði í flugstöðina eða í Helguvík. Verðandi konan mín þakkaði mér ævinlega fyrir þær næðisstundir sem hún naut með móður sinni á meðan. Trausti hafði frá mörgu að segja. Hann þekkti landið og húsin og síðan þekktu flestir Trausta. Þessar göngur með Trausta voru mikil heilsubót og einstök fræðsla um menn og málefni í bænum. Þeir sem við hittum á gönguferðum okkar voru þakklátir Trausta fyrir íbúðirnar sem þeir höfðu keypt af honum, og reynst þeim vel. Trausti var íþróttamannlega vaxinn og hraustur. Hann var mikið karlmenni, kurteis og þolinmóður. Réttsýnn og ærlegur og vildi standa við skuldbindingar sínar. Trausti var flinkur með múrskeiðina og fljótur. Hann var með afbrigðum vinnusamur og féll sjaldan verk úr hendi, skipulagður og framsýnn. Þá var samvera okkar á Kanarí okkur báðum mikil heilsubót þegar við tókumst á hendur að endurbæta íbúð þar. Við flísalögðum öll gólf og innréttuðum eldhús. Þá sannaði sig enn og aftur hvað Trausti var úrræðagóður. Við þurftum sand í múrblöndu og þá voru hæg heimatökin að fara í fjörusandinn, en betra að gera það á kvöldin þegar sólbaðsgestir voru farnir og sandburður okkar minna áberandi. Meira og minna allt hans ríkidæmi fast og laust fé, fjölmörg hús og að lokum hans eigið heimili féll í hendur Sparisjóðsins á árunum í kringum 1990. Þetta var skiljanlega mikið högg, en engum vörnum var við komið. En það er eitt að missa frá sér nokkur hús, og annað að missa heilsuna. Það var blóðkrabbameinið sem setti strik í reikninginn. Eitt sinn dreymir Trausta sem hann standi við legstein sinn. Þegar hann sagði okkur þennan draum var hann afar ánægður því ártalið endaði á 7 þannig að enn voru nokkur ár til stefnu. Síðan liðu árin og árið 2007 og Trausti tekinn til við að byggja hús bæði stór og smá. Í nokkur skipti tókst mér að leggja Trausta lið í byggingarvinnunni og það var okkur báðum skemmtun og lærdómur. Allt var eins og maður var vanur frá fyrri tíð, kaffiskúr, ketill, neskaffi og kex og svo að spjalla saman, „það er um að gera að halda áfram að gera það sem er skemmtilegt og lifa lífinu“. Í haust þvarr fjör Trausta og meðferð við blóðkrabbameini lauk. Það var viðbúið hvert stefndi og tengdafaðir minn tók þá stefnu markvisst. Hann gaf upp andann sáttur og saddur lífdaga.

Nú eru tengdaforeldrar mínir báðir fallnir frá. Eftir situr góð minning um hlýjar og myndarlegar móttökur þeirra hjóna í minn garð frá fyrstu kynnum. Blessuð sé minning þeirra.

Guttormur Björn

Þórarinsson.

Elskulegur tengdapabbi minn Trausti Einarsson hefur kvatt þessa jarðvist. Í 40 ár hef ég þekkt þennan sómamann. Það var aldrei lognmolla í kringum Trausta, hann var skoðanamikill maður, góður húmoristi með stórt hjarta. Heiðarlegri mann er vart hægt að hugsa sér. Hann taldi það skyldu hvers og eins að standa við gefin loforð og bera ábyrgð á því sem maður tæki að sér. Hann var kraftmikill athafnamaður sem gafst aldrei upp. Eflaust hefur hann fengið þennan aukakraft sem marga vantar frá elskulega tvíburabróður sínum sem lést aðeins eins árs að aldri, en þeir voru eineggja tvíburar.

Trausti var heimspekingur og mannvinur sem gaman var að spjalla við um lífsins gagn og nauðsynjar. Hann var víðlesinn og fróður og hafði góða frásagnarhæfileika.Hann hreif fólk með sér og setti svip á umræðuna. Hann var fastur fyrir og ekkert fékk honum haggað. En þrátt fyrir það var gaman að eiga við hann skoðanaskipti og stjórnmálaumræður voru sjaldan langt undan. Aldrei heyrði ég hann segja styggðaryrði um nokkurn mann.

Trausti elskaði lífið og var með framkvæmdaglampa í augum alveg fram á síðasta dag. Hann sat aldrei auðum höndum og var skapandi og skemmtilegur. Þá talaði Trausti alltaf um að fólk ætti að eiga sér drauma og framkvæma þá. Það gerði hann svo sannarlega. Hann gladdist yfir velgengni afkomenda sinna og fylgdist vel með hverjum og einum.

Lífsgildi Trausta voru heiðarleiki, traust og vinnusemi. Þau gildi kenndi hann afkomendum sínum og lagði ríka áherslu á að allir nýttu tímann sinn vel og létu gott af sér leiða.

Ófáar voru ferðirnar hjá Erlu og Trausta til Kanarí og nutu þau lífsins þar. Þá skipulagði hann sælureit ættarinnar og kom því í kring að systkini hans byggðu sér sumarhús í landi Syðri-Reykja í Biskupstungum. Þarna sýndi Trausti og sannaði hversu mikill frumkvöðull og stórhugi hann var.

Trausti barðist við illvígan sjúkdóm í 17 ár, sem hann tókst á við af æðruleysi og bjartsýni. Aldrei heyrði maður hann kvarta og uppgjöf var ekki til í hans orðabók. Erla tengdamamma mín var honum mikil stoð og stytta í þessum veikindum. Missir hans var því mikill þegar hún féll frá á síðasta ári.

Trausti var frumkvöðull með mikinn sköpunarkraft og hann fór ekki troðnar slóðir. Hann var félagslyndur og góður ræðumaður. Það var gaman að hlusta á hann segja frá og er mér í fersku minni síðasti afmælisdagurinn hans 1. september síðastliðinn. En þá bauð hann afkomendum sínum, eftirlifandi systkinum og afkomendum þeirra til ferðaveislu á Snæfellsnesið á æskuslóðirnar. Þessi dagur var í alla staði yndislegur og einstakur alveg eins og tengdapabbi minn var sjálfur. Það var mannbætandi að þekkja Trausta og forréttindi að hafa verið tengdadóttir hans. Fyrir það verð ég ævinlega þakklát.

En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið,

og þín er liðin æviönn

á enda skeiðið runnið.

Í hugann kemur minning mörg

og myndir horfinna daga,

frá liðnum stundum læðist fram,

mörg ljúf og falleg saga.

(Höf. ók.)

Hvíl í friði elsku Trausti minn og Guð geymi þig.

Þín tengdadóttir

Sigfríður.

Það er skrítið að kveðja Trausta afa. Jafnvel þó svo að við vitum hvernig lífið gengur fyrir sig og að allir deyja að lokum var afi einhvern veginn ódauðlegur fyrir okkur systrum. Sama hversu veikur hann varð var hann alltaf með jákvætt hugarfar og leið best þegar hann hafði eitthvað fyrir stafni. Það leið ekki sá dagur sem afi var ekki með spennandi verkefni í gangi, enda handlaginn.

Hann var mikill fjölskyldumaður og var stoltur af sinni stórri fjölskyldu og sýndi hann það með bestu knúsum í heimi.

Við munum helst eftir afa á yngri árum í vinnufötunum, með steypu á höndunum og bros á vör, já, hann var alltaf brosandi.

Það er líka fast í minningunni þegar hann og amma komu heim frá Kanaríeyjum þar sem þau dvöldu oft heilu veturna í senn, það var alltaf svo gott að fá þau heim og þau bæði svo ótrúlega hamingjusöm.

Það er sárt að sjá afa fara en við vitum að Erla amma tekur vel á móti honum.

Guðbjörg, Vigdís Erla,

Járngerður Kristín og

Margrét Katrín.

Mikið er sárt að kveðja þig, elsku afi minn. Enn sárara er að hugsa til þess að elsku Erla amma og Trausti afi eru farin og koma aldrei aftur. Það er tómlegt að koma að Steinási í Njarðvík þessa dagana. Einungis eru 19 mánuðir síðan Erla amma kvaddi okkur í hinsta sinn. Loks ertu kominn aftur til hennar og þið sameinuð á ný. Þú varst alltaf svo stoltur af öllum afkomendum þínum, stórum sem smáum. Það var alltaf gaman að koma í heimsókn til þín, þú varst svo gestrisinn, smurðir brauð handa okkur og leyfðir hugmyndafluginu að ráða varðandi samsetningu á áleggi. Sem við brostum oft yfir. Þá fórstu iðulega út í bakarí og keyptir gúmmelaði með kaffinu, fórst með krakkana í bíltúr til að kaupa ís eða nammi og labbaðir með þau út að tjörninni. Þú varst dugnaðarforkur alla tíð, enda múrarameistari með meiru, þú byggðir fullt af húsum í Njarðvík, Hveragerði og víðar. Það er ekki langt síðan við kíktum í kaffi til þín og þú sýndir okkur möppu með öllum þeim húsum sem þú hafðir byggt. Þú sast aldrei auðum höndum, varst alltaf með einhver verkefni í gangi, alveg fram á þinn síðasta dag. Þú talaðir alltaf um að þig langaði til þess að flytja í íbúðina á efri hæðinni hjá þér því þar væri betra útsýni, en því miður varð ekki úr því. Vonandi ertu nú á betri stað með fallegt útsýni. Við fjölskyldan erum þakklát fyrir það að hafa öll heimsótt þig á sjúkrahúsið í Keflavík tveimur dögum áður en þú kvaddir okkur. Þú varst uppi í rúmi fárveikur en ætlaðir að fara fram úr rúminu til að taka á móti okkur, en við sögðum þér að liggja fyrir, þetta varst þú elsku afi, svo gestrisinn, alltaf.

Þitt starf var farsælt, hönd þín hlý

og hógvær göfgi svipnum í.

Þitt orð var heilt, þitt hjarta milt

og hugardjúpið bjart og stillt.

(Jóhannes úr Kötlum)

Takk fyrir allt, elsku afi minn. Sofðu rótt.

Þín,

Tinna Rut.

Í dag er bróðir minn Trausti til moldar borinn eftir margra ára baráttu við erfiðan sjúkdóm. Trausti var strax á unga aldri ákveðinn og framtakssamur drengur og alla tíð síðan. Hann var vel gefinn, stjórnsamur, stundum þrjóskur, fróður um ýmis málefni, vel lesinn, með ákveðnar skoðanir, hlustaði á aðra, ræddi gjarnan um starfið, samfélagið og lífið almennt. Sinnti vel þeim verkefnum sem hann tók að sér, vandvirkur og stóð við sitt. Trausti nam við Iðnskóla Keflavíkur, gerðist múrari og vann sem byggingarmeistari. Flest verkefni Trausta vann hann á Suðurnesjum og einnig víðar. Bræðurnir Trausti og Hafsteinn unnu saman um stund og fyrsta fjölskylduhús þeirra byggðu þeir saman. Trausti reyndist bróður sínum vel og aðstoðaði þegar þess var þörf. Trausti komst yfir jarðhitatengt svæði í Biskupstungum er Arnarhóll heitir og lét skipuleggja þar vinsæla sumarhúsabyggð. Erla og Trausti áttu litla íbúð á Kanarí sem reyndist þeim vel í alla staði. Við systkinin vorum alls átta og þrjú þau yngstu lifa. Við áttum frábæra foreldra og höfum sannarlega notið þess, höfum eignast góðar fjölskyldur sem stækka óðum. Samband okkar Trausta var ætíð mjög náið og hann reyndist mér vel hér heima og þegar ég var í námi erlendis. Við hittumst oft einir eða með fjölskyldum okkar og gátum rætt um hin ótrúlegustu málefni og nutum þess. Lífið og aðstæður breytast á langri ævi en oftast tókst Trausta að rétta við hag sinn og sagði að erfitt væri að varast erfiðleika lífsins og því mikilvægt að leita skynsamlegra lausna hverju sinni. Trausti hlaut aðdáun og virðingu þeirra sem til þekktu. Fyrir 17 árum veiktist Trausti alvarlega en með aðstoð góðra lækna og frábærrar fjölskyldu sinnar tókst að halda viðráðanlegri heilsu þinni öll þessi ár. Trausti hefur sýnt ótrúlegan styrk og innri kraft gegn þessum sjúkdómi og erfiðleikum í þessu lífi, algjör hetja. 1. september ákvað Trausti að fara til Snæfellsness með nánum ættingjum og vandmönnum. Ekið var um suðurhluta Snæfellsness á ættarsvæði móður okkar til Ingjaldshólskirkju. Þar er Tryggvi tvíburabróðir Trausta grafinn ásamt mörgum af ættingjum okkar og hélt Trausti hjartnæmt erindi yfir gröf hans. Þá var gengið til kirkju og sögð saga staðarins og síðan haldið til Hellissands að Hraunprýði, fyrsta heimili foreldra okkar, en þar fæddist Hrefna systir. Sæmundur og Haraldur frændur okkar leiðbeindu okkur. Kleppsbúð var nefnd þar sem Hafsteinn, Jóhanna og tvíburarnir Trausti og Tryggvi fæddust. Grímshús var nefnt er faðir okkar og Karvel bróðir hans áttu og veitti foreldrum þeirra og systkinum skjól og sögur sagðar sem tengdust ættinni. Að lokum var haldið að Hellu í Beruvík þar sem föðurforeldrar okkur bjuggu, svæðið skoðað úr fjarlægð og haldið heim í frábæru veðri. Ég held að Trausti hafi fundið á sér að líf hans væri senn á enda og því viljað fara þessa ferð.

Kæru börn Trausta, systkini,fjölskyldur þeirra, ættingjar og vinir. Sendi ykkur hjartnæmar samúðarkveðjur vegna fráfalls míns kæra bróður. Lengi lifi minning hans.

Sólmundur Tryggvi

og Astrid.

Láttu hug þinn aldrei eldast eða hjartað.

Vinur aftansólar sértu,

sonur morgunroðans vertu.

(Stephan G. Stephansson)

Þetta fallega ljóð minnir mig á föðurbróður minn, sem var síungur og nýtti tímann vel.

Trausti hafði allt sem prýðir góðan og heiðarlegan mann og bar nafn með rentu. Þeir sem þekktu hann virtu og elskuðu sökum mannkosta hans. Hann var vandaður og hreinskilinn í hegðun sinni, ljúfur og góður fjölskyldumaður. Hann var víðlesinn og fróður. Trausti vissi að skokk og sund væri mikil heilsubót og hélt sér í formi löngu áður en almenningur fór að stunda slíka heilsurækt.

Maður kom ekki að tómum kofanum hjá frænda mínum. Það var hægt að ræða við hann um allt milli himins og jarðar. Þrátt fyrir að vera önnum kafinn fylgdist hann með því sem unga fólkið í fjölskyldunni var að stússast, hvort sem það var á íþróttasviði eða öðru.

Trausti átti tvíburabróður, Tryggva, sem lést þegar þeir voru níu mánaða. Trausti hóaði fjölskyldunni saman til að fara vestur á Snæfellsnes að leiði Tryggva á 82. fæðingardegi þeirra 1. september síðastliðinn Það var vel heppnuð ferð í alla staði og táknræn kveðjustund gamla mannsins.

Trausti hafði mikil áhrif á líf okkar fjölskyldunnar. Þegar foreldrar mínir voru að byrja búskap fyrir tæpum 50 árum hvatti hann þau til að kaupa lóð, því að í Njarðvíkunum voru allir að byggja og ekki menn með mönnum nema að eiga lóð. Úr varð að lóðin var keypt og hafist handa við húsbyggingu sem er síðan æskuheimilið okkar. Pabbi, sem er tíu árum yngri en Trausti, keypti sumarbústaðalóð þrátt fyrir að vera að byggja einbýlishús á sama tíma. Trausti hafði tröllatrú á pabba og úr varð að lóðin var keypt og tvær aðrar lóðir fóru einnig innan fjölskyldunnar ásamt lóð Trausta. Hvatning frá stóra bróður var mikil og sumarbústaðareign var málið. Stórfjölskyldan úr Njarðvík naut þess næstu áratugina að svamla í heitum pottum, veiða í lækjum og að vera til. Ævintýrin í Arnarhól í Biskupstungunum veittu okkur margar ánægjustundir og við nutum við þess að vera í nágrenni við frændfólkið og gerum enn.

Við frændi vorum sammála um að það ætti að skrifa ævisögu hans en náðum bara að ræða málin.

Í viðskiptum náði hann hæðum og lægðum og stundum var ekki sanngjarnt hvernig hlutunum var fyrirkomið. Hver veit nema að sú saga verði sögð einn daginn.

Trausti var farsæll í einkalífi, en lífsförunautur hans, hún Erla, var dásamleg kona. Þau eignuðust fjögur elskuleg og góð börn og er ættgarður þeirra orðinn ansi stór.

Ég kveð frænda minn með söknuði og þakklæti fyrir allt. Hann hafði jákvæð áhrif á líf mitt og ég var hrifin af lífspeki hans. Hann gerði heiminn betri.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Ingigerður Sæmundsdóttir.

Trausti minn, þar sem ég get ekki kvatt þig á hefðbundinn hátt langar mig til að senda nokkrar línur. Ég geri það því þú ert einna eftirminnilegasta foreldri sem ég kynntist á æskuárum mínum. Því á ég seint eða aldrei eftir að gleyma þér. Ég var svo heppin að kynnast þér í gegnum Dísu dóttur þína, en þið bjugguð í þarnæsta húsi við okkur. Það sem mér finnst standa upp úr þegar ég hugsa um þig og ykkur Erlu er hvað það var notalegt að koma inn á heimili ykkar hjóna. Mér fannst ég alltaf vera svo velkomin, andrúmsloftið var ljúft og þægilegt. Það var tekið á móti mér með jákvæðni og virðingu. Slíkt var alls ekki sjálfsagt gagnvart börnum á þessum tíma og ég met það mikils.

Það sem stendur sérstaklega upp úr í minningunni um þig er þegar þú bauðst okkur vinkonunum Dísu, Sibbu og mér tæplega 14 ára gömlum að vinna við að reisa heljarmikla blokk við hliðina á Stapanum.

Þú varst búin að ráða nokkra stráka í sumarvinnu, meðal annars bræður Dísu. Af hverju var þá ekki líka hægt að ráða Dísu og leyfa okkur vinkonunum að fljóta með? Við vorum jú á svipuðu reki og þeir.

Fyrir nær hálfri öld var það vafalaust ekki algengt að stúlkur væru ráðnar í slík störf. En þú tókst af skarið og lést okkar æðstu drauma rætast. Þú ætlaðir að kanna hvort nægilegur dugur væri í okkur.

Meginverkefni okkar voru að járnbinda og hreinsa timbur. Við lögðum okkur allar fram til að klúðra ekki svona einstöku tækifæri. Ég gleymi aldrei hvað við urðum glaðar þegar við spurðum þig síðar hvort þú sæir eftir að hafa ráðið okkur. Þá sagðist þú alltaf geta treyst okkur þremur því við ynnum áfram þótt hann hyrfi okkur sjónum. Þú sagðir jafnframt að þú værir ekki alveg jafnviss um að þetta ætti við um strákana. Þetta var mikill sigur fyrir okkur vinkonurnar í fyrstu alvöruvinnunni okkar. Til að kóróna allt réðstu okkur aftur næsta sumar á eftir. Þessi lífsreynsla hefur án efa verið okkur afskaplega dýrmæt. Hún kenndi okkur til dæmis að við stelpur værum ekkert síðri en strákar, meira að segja í mjög óhefðbundnu kvennastarfi. Hún gaf okkur einnig sjálfstraust fyrir framtíðarstörf okkar.

Elsku Trausti minn, ég vil þakka þér og ykkur hjónum fyrir alla þá athygli og hlýju sem þið sýnduð mér í heimsóknum mínum.

Ég veit að þú áttir við erfið veikindi að stríða í mörg ár en stóðst þig eins og hetja í þeirri baráttu, þótt þú þyrftir að lokum að játa þig sigraðan.

Þetta er víst lífsins gangur fyrir okkur öll. Elsku Dísa, Einar, Smári, Trausti Már og aðrir ættingjar og vinir. Ég votta ykkur öllum innilega samúð mína vegna fráfalls Trausta og vona að þið geymið ljúfa minningu í brjósti ykkar um yndislegan mann og mikinn dugnaðarfork.

Sigurlaug Hauksdóttir.

Þegar líður að þeim tíma sem við köllum efri ár gerist það að við horfum á eftir fleiri vinum og nákomnum inn í svefninn langa. Kvaddur er Trausti Einarsson og þakkað fyrir mörg litrík og góð ár.

Ég kynntist Trausta fyrst almennilega eftir að ég flutti til Keflavíkur 1977.

Ástæða þess að kynni hófust var sú að ég leit á Erlu eiginkonu hans sem mína stóru fóstursystur og tók til við að heimsækja hana nokkuð reglulega meðan ég bjó á Suðurnesjum. Trausta sá maður oftast á fullri ferð, mann sem vann mikið og heilsaði glaðlega.

Hann var höfðingi heim að sækja og gestrisinn. Síðasta heimsókn mín yfir til nágrannans í Steinásnum var aðeins klukkustundu áður en hann var lagður inn á sjúkrahúsið þar sem eiginkonan kvaddi fyrir um einu og hálfu ári. Það fóru fá orð á milli okkar, hann orðinn illa farinn af veikindum sínum og heyrði mjög illa. Hann spurði samt: „Eruð þið flutt inn aftur?“ Ég svaraði játandi og Trausti brosti svo glaður með svarið. Hann vildi að fólk gæti byggt hús og búið í þeim og liðið vel. Í helgri bók segir um þá sem munu byggja hús.

Þar munu þeir búa óhultir, byggja hús og gróðursetja víngarða. ... Þeir munu skilja að ég er Drottinn, Guð þeirra.

(Esekíel 28:26)

Ég trúi því sem heilagt Orð Guðs segir svo ég bæti við þessari tilvitnun:

Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað?

(Jóhannesarguðspjall 14:2)

Þegar Jesús uppfyllir loforð sitt sem er öllum loforðum sterkara og sannara mun enginn þurfa að hafa áhyggjur af húsnæði né leigu.

Enginn mun þá geta tekið húsnæði af neinum né heimtað leigu eða skatta. Ég horfi með von og tilhlökkun til þess tíma þegar ég get heimsótt vini mína í fögur híbýli, þar sem ríkir friður og velsæld. Engir sjúkdómar, engar áhyggjur, engir glæpir. Það gamla sem var er horfið og Guð segir svo sjálfur í orði sínu:

mun hann afmá dauðann að eilífu. Drottinn Guð mun þerra tárin af hverri ásjónu og afmá smán lýðs síns af allri jörðinni því að Drottinn hefur talað.

(Jesaja 25:8)

Vissulega finnst mörgum Biblían flókin, við erum svo vön því að vera mötuð af myndrænu efni en í síðustu bókinni eru huggunarrík orð sem eru jafngild í dag og þau voru fyrir nærri tvö þúsund árum, því þúsund ár eru sem dagur í eilífð Guðs.

Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.

(Opinberunarbókin 7:17)

Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.

(Opinberunarbókin 21:4)

Með því að minna á þessi gömlu loforð Frelsarans okkar og að hann er vegurinn, sannleikurinn og lífið, vil ég votta börnum, barnabörnum og ástvinum Trausta og Erlu innilega samúð. Megi nýtt heimili á nýjum stað í framtíðinni fyllast af gleði og endurfundum.

Ég sakna vina minna Erlu og Trausta mikið en vonin huggar og styrkir.

Þórdís Ragnheiður

Malmquist.

Geðprúða glæsimennið Trausti Einarsson er fallið frá. Foreldrar hans, Einar Ögmundsson og Sigríður Hafliðadóttir voru bæði Snæfellingar og stofnuðu sitt heimili á Hellissandi á Snæfellsnesi og fæddist Trausti 1. september 1935 í Keflavík á Hellissandi og ólst þar upp til ársins 1939, er hann fluttist með foreldrum sínum og þremur systkinum til Ytri-Njarðvíkur og þar bættust þrjú systkini í hópinn. Flest systkinin settust síðan að nánast á sömu torfunni í Ytri-Njarðvík. Samheldni fjölskyldunnar var mikil og eru mér eftirminnilegar heimsóknir til stórfjölskyldunnar. Þar ríkti ávallt glaðværð og mikill samhugur með þeim yngri sem eldri og á góðum stundum létti sönggleðin lundina.

Miklir kærleikar voru með móður minni og Sigríði móðursystur og sem ungur drengur dvaldist ég oft í hlýjum faðmi fjölskyldunnar þar syðra og þaðan á ég margar góðar minningar. Börn Siggu frænku voru þá búin að stofna sín heimili á sinni heimaslóð nema þau tvö yngstu. Dáðist ég þá strax að samheldni þessarar stórfjölskyldu í leik og starfi.

Trausti lærði múrverk í Keflavík, stundaði síðan nám í byggingatæknifræði í Kaupmannahöfn og síðan í Meistaraskóla Iðnskólans. Hann stundaði síðan lengst af sjálfstæðan atvinnurekstur sem afkastamikill byggingameistari. Hann var kappsamur verkmaður, fylgdi fast eftir metnaðarfullum byggingaráformum sínum, oftast við góð skilyrði, en lét ekki hugfallast þó að horfur væru ekki bjartar á fasteignamarkaðnum. Hann var vandvirkur og úrræðagóður í sínu starfi og með honum þótti gott að starfa.

Trausti var afar geðþekkur maður, léttur í lund, rólegur í fasi og mikið glæsimenni á velli. Hann bar óblandna virðingu fyrir sínu samferðafólki og öll nærvera hans smitaði umhverfið af velvild og kærleika. Með honum var gott að vera.

Æðruleysi þessa góða frænda míns var aðdáunarverð. Hann barðist lengi við illvígt mein, en með sínum sterka vilja háði hann sigursæla baráttu við þann vágest. Þegar þessi vágestur hafði knúið dyra fórum við saman ásamt Sólmundi bróður hans í nokkurra daga veiðiferð í Haga í Staðarsveit þar sem móðursystir okkar hafði búið á árum áður. Eftir fengsæla sjóbirtingsveiði gerðum við gjarnan vel við okkur í mat og drykk og sátum síðan drykklangar stundir og ræddum um lífið og tilveruna. Þar náði ég að kynnast þessum frænda mínum vel, hans uppbyggjandi lífsviðhorfum, jákvæðu skapgerð og þeim mikla krafti sem með honum bjó.

Hann hafði stælt líkama sinn afar vel svo hann væri sem best í stakk búinn að taka við þolraunum í aðgerð sem hann var að búa sig undir í Svíþjóð.

Þetta var í eina skiptið sem við ræddum veikindi, öll hans samskipti við samferðafólkið miðuðu að því að upplifa og benda á jákvæðar hliðar þessa jarðlífs og upplifanir þess, enda sendi hann manna mest og best frá sér jákvæða strauma til að bæta sitt umhverfi. Hann skilaði sínu, og það vel.

Þessa góða drengs verður saknað af mörgum.

Fjölskyldu hans sendi ég hugheilar samúðarkveðjur og veit að þar lifir áfram sá góði andi sem Trausti lagði góðan grunn að.

Þorsteinn Jónsson.