Ólöf Ríkarðsdóttir fæddist á Djúpavogi 14. júní 1922. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Eiri 26. nóvember 2017.

Foreldrar hennar voru Ríkarður Jónsson myndhöggvari, f. 20. september 1888, d. 17. janúar 1977, og María Ólafsdóttir húsfreyja, f. 20. ágúst 1883, d. 8. desember 1967. Systkini Ólafar eru Már, arkitekt, f. 4.12. 1915, d. 17.11. 1946, giftur þóreyju Bjarnadóttur, f. 28. 2. 1924, d. 10.10. 2011, Björg, f. 27.10. 1918, d. 7.3. 2010, gift Pétri Þorsteinssyni, f. 4.1. 1921, d. 23.10. 1993, og Ásdís Elísabet, f. 14.6. 1922.

Ólöf fékk lömunarveiki þriggja ára og barðist við afleiðingar hennar allt sitt líf. Hún var frumkvöðull í málefnum fatlaðra og ein af stofnendum Sjálfsbjargar. Þar gegndi hún fjölmörgum trúnaðarstörfum. Ólöf starfaði um árabil á skrifstofu félagsins, meðal annars sem félagsmálafulltrúi og sat í stjórn byggingarnefndar Sjálfsbjargarhússins.

Ólöf var ein af stofnendum Öryrkjabandalags Íslands og gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir samtökin. Hún gegndi formennsku hjá Öryrkjabandalagi Íslands á árunum 1973 til 1975 og aftur árin 1993 til 1997. Síðustu ár vann Ólöf að því ásamt systur sinni, Ásdísi, að koma upp höggmyndasafni á Djúpavogi með verkum föður þeirra.

Útför Ólafar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 8. desember 2017, klukkan 15.

Nú er Ólöf Ríkarðsdóttir móðursystir mín látin í hárri elli. Andlát hennar kemur því ekki á óvart en nú hefur lokast gluggi sem ekki verður opnaður aftur. Hún var vinmörg og ég veit að allir þeir minnast hennar með hlýju og söknuði. Hún vann alla ævi af dugnaði og samviskusemi og kom miklu í verk. Þegar skrifuð verður saga um réttindabaráttu öryrkja og fatlaðra sést að hún hefur verið einn merkasti frumkvöðullinn. En ég ætla ekki að fara út í það hér. Mig langar einungis að kasta á hana kveðju og þakka henni fyrir einlæga vináttu og stuðning.

Ég man að hún sagði mér einu sinni að faðir sinn, Ríkarður Jónsson, hefði sagt við sig að maður skuli ekki ætlast til neins af öðrum því þá verði uppskeran einungis vonbrigði. Eins og líf hennar horfir við mér þá lifði hún einmitt þannig. Hún stólaði á sjálfa sig en mat vináttu og hjálpsemi annarra. Í raun var það svo að henni auðnaðist að gefa öðrum miklu meir af sér en hún þáði af öðrum.

Ef eitthvað bjátaði á hjá vinum eða ættingjum þá var oft leitað til hennar því henni lét vel að hlusta og menn vissu að þeir gátu treyst henni. Henni var hreinlega í blóð borið að vera sálusorgari þó ekki væri það á trúarlega vísu skv. hefðbundnum skilningi. Þetta reyndi ég oft á sjálfum mér og fór af fundi hennar sælli en ég kom ef svo bar undir. Þessi eiginleiki er mér einna minnisstæðastur í hennar fari.

Við systkinin minnumst heilsteyptrar konu og jafnframt vitum við að nú er mikil breyting hjá Dísu frænku en þær voru hvor annarri stoð og stytta á löngum köflum í lífinu og verður nú tómlegra en áður hjá henni.

Mig langar í lokin að vitna í gamla konu sem ég heyrði eitt sinn segja er hún kvaddi vinkonu sína við gröfina: Ég vona að moldin verði henni góð. Ég, Þórunn og systkini mín sendum Ásdísi innilega samúðarkveðju.

Þorsteinn Pétursson.

Ólöf Ríkarðsdóttir, kær vinkona til margra ára, lést í hárri elli á Hjúkrunarheimilinu Eiri. Við höfðum kynnst árið 1951, ég þá 16 ára gömul – hún 12 árum eldri. Ég var þá að byrja að vinna úti og fékk starf á skrifstofu KRON. Þar starfaði Olla og ég tel það mína gæfu að hafa kynnst henni því fáar manneskjur hafa haft eins mikil áhrif á mig og hún hafði á þeim árum. Á skrifstofunni var jafnan góður andi og allir báru mjög mikla virðingu fyrir Ollu enda var hún einstök manneskja – mjög vel gefin, skemmtileg og alltaf var stutt í húmorinn hjá henni. Olla lifði svo sannarlega með reisn.

Og hún var mjög listræn, mikill fagurkeri og afkastamikil; allt lék í höndunum á henni. Enda átti hún ekki langt að sækja það – dóttir Ríkarðs Jónssonar myndhöggvara, þekkts og virts listamanns. Hún var fötluð frá æskudögum og hafði frumkvæði að innflutningi fyrsta hjólastólsins, sem hingað barst – ef ég man rétt. Olla átti farsælan starfsferil – var m.a. formaður Öryrkjabandalagsins í nokkur ár og um langt skeið var hún í forystuhópi Sjálfsbjargar.

Hún var alltaf jafn glaðleg og hress – og ánægjulegt við hana að spjalla. Hún var svo vel að sér, fylgdist svo vel með – og hafði svo mikla tilfinningu fyrir umhverfi og þróun mála í okkar samfélagi að það var jafnan nánast upplifun að heimsækja hana og setjast að spjalli yfir kaffibolla. Auk þess var hún svo hlý persóna og aðlaðandi að hugur minn var jafnan vakandi – og ýtti við mér þegar of langur tími hafði liðið frá síðustu heimsókn minni til hennar. Þá greip ég stundum símann og við spjölluðum nokkra stund. En Olla hafði stundum frumkvæðið og hringdi í mig – jafnvel eftir að hálf öld var liðin síðan við unnum saman í KRON. Það er í rauninni alveg magnað að vinátta okkar og hlý tengsl skyldu haldast í meira en hálfa öld. Ég er mjög þakklát fyrir það.

Á síðari árum bjuggu þær Olla og Dísa tvíburasystir hennar saman og ég votta Dísu innilega samúð mína við andlát systur hennar.

Sigríður Guðjónsdóttir.

Þá eru Krondömurnar allar farnar, nú síðast Ólöf frænka mín.

Sem barn fékk hún lömunarveikina og var langdvölum á sjúkrahúsi í Danmörku. Fyrir vikið varð hún almælt á danska tungu.

Á stríðsárunum hóf hún hóf störf á skrifstofu KRON, sem þá var til húsa uppi á efstu hæðinni á Skólavörðustíg 12, og vann alltaf við borðið hjá aðalbókaranum, móður minni, sem fylgdi henni oftast nær heim að vinnu lokinni, og kynntist henni og fjölskyldunni, frændfólki sínu, vel fyrir vikið. Ólöf var vinsæl á skrifstofunni. Þar slógu líka starfsstúlkurnar skjaldborg um hana. Því fór það svo að þegar yfirmennirnir ætluðu að segja Ólöfu upp störfum á grundvelli fötlunar hennar tóku samstarfskonur hennar sig saman og sögðust allar ætla að segja upp störfum ef Ólöf yrði látin hætta, enda væri það léleg afsökun fyrir uppsögn að konan væri fötluð. Þetta var einstakt á þessum tíma, þegar ekkert var farið að huga að réttindabaráttu fatlaðra eða kjörum.

Síðar gerðust þau feðginin, Ríkarður myndhöggvari og hún, stofnendur Sjálfsbjargar, þar sem Ólöf byrjaði að starfa af krafti. Það starf hefur verið ómetanlegt. Hún var líka mikil baráttukona í pólitík, og gaman var að tala við hana um landsmálin, þótt ekki værum við alltaf sammála um allt, eins og gengur og gerist.

Ég kynntist Ólöfu strax sem barn, og skemmtilegri manneskju hef ég ekki kynnst, enda var hún líka afar barngóð og umhyggjusöm. Hún hafði ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum, og var oft ómyrk í máli ef henni líkaði ekki eitthvað, en lét það samt ekki hafa áhrif á vináttu og frændskap, þótt hún stæði fast á sínu.

Hún var svo einstakur og sterkur persónuleiki að maður tók eiginlega alls ekkert eftir því að hún væri fötluð. Það var líka borin mikil virðing fyrir henni. Það fann maður glöggt, hvar sem hún fór. Hún lét heldur ekkert buga sig.

Ólöf hafði líka gott skopskyn og gat oft séð spaugilegu hliðarnar á málunum. Svo var hún heill fræðasjór að tala við, og maður kom ríkari af fundi hennar. Hún erfði listrænt eðli föður síns og hafði góðan smekk í listum og menningu. Þegar ég fór í það að gera upp íslenskan skó, sem Ríkarður hafði búið til fyrir móður mína í eina tíð, og málningin var farin að flagna af, þá ræddi ég það við Ólöfu, og hún leiðbeindi mér þá, hvaða liti ég ætti að fá mér til að gera við hann. Þannig var oft hægt að leita til Ólafar um margt. Hún gat alltaf ráðlagt fólki heilt á hvaða sviði sem var. Hún var líka afar fróð um réttindi fatlaðs fólks og gat þess vegna frætt bæði móður mína og mig um slíkt, sem oft á tíðum var okkur ókunnugt.

Þegar ég nú kveð hana hinstu kveðju er efst í huga mínum ómælt þakklæti fyrir langa og góða viðkynningu og ómetanlega vináttu, og bið henni allrar blessunar þar sem hún er nú. Hafi hún þökk fyrir allt og allt. Þar sem góðir menn fara eru guðs vegir. Ásdísi og öðrum eftirlifandi aðstandendum votta ég innilega samúð mína.

Blessuð sé minning Ólafar Ríkarðsdóttur.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir.

Kær vinkona mín og baráttufélagi, Ólöf Ríkarðsdóttir, er öll.

Hugsjónakona sönn er horfin af sviðinu, hugsjónakona þar sem jöfnuður og réttlæti voru leiðarstjörnur alla tíð, en ekki bara hugsjónakona heldur enn frekar öflug baráttukona fyrir þeim sjónarmiðum jafnréttis í víðustu merkingu sem hún beitti sér fyrir hvar sem var á vettvangi.

Þegar ég kom til þings 1971 og hitti Ólöfu þá bauð hún mig velkominn og fagnaði hún mér hjartanlega sem samherja en ekki síður sem Austfirðingi, enda átti Austurland djúpar rætur í vitund hennar og viðhorfum, Austurland var henni alltaf hjarta nærri, ættrækin var hún með afbrigðum og margfróð um ætt sína og annarra. Hugur þeirra systra Ásdísar og hennar kom gleggst fram í Ríkarðssafninu á Djúpavogi, þar sem höfðingslund þeirra fékk bezt að blómstra. Þar átti Ólöf fjölmargar vinnustundir til að gjöra þetta mögulegt.

Síðar fékk ég að kynnast félagsmálakonunni Ólöfu, þar sem hún var í forystu fremst, hvort sem var hjá Sjálfsbjörg eða ÖBÍ. Þar áttu þau sem á einhvern hátt glímdu við ákveðna hömlun sinn eindregna og hjartaheita talsmann sem á var hlustað. Ólöf var ekki hinn þögli hlutleysingi, hún kom svo víða við og var hvarvetna metin að verðleikum sakir gáfna sinna og málafylgju, sakir skoðana sinna þar sem sá er erfiðari átti lífsgönguna var metinn til jafns við aðra samfélagsþegna, sjálfsagður hlutur að dómi Ólafar.

Þessa nutu Alþýðubandalagið og síðar Vinstri hreyfingin – grænt framboð. Í Ólöfu áttu þessar hreyfingar öruggan bakhjarl og það munaði um hana þar eins og annars staðar. En svo varð undirritaður starfsmaður ÖBÍ og þá var Ólöf þar auðvitað í forystu og um tíma formaður Öryrkjabandalagsins og þar markaði hún sín spor til heilla fyrir bandalagið og „fólkið okkar“ eins og Ólöf kallaði félaga þess bandalags . Þar varð okkur einkar vel til vina, enda ómetanlegt að eiga hana að, einlægan félaga og skemmtilegan, því sú hlið hennar, glettnin góð, var áberandi í öllum störfum hennar í bland við baráttuandann og framsæknina, afbragðshæfileikar hennar komu þá afar vel í ljós, saga bandalagsins ljós í hennar huga, saga öryrkja almennt, þar var hvergi að tómum kofum komið.

Ekki var það verra að við áttum sömu þjóðfélagssýnina um sannan sósíalisma og framkvæmd hans til heilla og að þeim málum snerist tal okkar oftlega.

Mest var þó um vert að hafa átt vináttu hennar og atfylgi sem auðgaði hugarsýn manns. Fyrir það er þakkað í dag og það eru margir sem eiga þar mikla ágætissögu.

Tvíburasysturinni frábæru, henni Ásdísi, sendum við Hanna innilegustu samúðarkveðjur. Veri hún Ólöf Ríkarðsdóttir kært kvödd. Þar gekk um veg gjöful hugsjónakona sem hvergi dró af sér í baráttu sinni fyrir bættu mannlífi. Munabjört minning merlar í hug.

Helgi Seljan.

Sjálfsbjörg, landssamband hreyfihamlaðra, vill hér kveðja einn frumkvöðla samtakanna, Ólöfu Ríkarðsdóttur, sem var stofnfélagi í fyrsta félagi Sjálfsbjargar. Allt frá þeim tíma var Ólöf ötul baráttukona fyrir réttindum og málefnum fatlaðra. Þannig gegndi hún í áranna rás fjölmörgum ábyrgðar- og trúnaðarstörfum innan samtaka okkar og starfaði einnig á skrifstofu okkar í áraraðir, m.a. sem félagsmálafulltrúi.

Ólöf kom víða við í málefnastarfi fatlaðra. Hún vann að og var einn af stofnendum Öryrkjabandalagsins fyrir hönd Sjálfsbjargar og starfaði að ýmsum málefnum á vegum þess. Tvisvar gegndi hún embætti formanns ÖBÍ; árin 1973 til 1975 og aftur árin 1993 til 1997. Ólöf var ekki aðeins ötul við að benda á það sem betur mætti fara hvað varðar aðgengi fyrir alla, kjör lífeyrisþega og önnur mál sem lengi hafa verið efst á baugi. Í stuttu viðtali við Morgunblaðið árið 1997 kom eftirfarandi fram; Ólöf Ríkarðsdóttir hefur orðið áþreifanlega vör við breytingu á framkomu fólks frá því var er hún gekk um við tvo stafi og til þess er hún nú þarf að nota hjólastól. „Ef einhver er með viðkomandi t.d. er talað við hann yfir höfuð þess sem situr í hjólastólnum og það er talað um þann í hjólastólnum í þriðju persónu, rétt eins og hann sé óviti eða geti ekki talað,“ sagði Ólöf. Á þetta þurfi svo sannarlega að minna á þarna og jafnvel enn í dag.

Við sem erum í hagsmunabaráttunni í dag stöndum í mikilli þakkarskuld við Ólöfu, sem og aðra frumherja sem unnu ötullega að bættri stöðu fatlaðra í samfélaginu.

Sjálfsbjörg, landssamband hreyfihamlaðra sendir ættingjum Ólafar, vinum og samstarfsmönnum og samherjum í baráttu fatlaðra innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning þessarar mætu konu og frumherja.

Bergur Þorri

Benjamínsson,

formaður Sjálfsbjargar.

Kveðja frá Öryrkjabandalagi Íslands

„Ég gat gengið innandyra með því að nota tvo stafi. Það skipti miklu máli þó ekki væri nema bara vegna þess að meðan maður stendur er maður á jafnréttisgrundvelli við aðra en um leið og einhver sest í hjólastól er eins og sumir telji að viðkomandi geti ekkert. Þá er talað yfir höfuðið á honum.“ Þetta mælti Ólöf Ríkarðsdóttir, fyrrverandi formaður Öryrkjabandalags Íslands, í viðtali fyrir fáum árum. Þessi orð lýsa ekki aðeins henni heldur einnig þeim veruleika sem við mörg búum við og þeirri baráttu og elju sem einkenndi æviferil Ólafar.

Ólöf Ríkarðsdóttir fæddist á Djúpavogi árið 1922. Tveggja ára gömul fékk hún lömunarveiki og eftir það átti hún erfitt með gang. Hún flutti síðar suður ásamt fjölskyldu sinni og gekk í Samvinnuskólann þaðan sem hún lauk prófi árið 1941. Hún sagði í viðtali að sig hefði langað til að taka stúdentspróf og fara svo í háskólann. En gerði það ekki. Háskólinn var of langt í burtu. Fjarlægðin var farartálmi sem hún síðar sigraðist á. Hún var meðal þeirra fyrstu úr hópi fatlaðs fólks hérlendis til þess að eignast bíl sem var breytt svo hún gæti sjálf ekið honum. Þetta var árið 1947 og hún fór um akandi síðan.

Ólöf var ekki einungis brautryðjandi og baráttukona í eigin lífi. Hún hóf snemma þátttöku í réttindabaráttu fatlaðs fólks og nýtti krafta sína í þágu annarra ævina á enda. Hún tók þátt í stofnun Sjálfsbjargarfélagsins í Reykjavík 1958 og settist sama ár í framkvæmdastjórn landssambands Sjálfsbjargar. Óslitið síðan vann hún að því að auka réttindi og bæta aðbúnað og kjör fatlaðs fólks. Hún tók þátt í stofnun Öryrkjabandalags Íslands árið 1961 og sat þar í stjórn frá árinu 1971 til 1997. Hún var formaður ÖBÍ á árunum 1973-75 og svo aftur 1993-1997. Sem formaður lagði hún mikla áherslu á húsnæðismál öryrkja og uppbyggingu bandalagsins sem fatlað fólk nýtur góðs af enn í dag.

Ólöf var öflug í erlendu samstarfi, ekki síður en hér innanlands. Hún var lengi vel eina konan í norrænu samstarfi fatlaðs fólks og ruddi þar öðrum braut. Hún fylgdi því eftir sem hún nam af öðrum. Til dæmis dönsku endurhæfingarlögin sem hún hafði með sér heim af ráðstefnu árið 1963 en þau urðu síðar fyrirmynd íslenskra laga.

Aðgengi var einnig eitt af hennar helstu baráttumálum. Hún samdi undir lok áttunda áratugarins, ásamt Oddi Ólafssyni þingmanni og stjórnarmanni í SÍBS og ÖBÍ til margra ára, tillögu til þingsályktunar um aðgengi að opinberum byggingum. Hún barðist einnig fyrir betra aðgengi um allt samfélagið, sérmerktum bílastæðum og ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk.

Þegar hún lét af embætti formanns ÖBÍ árið 1997 kvaddi Helgi Seljan, þáverandi félagsmálafulltrúi ÖBÍ og fv. alþingismaður, hana með þessari stöku:

Ólöfu ég aðeins kveð

einhvern veginn svona:

Hefur dögum ljóma léð,

ljúf en einörð kona.

Ólöf Ríkarðsdóttir var óþreytandi baráttukona og brautryðjandi. Hún var öflug, réttsýn, og drífandi, stöðugt í leit að leiðum til að bæta hag og réttindi fatlaðs fólks. Hún hafði mikinn áhuga á fólki og veitti mörgum mikilvæga aðstoð við að takast á við lífið eftir langvarandi veikindi eða slys. Þá var hún mikil félagsvera, hafði góða nærveru og var skemmtileg í góðra vina hópi. Þannig munum við Ólöfu Ríkarðsdóttur og minnumst hennar með söknuði, hlýju og þakklæti fyrir sitt framlag í þágu fatlaðs fólks og öryrkja. Við sendum Ásdísi, systur ólafar, öðrum ættingjum og vinum innilegar samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Öryrkjabandalags Íslands,

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður og

Lilja Þorgeirsdóttir,

framkvæmdastjóri.

Það var upp úr miðri síðustu öld að fatlaðir hér á landi tóku að mynda samtök til að berjast fyrir mannréttindum sínum og margvíslegum hagsmunum. Sjálfsbjörg – landssamband fatlaðra varð til og síðar Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp. Af þessari baráttu er mikil saga og merkileg. Ein af þeim sem fóru þar fremst í flokki var Ólöf Ríkarðsdóttir. Húsnæðismál voru snar þáttur í þessari baráttu og þar lágu leiðir okkar Ólafar saman undir lok síðustu aldar. Við mynduðum samstarfshóp ýmissa samtaka og kölluðum hópinn Þak yfir höfuðið. Það var Ólöf sem stakk upp á nafninu. Í hópnum voru samtök öryrkja og fatlaðra, samtök aldraðra, námsmenn og félagar í húsnæðissamvinnufélaginu Búseta.

Í nokkur ár var barist og barist fyrir úrbótum í húsnæðismálum þessara hópa og með stuðningi vinveitts ráðherra – Jóhönnu Sigurðardóttur – tókst að ná nokkrum árangri. Félagslega húsnæðiskerfið var stóreflt og samtökin Þak yfir höfuðið áttu þar stóran hlut að máli.

Við vorum vön að hittast í húsakynnum Sjálfsbjargar við Hátún og þar var gott að koma. Þarna var Ólöf á heimaslóð enda einn af frumherjunum sem stóðu að byggingu Sjálfsbjargarhússins. Ég kynntist á þessum vettvangi baráttufólkinu sem stóð í fararbroddi í samtökum öryrkja og fatlaðra og það var dýrmæt lífsreynsla að kynnast öllu þessu góða fólki. Þar átti félagslyndi og ljúfmennska Ólafar stóran hlut.

Svo lágu leiðir okkar Ólafar saman á öðrum vettvangi. Á þessum árum voru þær systur, Ólöf og Ásdís, að ganga frá listaverkum föður síns, Ríkarðs Jónssonar, myndhöggvara. Safn hans átti að flytjast í Löngubúð á Djúpavogi, þar sem æskuslóðir Ríkarðs voru. Í safninu var gipsmynd – brjóstmynd af þeim fræga klerki Árna Þórarinssyni frá Stóra-Hrauni á Snæfellsnesi. Ólöf hafði einhvern grun um að ég væri frá þessum slóðum og spurði mig að því, hvort það væri staður eða safn fyrir vestan, þar sem brjóstmyndin ætti betur heima. Það varð svo niðurstaðan að finna séra Árna stað í Laugargerðisskóla í Eyja- og Miklaholtshreppi og þaðan horfir klerkur nú yfir gamla prestakallið sitt, Miklaholtsprestakall. Öllum þótti þetta góð lausn.

Ég minnist Ólafar Ríkarðsdóttur með mikilli virðingu. Hún var einstaklingur sem gaf öllum af sjálfri sér sem kynntust henni. Blessuð sé minning hennar.

Reynir Ingibjartsson.

Hugurinn reikar tæp 35 ár aftur í tímann þegar ég fór sem hjálparmaður í ferð Sjálfsbjargarfélaga sumarið 1983. Segja má að þar hafi starfsferill minn verið ráðinn, því í ferðinni kynntist ég góðu fólki sem ég átti eftir að starfa með í þágu samtaka fatlaðra. Ein þeirra var Ólöf Ríkarðsdóttir, síðar náinn samstarfsmaður minn, kær og tryggur vinur. Ólöf var meðal stofnenda Sjálfsbjargar og ÖBÍ og gegndi m.a. formennsku í ÖBÍ. Ólöf var einn af mikilhæfustu frumkvöðlum í starfi í þágu Sjálfsbjargar og ÖBÍ. Sönn, staðföst og samkvæm sjálfri sér og þorði að segja meiningu sína og standa við orð sín af áræði en jafnframt af virðingu og ljúfmennsku. Það var mikil reisn yfir Ólöfu, hún hafði mikla útgeislun og ljúfa nærveru, var fínleg en samt svo sterk. Var smekkmanneskja. Átti og ók um á nýlegum og fínum bílum sem hæfðu henni vel.

Ólöf var fylgin sér og gat verið föst fyrir sem þurfti og mun eflaust alltaf þurfa í baráttu fyrir réttlæti og jöfnuði. Hún ruddi brautina og gaf tóninn fyrir fjölmarga sem síðar tóku við keflinu. Þannig lagði hún sterkan grunn með sigrum sem svo margir njóta. Þegar ég að loknu námi árið 1988 hóf störf hjá ÖBÍ og Þroskahjálp voru skrifstofur okkar Ólafar í Sjálfsbjargarhúsinu og við hittumst reglulega. Ég lærði mikið af Ólöfu, enda hún óspör á fróðleik og ráðleggingar. Lífssýn hennar var jöfnuður fyrir alla. Hún vann mikið og óeigingjarnt starf, hafði mikið starfsþrek, sífellt með hugann við bættan hag félaga sinna. Við Ólöf fórum m.a. saman á fundi erlendis. Þar naut hún sem annars staðar virðingar og velvildar. Til marks um tryggð Ólafar keyrði hún til Húsavíkur til þess að vera við brúðkaup okkar Sveinbjargar árið 1990. Ávallt var ánægjulegt og gefandi að heimsækja Ólöfu og Ásdísi tvíburasystur hennar. Fyrst á Grundarstíginn og í sumarhús þeirra í Hveragerði og síðar í glæsilegt hús þeirra í Klukkurimanum.

Faðir þeirra var Ríkarður Jónsson, myndhöggvari og voru heimili þeirra prýdd glæsilegum munum eftir Ríkarð. Það var ævintýri líkast að koma í vinnustofu Ríkarðs á Grundarstígnum sem þær systur leyfðu að standa óbreyttri.

Þar voru m.a. afsteypur af brjóstmyndum fjölda fólks. Engu líkara en maður væri í herbergi þéttsetnu fólki.

Við hittumst ekki oft síðustu árin en þegar ég kom í heimsókn var að venju tekið á móti mér af rausn og ljúfmennsku. Líkt og tíminn hefði staðið í stað og við værum að tala saman á skrifstofu Ólafar fyrir tæpum 30 árum. Það var góð tilfinning.

Ég þakka Ólöfu af heilum hug samfylgdina og samstarfið. En fyrst og fremst vináttuna og það sem hún var mér og fjölskyldu minni.

Ávallt gefandi, áhugasöm og hvetjandi. Ég votta Ásdísi og öðrum ástvinum Ólafar innilega samúð.

Ég mun áfram geyma vel og njóta ljúfra minninga um mikla og sanna manneskju og dýrmætan vin.

Helgi Hróðmarsson.