Erna Ýr Öldudóttir ernayr@mbl.is #metoo bylgjan hefur farið sem eldur í sinu um heim allan eftir að leikkonur í Bandaríkjunum stigu fram og sökuðu kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein um kynferðislega áreitni og ofbeldi. Á sunnudag kl.

Erna Ýr Öldudóttir

ernayr@mbl.is

#metoo bylgjan hefur farið sem eldur í sinu um heim allan eftir að leikkonur í Bandaríkjunum stigu fram og sökuðu kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein um kynferðislega áreitni og ofbeldi.

Á sunnudag kl. 16, á lokadegi sextán daga átaks Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi, mun fjölbreyttur hópur íslenskra kvenna koma saman á Nýja sviði Borgarleikhússins og lesa frásagnir og reynslusögur kvenna hérlendis.

Fram koma Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Steinunn Valdís Óskarsdóttir fyrrverandi borgarstjóri, leikkonurnar Kristbjörg Kjeld, Halldóra Geirharðsdóttir og Ilmur Kristjánsdóttir, tónlistarkonurnar Hildur og Sigríður Thorlacius, Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari, Hrafnhildur Lúthersdóttir ólympíufari, Björk Eiðsdóttir ritstjóri og fleiri, að því er segir í tilkynningu.

333 konur skrifa undir yfirlýsingu KÍTÓN sem birt var í gær

Svipaðir viðburðir verða haldnir samhliða þessum í Samkomuhúsinu á Akureyri og í Herðubreið á Seyðisfirði. Frásagnirnar eru úr eftirfarandi #metoo hópum: Konur í sviðslistum og kvikmyndagerð, stjórnmálum, fjölmiðlum, íþróttum, tónlist, tækni- og hugbúnaðariðnaði, verkalýðshreyfingunni, vísindum og réttargæslu. Óviðeigandi hegðun, áreitni og ofbeldi virðast því láta fáar starfsstéttir ósnortnar. Viðburðunum verður streymt hjá RÚV.

Nú hafa 333 konur skrifað undir yfirlýsingu KÍTÓN, Félags kvenna í tónlist: „Við krefjumst þess að fá að vinna vinnuna okkar án áreitni, ofbeldis eða mismununar,“ segir m.a. í yfirlýsingu þeirra. Úr réttarvörslukerfinu barst einnig yfirlýsing, þar sem segir m.a.: „Kvenfyrirlitning, kynbundið og kynferðislegt áreiti er vandamál í öllum lögum samfélagsins, einnig innan réttarvörslukerfisins,“ ásamt 45 frásögnum kvenna þaðan.

Áður höfðu hátt í 300 konur í hugbúnaðar- og tækniiðnaði skrifað undir yfirlýsingu svipaðs efnis þar sem segir m.a.: „Það er ólíðandi að ekki sé tekið á umkvörtunum ef sá sem áreitir er metinn „of verðmætur“. Þeir sem gera öðrum óbærilegt að sinna sínu starfi, eru ekki og geta aldrei verið, verðmætari en starfsandinn og fyrirtækið. Slíkt verðmætamat og vinnubrögð þarf að uppræta.“