Trú Starfsemi á vegum Nýrrar dögununar er jafnan í Háteigskirkju.
Trú Starfsemi á vegum Nýrrar dögununar er jafnan í Háteigskirkju. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Skilningur á mikilvægi sálgæslu og andlegs stuðnings þegar fólk verður fyrir áföllum er í dag orðinn almennur.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Skilningur á mikilvægi sálgæslu og andlegs stuðnings þegar fólk verður fyrir áföllum er í dag orðinn almennur. Nú þykir sjálfsagt og eðlilegt að leita sér stuðnings ef maki eða barn deyr eða annar sem stendur hjartanu nærri,“ segir K. Hulda Guðmundsdóttir formaður Nýrrar dögunar – samtaka um sorg og sorgarviðbrögð.

Í kvöld, föstudag kl. 20:00, verður opið hús í safnaðarheimili Háteigskirkju í tilefni af 30 ára afmæli samtakanna. Starfsemi Nýrrar dögunar felst einkum í því að vera með stuðningshópa fyrir fólk sem misst hefur sér nákomna og að standa fyrir fræðsluerindum um sorg og viðbrögð við henni. Starfandi eru hópar sem styðja við þá sem hafa til dæmis misst maka, börn eða foreldra ótímabært. Er hátturinn sá að fólk sem er að ganga í gegnum erfiða reynslu fær stuðning frá fólki sem hefur kynnst svipuðum aðstæðum. Frá stofnun samtakanna hefur þessi aðstoð á grundvelli jafningja reynst mjög dýrmæt.

Tala og leita sér hjálpar

„Á þessum þrjátíu árum hafa margir notið þjónustu Nýrrar dögunar og fundist það hjálpa sér mikið. Við höfum notið velvildar Háteigskirkju og verið með starfsemina þar um árabil okkur að kostnaðarlausu og reyndar á fleiri stöðum. Við finnum að samfélagið hefur gjörbreyst. Sú var tíðin að réttast þótti að fólk bæri harm sinn í hljóði. Nú þykir sjálfsagt og eðlilegt að fólk sem missir ástvini sína þurfi að tala um sorgina og leita sér hjálpar við að finna henni farveg. Í sumum tilfellum getur aðstoð verið forsenda þess að fólk komist aftur út í samfélagið sem virkir þátttakendur,“ segir Hulda sem telur mikilvægt að ræða þessi mál sem lýðheilsu.

„Vandinn í dag er sá að það fer mikið eftir því hvernig dauðann ber að, hversu markvissa aðhlynningu aðstandandi fær. Þau sem missa skyndilega eru ekki jafnsett þeim þar sem aðdragandi er að andláti.“

Lenda í einangraðri stöðu

Hulda nefnir að ef andlát ber að inni á sjúkrastofnun, eftir til dæmis langvarandi krabbameinsmeðferð, þá fá aðstandendur góðan stuðning frá viðkomandi sjúkrahúsi og geta leitað ráðgjafar og stuðnings hjá velferðar-og líknarfélögum alveg frá því að veikindi koma upp og eftir að sjúklingur deyr.

„Ef andlát verður skyndilega, til dæmis af slysförum, er ekkert stuðningsnet sem sinnir aðstandendum. Þeir geti því lent í einangraðri stöðu, án allrar aðstoðar. Þetta á ekki síst við um fólk sem kærir sig ekki um trúarlega aðkomu, en prestar eru sú stétt sem hefðin sýnir að kallaðir eru til, þegar dauðsföll verða.“

En hvernig verður best komið til móts við fólk sem hefur misst ástvini sína – og þarf hjálp sem það getur hugsanlega ekki nálgast sjálft? Til að byrja með, segir Hulda, er mikilvægt að sími Rauða krossins 1717 hafi upplýsingar um úrræði svo aðstandendur viti að þar fáist svör við því hvert hægt er að fá stuðning.

Samhæfa krafta

„Í náinni framtíð þarf að skoða hvort hægt er að samhæfa betur þá krafta sem í dag eru dálítið á tvist og bast þegar kemur að stuðningi í sorg. Við viljum sjá þá sem sinna syrgjendum sameinast með miðstöð fyrir starfsemi sína. Þar verði hlúð að fólki eftir smærri og stærri áföll. Gild rök eru fyrir því að góður stuðningur geti dregið úr alvarlegum afleiðingum sorgar og áfalla sem upp geta komið. Það væri ekki úr vegi að hefja umræðu um þetta lýðheilsumál við nýjan heilbrigðisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, áður en afmælisárið er liðið,“ segir Hulda að síðustu.