Jólatónleikar Norskir neytendur hlýða nú margir hverjir á Barnakór Kársness í auglýsingum.
Jólatónleikar Norskir neytendur hlýða nú margir hverjir á Barnakór Kársness í auglýsingum. — Morgunblaðið/Eggert
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is „Við erum virkilega ánægð með að Telia hafi svona góðan smekk og sjái fegurðina í þessu lagi.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

„Við erum virkilega ánægð með að Telia hafi svona góðan smekk og sjái fegurðina í þessu lagi. En um leið er gaman að vita til þess að Norðmenn heyra íslenska tungu í auglýsingum fyrirtækisins yfir hátíðirnar,“ segir Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, í samtali við Morgunblaðið.

Vísar hún til þess að í jólaauglýsingum skandínavíska fjarskiptafyrirtækisins Telia í Noregi má nú heyra jólalagið „Klukkur um jól“ sem flutt er af Skólakór Kársness ásamt meðlimum úr Sinfóníuhljómsveit Íslands. Síminn lét útfæra lagið fyrir sig og hafði keypt réttinn á því fyrir innlendan markað, en lagið kom fyrst fyrir í jólaauglýsingu Símans árið 2012. Hefur Telia nú keypt notkunarréttinn fyrir Noreg.

Verið vinsælt í gegnum árin

Gunnhildur Arna segir norska auglýsingastofu hafa haft samband við Símann í von um að nálgast lagið. „Við bentum henni á Harald Vigni Sveinbjörnsson tónlistarmann sem útfærði lagið fyrir okkur. Við höfum réttinn hér heima, en Telia gat hins vegar stokkið á lagið fyrir Noregsmarkað. Auglýsingin okkar er orðin partur af sjónvarpsdagskrá jólanna hér heima og ætlum við að nota hana enn og aftur yfir komandi hátíðir,“ segir hún.

Haraldur Vignir segir gott til þess að vita að íslensk tunga fái að hljóma í Noregi yfir hátíðirnar. „Þetta stef hefur verið rosalega vinsælt í gegnum árin, Síminn notað það lengi og nú mun lagið lifa góðu lífi í Noregi,“ segir hann og bætir við að Norðmenn hafi sótt nokkuð hart eftir því að fá lagið í sínar hendur. „Enda sögðu þeir mér að þeir væru hrifnastir af þessari útgáfu lagsins,“ bætir Haraldur Vignir við.

Fyrsta skipti sem íslenskan er valin

Stine Brufjell, hjá markaðs- og þróunardeild Telia í Noregi, segir þetta vera í fyrsta skipti sem íslensk tunga kemur fyrir í auglýsingum fjarskiptafyrirtækisins þar.

„Við vorum í fyrra með enska útgáfu af þessu lagi. Okkur líkaði það mjög vel og fengum svo góð viðbrögð að við ákváðum að nota aðra útgáfu af því í ár,“ segir hún, en auglýsingarnar má meðal annars nálgast á YouTube á netinu og er þar nær undantekningarlaust spurt út í heiti lagsins og flytjendur.

Spurð hvers vegna fyrirtækið hafi ákveðið að notast við íslenska útgáfu af jólalaginu svarar Brufjell: „Það er engin sérstök ástæða fyrir því að við notum íslenska útgáfu önnur en það að okkur finnst hún hafa yfir sér dulrænt yfirbragð.“