Einar Sveinbjörnsson fæddist 10. maí 1950. Hann andaðist 22. nóvember 2017. Útför Einars fór fram 1. desember 2017.

Í dag kveðjum við Einar Sveinbjörnsson, fjölskylduvin til fjölda ára.

Kynni okkar voru þegar börn okkar felldu saman hugi og stofnuðu fjölskyldu. Mikill samgangur var á milli okkar allar hátíðar og þá sérstaklega á jólunum. Minnisstæðust eru jólin 2008 þegar þú nefndir að líklega yrðir þú ekki með okkur næstu jól.

Barráttan við meinið var erfið og maður dáðist að þrautseigjunni öll þessi ár. Nú er baráttunni lokið og þú ert kominn á betri stað, elsku Einar okkar.

Við munum sakna þín sárlega en góðar minningar lifa áfram með okkur.

Þó ég sé látinn,

harmið mig ekki með tárum.

Hugsið ekki um dauðann

með harmi og ótta.

Ég er svo nærri

að hvert eitt ykkar tár

snertir mig og kvelur,

þó látinn mig haldið.

En þegar þið hlæið

og syngið með glöðum hug

sál mín lyftist upp í mót

til ljóssins.

Verið glöð og þakklát

fyrir allt sem lífið gefur.

Og ég, þó látinn sé,

tek þátt í gleði ykkar yfir lífinu.

(Kahlil Gibran.)

Guðrún og Hannes.