Fyrirmynd Hrafnhildur Lúthersdóttir hefur vakið athygli á sundi með frammistöðu sinni og jafnframt unnið að útbreiðslu íþróttarinnar.
Fyrirmynd Hrafnhildur Lúthersdóttir hefur vakið athygli á sundi með frammistöðu sinni og jafnframt unnið að útbreiðslu íþróttarinnar. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sund Sindri Sverrisson sindris@mbl.is „Við vorum mikið í umræðunni og það var góður gangur í sundinu bæði á árinu 2015 og 2016, og auðvitað 2017 líka. Við höfum sýnt árangur,“ segir Hörður J.

Sund

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

„Við vorum mikið í umræðunni og það var góður gangur í sundinu bæði á árinu 2015 og 2016, og auðvitað 2017 líka. Við höfum sýnt árangur,“ segir Hörður J. Oddfríðarson, formaður Sundsambands Íslands, en innan sérsambanda ÍSÍ fjölgaði iðkendum hlutfallslega langmest í sundi á milli áranna 2015 og 2016.

Alls fjölgaði iðkendum í sundi um tæplega 49%, úr 2.690 í 4.005 árið 2016, en úttekt um iðkendafjölda í öllum íþróttagreinum má sjá á baksíðu íþróttablaðs Morgunblaðsins í dag. Ljóst er að sögulegur árangur Eyglóar Óskar Gústafsdóttur og Hrafnhildar Lúthersdóttur á allra síðustu árum gæti ráðið miklu um þessa fjölgun í sundinu.

„Við erum með íþróttamann ársins 2015 í Eygló, og Hrafnhildi í 2. sæti árið 2016, og þetta hefur auðvitað sitt að segja. Þær hafa farið fyrir okkur, sérstaklega Hrafnhildur, út um landið og hjálpað við að breiða út íþróttina. Hún fór til að mynda eftir Ólympíuleikana í Ríó til Borgarness, austur á land og víðar,“ segir Hörður. Aðspurður hvort búast megi við frekari fjölgun á næstu árum segir Hörður það velta að miklu leyti á aðstöðu:

„Nú þurfum við að fara að fá meira laugarpláss. Auðvitað er aðstaða sums staðar sem er ekki nýtt en í Reykjavík, á Akureyri, Akranesi og norðanverðum Vestfjörðum vantar aðstöðu til að hægt sé að byggja betur upp. Þetta er alltaf í umræðunni á þessum stöðum, og Reykjavík er til að mynda með í sínum plönum að setja upp sundlaugar í nýjum hverfum, en við þurfum bara að gæta þess að dragast ekki aftur úr. Við vitum alveg að til dæmis á Akureyri gæti hreyfingin stækkað en það vantar fleiri brautartíma til að bjóða upp á æfingar, og hið sama má segja uppi á Akranesi. Þar hafa sundmenn nýtt laugina í misjöfnum veðrum en við þurfum á því að halda að fá innilaug til að árangurinn verði betri.“ 4