[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Bogi Þór Arason bogi@mbl.

Baksvið

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði þegar hann tilkynnti þá ákvörðun sína að viðurkenna formlega Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels að hún væri „óhjákvæmileg forsenda“ þess að hægt yrði að ná friðarsamningum milli Ísraela og Palestínumanna en margir hafa látið í ljós efasemdir um þá fullyrðingu.

Ákvörðun Trumps vakti hörð viðbrögð víða um heim, einkum í arabalöndum, og enginn þjóðarleiðtogi lýsti yfir stuðningi við hana nema einn: Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels. „Þetta er mikilvægt skref í átt að friði,“ sagði Netanyahu þegar hann fagnaði yfirlýsingu Trumps um ákvörðunina í fyrrakvöld. Aðrir spáðu því að hún myndi torvelda friðarviðræður fyrir milligöngu Bandaríkjastjórnar og leiðtogar Palestínumanna sögðu hana koma í veg fyrir að þær gætu hafist.

Stóð við loforðið

Í ræðu sinni í fyrrakvöld benti Trump á að forverar hans í embættinu höfðu lofað að viðurkenna Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels og flytja sendiráð Bandaríkjanna þangað en stóðu ekki við loforðið þegar þeir komust til valda í Hvíta húsinu.

Ein af ástæðum þess að Trump var kjörinn forseti er að stuðningsmenn hans telja hann ólíkan stjórnmálaelítunni í Washington og fyrri forsetum að því leyti að hann standi við orð sín. Forsetinn leggur mikla áherslu á að halda þessari ímynd og það er ein af meginástæðum þess að hann ákvað að standa við loforðið um að flytja sendiráðið.

Ákvörðun Trumps nýtur mikils stuðnings meðal evangelískra kjósenda í Bandaríkjunum og fjárhagslegra bakhjarla hans í kosningabaráttunni. Þörf hans fyrir stuðning þeirra hefur aldrei verið eins mikil og nú vegna lítils fylgis forsetans í skoðanakönnunum og erfiðleika hans að undanförnu, m.a. vegna rannsóknarinnar á tilraunum Rússa til að hafa áhrif á kosningarnar í fyrra. Forverar hans í embættinu töldu að pólitíski ávinningurinn heima fyrir af því að flytja sendiráðið til Jerúsalem væri ekki nógu mikill til að réttlæta áhættuna sem fylgdi slíkri ákvörðun, að mati fréttaskýranda CNN , Stephens Collinson. Hann skírskotar m.a. til hættunnar á því að ákvörðunin grafi undan friðarumleitunum og leiði til árása á Bandaríkjamenn í Miðausturlöndum. Trump ákvað að taka þessa áhættu og tók pólitískan ávinning sinn fram yfir þjóðarhagsmuni, að því er CNN hefur eftir Aaron David Miller, sérfræðingi í málefnum Miðausturlanda og fyrrverandi ráðgjafa utanríkisráðherra Bandaríkjanna í stjórnum repúblikana og demókrata.

Tímabundið bakslag?

Forsetinn og ráðgjafar hans voru viðbúnir því að ákvörðunin vekti hörð viðbrögð en telja líklegt að bakslagið verði aðeins tímabundið, að því er fréttavefur CNN hefur eftir tveimur embættismönnum í Hvíta húsinu. Þeir sögðu að margir embættismenn hefðu komið að ákvörðuninni til að gera forsetanum kleift að standa við kosningaloforðið og tryggja um leið að hún ylli sem minnstum skaða í friðarumleitunum Bandaríkjastjórnar. Þeir hefðu komist að þeirri niðurstöðu að þetta væri rétti tíminn til að tilkynna ákvörðunina, þ.e. áður en samningaviðræður Ísraela og Palestínumanna gætu hafist. Embættismenn Trumps stefna að því að friðaráætlun Bandaríkjastjórnar liggi fyrir einhvern tíma á næsta ári og vona að hægt verði að lægja öldurnar áður en hún verður kynnt. Þótt embættismennirnir vonist til þess að ákvörðun Trumps greiði fyrir friðarsamningum á næsta ári viðurkenna þeir að það hafi ekki verið meginmarkmiðið með henni.

Baráttan við Írana mikilvægari en málstaður Palestínumanna?

Trump lítur á sig sem afburðasnjallan samningamann og hefur lofað að beita sér fyrir friðarsamningi milli Ísraela og Palestínumanna, „samningi aldarinnar“ eins og hann hefur verið kallaður. Tengdasonur Trumps, Jared Kushner, og aðalsamningamaður forsetans, Jason Greenblatt, hafa annast þessar samningaumleitanir. Hermt er að stjórnvöld í Sádi-Arabíu gegni lykilhlutverki í viðræðunum og leggi fast að Mahmoud Abbas, forseta heimastjórnar Palestínumanna, að fallast á nýja friðaráætlun. Fátt hefur frést af nýju friðartillögunum og skýringin kann að vera sú að þær séu rýrar í roðinu.

Trump lítur á krónprins Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman, sem mikilvægan bandamann, aðallega vegna aðgerða hans til að stemma stigu við auknum áhrifum klerkastjórnarinnar í Íran. Sádar og Íranar hafa lengi eldað grátt silfur, einkum eftir byltinguna í Íran árið 1979 þegar klerkastjórnin komst til valda. Úlfúðina má m.a. rekja til spennunnar milli tveggja meginfylkinga múslíma, en flestir íbúar Sádi-Arabíu eru súnníar og sjíar eru í meirihluta í Íran. Stjórnvöld í Sádi-Arabíu og fleiri löndum þar sem súnníar eru við völd hafa miklar áhyggjur af auknum áhrifum Írana í Miðausturlöndum, m.a. vegna stuðnings þeirra við uppreisnarmenn í Jemen, Hizbolla-hreyfinguna í Líbanon og vopnaða hópa í Sýrlandi og Írak. Átökin í Miðausturlöndum eftir arabíska vorið svonefnda hafa orðið til þess að ráðamenn í löndum súnnímúslíma leggja nú mikla áherslu á að halda Írönum í skefjum og vægi málstaðar Palestínumanna hefur minnkað. Embættismenn Trumps telja að þetta hafi orðið til þess að ráðamennirnir í löndum súnnímúslíma séu nú fúsir til að taka Ísraela í sátt og líti á þá sem gagnlega bandamenn í baráttunni við hreyfingar sem njóta stuðnings Írana. Löndin hafa því hafið samstarf við leyniþjónustu Ísraels og þurfa á hjálp Trumps að halda í baráttunni við Írana, að sögn fréttaskýranda breska ríkisútvarpsins í Bandaríkjunum, Barböru Plett Usher. „Ef leiðtogar arabaríkjanna við Persaflóa verða með mikinn hávaða vegna Jerúsalem-málsins en grípa ekki til neinna aðgerða verður það ný sönnun fyrir því að Miðausturlönd hafa breyst,“ segir hún.

Haft hefur verið eftir bandarískum embættismönnum að þeir voni að ákvörðun Trumps verði til þess að hægrimenn í stjórn Netanyahus verði líklegri til að fallast á tilslakanir sem greiði fyrir friðarsamningum við Palestínumenn. Plett Usher telur hins vegar að ákvörðun Trumps sé líklegri til að skaða friðarumleitanir hans og verða vatn á myllu þeirra Ísraela sem eru algerlega andvígir stofnun Palestínuríkis og hvers konar tilslökunum í deilunum um framtíðarstöðu Jerúsalem og landtökubyggðir gyðinga. Þótt Trump hefði sagt að Bandaríkin styddu enn tveggja ríkja lausnina ef Ísraelar og Palestínumenn næðu samkomulagi um hana hefði hann ekki lýst því afdráttarlaust yfir að hann styddi stofnun Palestínuríkis, eins og Palestínumenn hefðu vonast til. Viðurkenning Bandaríkjanna á Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels yrði til þess að miklu erfiðara yrði fyrir Abbas að hefja friðarviðræður við Ísraela.

Leiðtogar arabaríkjanna hafa mótmælt ákvörðun Trumps harðlega en líklegt er að þeir láti þar við sitja, að mati stjórnmálaskýrenda í Miðausturlöndum. „Ákvörðun Trumps kemur leiðtogum samstarfsríkja Bandaríkjanna í mjög vandræðalega stöðu, einkum vegna þess að ólíklegt er að þeir gangi lengra í andstöðunni við hana,“ hefur fréttaveitan AFP eftir einum þeirra.

Annar telur að þótt leiðtogar arabaríkjanna vilji friðarsamninga við Ísraela og aukið samstarf í baráttunni við Írana séu þeir ekki tilbúnir til að leggja allt í sölurnar. Þeir vilji t.a.m. forðast að aðgerðir þeirra eða aðgerðaleysi verði til þess að klerkastjórnin í Íran eigni sér málstað Palestínumanna sem njóta eindregins stuðnings almennings í arabaríkjunum.

Líklegt er að ákvörðunin kyndi undir hatri í garð Bandaríkjanna í Miðausturlöndum. Meiri óvissa er um hvort hún breyti stefnu arabaríkjanna sem eru sum háð fjárstuðningi Bandaríkjanna.

Stóðu ekki við loforðið
» Bill Clinton lofaði í kosningabaráttunni árið 1992 að flytja sendiráð Bandaríkjanna til Jerúsalem og gagnrýndi forvera sinn, George Bush, fyrir að „bera ítrekað brigður á óskorað vald Ísraels yfir sameinaðri Jerúsalem“. Hann efndi þó ekki loforðið og taldi að flutningur á sendiráðinu til Jerúsalem myndi koma í veg fyrir tilraunir hans til að tryggja friðarsamninga milli Ísraela og Palestínumanna.
» George W. Bush gagnrýndi Clinton fyrir að efna ekki loforðið og hét því að flytja sendiráðið til Jerúsalem – án þess að standa við orð sín.
» Barack Obama gagnrýndi ekki Clinton og Bush fyrir að flytja ekki sendiráðið. „Jerúsalem verður áfram höfuðborg Ísraels og verður að vera óskipt áfram,“ sagði hann þó í kosningabaráttunni árið 2008.