8. desember 1936 Listverslun var opnuð í Reykjavík og þótti það tíðindum sæta. Þar voru seld verk margra af þekktustu listamönnum bæjarins.

8. desember 1936

Listverslun var opnuð í Reykjavík og þótti það tíðindum sæta. Þar voru seld verk margra af þekktustu listamönnum bæjarins. „Það hefur skort hér að til væri staður þar sem listamenn gætu sýnt verk sín og menn fengið tækifæri til þess að kaupa þau,“ sagði í Vísi.

8. desember 1950

Ævintýraeyjan eftir ensku skáldkonuna Enid Blyton kom út. Þetta var fyrsta bókin í vinsælum bókaflokki en síðar bættust við Doddabækurnar, Fimmbækurnar og Dularfullubækurnar.

8. desember 1967

Dýrin í Hálsaskógi, leikrit Thorbjörns Egner, kom út á hljómplötu. Síðar kom það á snældu og loks á geisladisk.

8. desember 1971

Samkomulag var undirritað milli Íslands og Kína um stjórnmálasamband ríkjanna. Sendiráð var opnað í Reykjavík árið eftir.

8. desember 2008

Sjö voru handteknir þegar þrjátíu mótmælendum var meinaður aðgangur að þingpöllum. Morgunblaðið sagði atvikið ekki eiga sér hliðstæðu. Síðar voru „níumenningar“ kærðir fyrir athæfið.

Dagar Íslands | Jónas Ragnarsson